Varnarliðið Samvinna Bandaríkjanna og Íslands í varnarmálum hefur verið upp og ofan.
Varnarliðið Samvinna Bandaríkjanna og Íslands í varnarmálum hefur verið upp og ofan.
Það var ekki lítil hjálp sem heimurinn fékk frá Bandaríkjamönnum þegar þeir gengu inn í stríðið 1940 og tók þó sex ár að sigra nasismann. Síðan þá hefur okkur þótt sjálfsagt að BNA sé í fararbroddi vestrænna gilda, verjandi allt sem gott er, lýðræði, frelsi og almennar framfarir

Það var ekki lítil hjálp sem heimurinn fékk frá Bandaríkjamönnum þegar þeir gengu inn í stríðið 1940 og tók þó sex ár að sigra nasismann. Síðan þá hefur okkur þótt sjálfsagt að BNA sé í fararbroddi vestrænna gilda, verjandi allt sem gott er, lýðræði, frelsi og almennar framfarir. Okkar mynd af þeim hefur verið lituð af kvikmyndum um úthverfalíf efnaðra hvítra, og kannski líka óljósum minningum um úrvalssveitirnar sem hingað voru sendar í stríðinu. Kanar stóðu líka fyrir uppbyggingu Evrópu eftir stríð og setulið var í Þýskalandi fram yfir 1960.

Við trúðum því að Ameríka myndi standa með okkur af lífi og sál til eilífðar, og því leyfðum við okkur alls konar óþekkt eins og hjá foreldri sem við vitum að muni aldrei bregðast.

En nú hafa aldeilis skipast veður í lofti og við „þekkjum ekki kálfskrattann fyrir sama mann“. Forsetinn kominn í annað lið og hans nánustu embættismenn ferðast um og ausa svívirðingum yfir virðulegar ráðstefnur.

Útþenslustefna grasserar og virðist vera smitandi. Þjóðum fjölgar sem virða ekki lögbundin landamæri og reyna líka að hafa áhrif á kosningar. Það verður sífellt minna að marka þótt eigi að heita að kosið sé og þeir sem mótmæla lenda í fangelsi. Einn diktatorinn hrósaði sér af sérlega eftirsóknarverðu „einræði“, sem heimurinn biði eftir að taka upp! Þeir sem trúðu að heiminum færi fram geta farið að hugsa sig um. Eins og stendur er flest á leið í vitlausa átt og það eru ekki kolefnisspor sem hræða, heldur villigötur sem liggja burt frá því sem byggt hefur verið á í langan tíma.

Nútímaskipulag heimsins stendur í björtu báli.

Sunnlendingur