FH og Fram eru komin með forystu í sínum einvígjum í átta liða úrslitunum um Íslandsmeistaratitil karla í handknattleik en áttu afar ólíka leiki gegn HK og Haukum í gærkvöld.
FH hafði talsverða yfirburði gegn HK í Kaplakrika og sigraði 32:21 eftir að hafa mest komist fimmtán mörkum yfir í síðari hálfleiknum. Staðan var 15:9 í hálfleik en FH stakk endanlega af á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks.
Jóhannes Berg Andrason skoraði sjö mörk fyrir FH og Ásbjörn Friðriksson, sem lék sinn 500. leik fyrir félagið, gerði fimm mörk. Sigurður Jefferson Guarino skoraði fjögur mörk fyrir HK.
Fram lagði Hauka að velli í Úlfarsárdal, 28:27, og var með forystuna allt frá 20. mínútu leiksins. Mest munaði sjö mörkum á liðunum í síðari hálfleik en Haukar löguðu stöðuna með góðum endaspretti og skoruðu tvö mörk á síðustu mínútunni en það var ekki nóg til að ógna sigri Fram í lokin.
Rúnar Kárason skoraði sjö mörk fyrir Fram, Reynir Þór Stefánsson og Marel Baldvinsson sex mörk hvor. Skarphéðinn Ívar Einarsson skoraði sex mörk fyrir Hauka og Birkir Snær Steinsson fimm.
Þessi lið mætast aftur á mánudagskvöldið og þá geta FH og Fram tryggt sér sigra í einvígjunum en annars verða oddaleikur eða -leikir í Kaplakrika og í Úlfarsárdal á föstudagskvöldið kemur.
Í dag og kvöld leika hins vegar Afturelding – ÍBV og Valur – Stjarnan sína fyrstu leiki og er leikið í Mosfellsbæ og á Hlíðarenda.