Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Það er alveg rétt að ekki er gerð
krafa um það í frumvarpinu að sýslumaðurinn sé löglærður, enda er meðal annars verið að horfa til þess að í starfi embættis sýslumanna reynir ekki síst á stjórnun og rekstur og með því að útvíkka skilyrðið og að starfið sé ekki eingöngu bundið við lögfræðinga er verið að undirstrika það,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við Morgunblaðið.
Hún var spurð hverju það sætti að í frumvarpi dómsmálaráðherra um sameiningu sýslumannsembættanna í landinu sé ekki gerð sú krafa að sýslumaður sé löglærður sem er nýnæmi frá því sem nú er. Nefna má að slík krafa er heldur ekki gerð í frumvarpi Jóns Gunnarssonar, forvera hennar í embætti, sem lagði einnig fram frumvarp um sameiningu sýslumannsembættanna í landinu og endurflutti Jón frumvarp um málið sem hann hafði áður lagt fram þegar hann gegndi embætti dómsmálaráðherra.
Verja starfsöryggi
„Eftir stendur að þeir sem mesta reynslu hafa af rekstri og stjórnun sýslumannsembættanna er það góða fólk sem þegar er starfandi innan embættanna. En það er rétt að þetta var svona líka í frumvarpi forvera míns, en munurinn á frumvörpunum tveimur hvað varðar starfsmannamálin er sá að í frumvarpinu sem ég legg fram er mælt fyrir um að starfsmenn flytjist sjálfkrafa yfir í nýtt embætti, en í frumvarpi forvera míns þá var svo ekki,“ segir Þorbjörg Sigríður og nefnir að samkvæmt því myndu þeir missa störf sín og síðan fluttir á nýjar starfsstöðvar, eftir atvikum.
„Þannig að þetta frumvarp gengur töluvert lengra í þá átt að verja starfsöryggi þeirra sem þarna eru starfandi nú,“ segir Þorbjörg Sigríður.
Rekstur og stjórnun veigamikir þættir
„Rekstur og stjórnun eru veigamiklir þættir í störfum sýslumannanna í dag og verða þeir ekki minni í stærra og sameinuðu embætti. Þeir einstaklingar sem eru nú þegar starfandi innan embættanna og eru sýslumenn í dag og hafa auðvitað mikla reynslu af rekstri og stjórnun átta sig væntanlega á því að það er veigamikill hluti af embættinu og starfinu,“ segir hún.
Lagt fram eftir boðað frumvarp ráðherra
Spurð hvort ástæða hafi verið til þess af hálfu dómsmálaráðherra að leggja fram frumvarp um sameiningu sýslumannsembættanna, þegar þá hafi verið komið fram þingmannafrumvarp nær sama efnis frá forvera hennar í starfi, segir Þorbjörg Sigríður að það frumvarp hefði verið lagt fram á Alþingi eftir að ríkisstjórnin hafi haldið blaðamannafund og tilkynnt væntanlega framlagningu frumvarps hennar.
„Frumvarp Jóns kom fram eftir að við tilkynntum að frumvarp dómsmálaráðherra væri væntanlegt, en það breytir ekki öllu,“ segir Þorbjörg Sigríður.