Karkív Viðbragðsaðilar á vettvangi í Karkív í gær. Íbúðablokk í borginni varð fyrir drónaárás Rússa. Fimm manns létust í árásinni.
Karkív Viðbragðsaðilar á vettvangi í Karkív í gær. Íbúðablokk í borginni varð fyrir drónaárás Rússa. Fimm manns létust í árásinni. — AFP/Sergey Bobok
Fimm manns létust í drónaárás Rússa á Karkív í Úkraínu í fyrrinótt. Yfir 30 manns særðust í árásinni að sögn stjórnvalda í Kænugarði. Bæði Rússar og Úkraínumenn hafa lagt meira kapp á að gera árásir úr lofti að undanförnu á sama tíma og Donald Trump …

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Fimm manns létust í drónaárás Rússa á Karkív í Úkraínu í fyrrinótt. Yfir 30 manns særðust í árásinni að sögn stjórnvalda í Kænugarði.

Bæði Rússar og Úkraínumenn hafa lagt meira kapp á að gera árásir úr lofti að undanförnu á sama tíma og Donald Trump forseti Bandaríkjanna reynir að lokka Vladimír Pútín forseta Rússlands og Volodimír Selenskí að samningaborðinu.

Árásina gerðu Rússar aðeins nokkrum klukkustundum áður en ráðamenn innan franska og breska hersins komu til Kænugarðs til samningaviðræðna. Ræða á um hvernig evrópskir friðargæsluliðar geti stuðlað að friði ef vopnahlé kemst á í framtíðinni.

„Á einhverjum tímapunkti verður þörf fyrir herstyrk, þegar samið verður um frið. Það er ástæðan fyrir því að leiðtogar hersins eru í Kænugarði í dag,“ sagði Jean-Noel Barrit, utanríkisráðherra Frakklands, við fréttamenn í Brussel, þar sem fundur utanríkisráðherra NATO-ríkjanna fór fram í vikunni.

Reykur þar sem fólk bjó áður

Fréttamaður AFP-fréttaveitunnar varð vitni að því þegar björgunarmenn klifruðu í gegnum rústir íbúðarhúss í borginni á sama tíma og mikill reykur var í loftinu þar sem íbúðir voru áður.

Stjórnvöld í Moskvu neita ásökunum um að hafa beint árásum sínum vísvitandi að almennum borgurum, þrátt fyrir að þúsundir hafi látist í loftárásum Rússa frá upphafi allsherjarinnrásarinnar. Hafa sprengjur Rússa meðal annars lent á skólum, sjúkrahúsum og íbúðablokkum.

Sex manns til viðbótar særðust í árásum Rússa í fyrrinótt víðar um landið. Fréttamaður AFP í Kænugarði heyrði háværar sprengingar í og við borgina og mátti alla nóttina heyra í loftvörnum borgarinnar.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir að Úkraínumenn hafi sent yfir 100 árásardróna yfir landamærin til Rússlands. Þeim hafi verið meðal annars beint til Moskvu.

Einn maður er sagður hafa látist nærri landamærunum Rússlandsmegin.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir