Sjómennska Greitt úr netunum á dekkinu. Vanir menn sem kunna þetta.
Sjómennska Greitt úr netunum á dekkinu. Vanir menn sem kunna þetta. — Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aflabrögð voru með ágætum í róðri á Kap VE 4 nú á fimmtudag. Báturinn, sem Vinnslustöðin gerir út, er á netum og einn fárra á landinu þar sem enn er fiskað með slíku móti. Netin voru djúpt um 20 sjómílur vestur af Vestmannaeyjum þar sem heitir Eyjólfsklöpp

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Aflabrögð voru með ágætum í róðri á Kap VE 4 nú á fimmtudag. Báturinn, sem Vinnslustöðin gerir út, er á netum og einn fárra á landinu þar sem enn er fiskað með slíku móti. Netin voru djúpt um 20 sjómílur vestur af Vestmannaeyjum þar sem heitir Eyjólfsklöpp. Þetta eru mið sem Eyjasjómenn hafa í tímans rás mikið sótt á og þar er yfirleitt á vísan að róa með góðan afla.

Þorskur og ufsi

„Róðurinn gekk eins og í sögu og við fengum góðan afla,“ segir Kristgeir Arnar Ólafsson skipstjóri. Í áhöfn hans eru alls þrettán karlar og farið var úr höfn síðla nætur. Komið á miðin í býtið og þá er vitjað um netin sem legið hafa í sjó frá deginum áður.

Á fimmtudag voru þetta alls sjö trossur, samtals 105 net og þau bunkuð af fínum fiski. Alls 10 tonn af ufsa og þorskurinn 36 tonn. Þetta gera 154 kör og strax þegar komið var í landi um kl. 22 hófst löndun. Þá fór áhöfnin í pásu sem ekki veitti af því þeir fóru aftur út eldsnemma í gærmorgun. Þetta er venju samkvæmt, vinnudagar sjómanna eru oft langir og þá ekki síst nú á útmánuðum þegar fiskigengd er mikil.

Mávarnir sveima

„Þegar ég lít út um brúargluggann sé ég hvar mávarnir í hundraðatali sveima yfir bátnum. Þeir eru ágengir í ætisleit sinni og vita hvað þeir vilja. Raunar er lífríkið einstaklega fjörlegt um þessar mundir og vorið kemur alltaf fyrst við sjóinn. Reyndar getur verið til ama hve skart mávurinn dritar á rekkverkið á bátnum en látum slíkt liggja milli hluta. Stóra málið er að vel veiðist af fiski sem fer í salt og verður hátíðarmatur í Portúgal,” segir Kristgeir.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson