Hugguleg Cate Blanchett og Michael Fassbender í hlutverkum hjónanna Kathryn og George í Black Bag í leikstjórn Stevens Soderbergh.
Hugguleg Cate Blanchett og Michael Fassbender í hlutverkum hjónanna Kathryn og George í Black Bag í leikstjórn Stevens Soderbergh.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Laugarásbíó og Smárabíó Black Bag ★★★★· Leikstjórn: Steven Soderbergh. Handrit: David Koepp. Aðalleikarar: Cate Blanchett, Michael Fassbender, Marisa Abela, Tom Burke, Naomie Harris, Regé-Jean Page og Pierce Brosnan. Bandaríkin, 2025. 94 mín.

kvikmyndir

helgi snær

sigurðsson

Bandaríski leikstjórinn Steven Soderbergh er með þeim afkastameiri í faginu, hefur leikstýrt á fjórða tug kvikmynda og það af ýmsu og ólíku tagi. Einna þekktastur er hann fyrir Oceans-myndirnar þrjár, með félögunum Brad Pitt og George Clooney sem voru gamansamar og svalar spennumyndir en líka öllu alvarlegri verk á borð við Sex, Lies and Videotape (1989), Traffic (2000), Erin Brockovich (2000) og Solaris (2002).

Out of Sight (1998), ein af vinsælustu myndum leikstjórans, var aðlögun að skáldsögu Elmore Leonard og sú fyrsta frá honum í flokki glæpamynda með rómantísku ívafi. Í þann flokk mætti eflaust setja nýjustu mynd Soderberghs, Black Bag eða Svartur poki. Er titillinn dreginn af því að leyndarmál skuli sett í slíkan poka, það sem enginn megi sjá þau eða af þeim vita.

Svartur poki ber ýmis einkennismerki leikstjórans, t.d. þokkafulla leikara, óaðfinnanleg föt og glæsileg híbýli. Glæsibragurinn í myndinni er reyndar slíkur að stundum er erfitt að einbeita sér að því sem er að gerast, að fylgja söguþræði. Þéttofnar rúllukragapeysur Michaels Fassbender og leðurkápur Cate Blanchett eiga það til að stela senunni og íbúðin sem þau búa í er með þeim glæsilegri sem nokkurn tíma hafa sést í kvikmynd, líkt og klippt út úr hámóðins hönnunarblaði.

Soderbergh hefur náð þeim heldur sjaldséða árangri að slá í gegn með kvikmyndum sínum bæði listrænt og hvað aðsókn varðar. Óskarinn hlaut hann um aldamót, fyrir Traffic frá árinu 2001 og tilnefningu sama ár til Óskarsins fyrir Erin Brockovich. Hafði það þá ekki gerst frá árinu 1938 að sami leikstjóri væri tilnefndur í þessum tveimur flokkum. Heldur ólíklegt þykir rýni að Soderbergh hljóti styttu fyrir Black Bag en vönduð er hún, samt sem áður, og leikaraval prýðilegt.

Maðkur í mysunni

Michael Fassbender og Cate Blanchett leika í myndinni hjónin Kathryn og George sem eru leyniþjónustumenn og þurfa að eiga sín leyndarmál í friði og leyna hvort fyrir öðru. Starfinu fylgir því eðlilega ákveðin tortryggni og þegar í ljós kemur að uppljóstrari leynist í röðum leyniþjónustumanna liggja svo að segja allir undir grun. Hjónin starfa fyrir stofnun sem gæta á netöryggis þjóðarinnar og verja hana fyrir árásum af ýmsu tagi. Starfið er því langt frá því að vera hættulaust og nóg til af vopnum á heimilinu, ef á þarf að halda.

Dag einn tilkynnir Kathryn eiginmanni sínum að hún þurfi að skreppa til útlanda í vinnuferð. Hún segir honum að verkefnið sé „svartur poki“ sem þýðir að George fær ekkert að vita um það. Eitt og annað veldur því svo að hann fer að gruna eiginkonu sína um græsku. Yfirmaður þeirra, Arthur Steiglitz (Pierce Brosnan), kallar þau á sinn fund og er honum mikið niðri fyrir. Það er maðkur í mysunni, svikari innanhúss og ógn við heimsöryggi, hvorki meira né minna. Kjarnavopni hefur verið stolið og talið að Rússar séu ábyrgir, nema hvað. George grípur til þess ráðs að bjóða þeim, er líklegir teljast til að vera svikarar, í kvöldmat og setur einhvers konar sannleikslyf í matinn. Það veldur því að viðstaddir tala af sér en ekki finnst þó svikarinn. Undir lok myndar er hann svo afhjúpaður og minnir endirinn nokkuð á sígildar glæpasögur Agöthu Christie.

Helstu persónur Svarts poka eru sérþjálfaðar í blekkingarleikjum og því hálar sem álar. Eitt besta atriði myndarinnar snýr einmitt að slíkum leik, lygaprófi sem nokkrar sögupersónur þurfa að taka og í því viðurkennir ein þeirra að hafa beitt ákveðnu bragði til að hægja á hjartslættinum. Sú aðferð er að slaka á hringvöðvanum.

Undir svellköldu yfirborðinu leynist kraumandi spenna og svalastur af öllum er Fassbender. Svo kaldur virðist hann á stundum að hann minnir mjög á leigumorðingjann sem hann lék í The Killer (2023) eða vélmennið í Prometheus (2012). Fassbender kemst í örlítið uppnám í einu eða tveimur atriðum en fyrir utan þau er hann alltaf við frostmark. Blanchett er aðeins volgari og leikur hér mikið skaðræðiskvendi, konu sem svífst einskis til að ná settu marki. Marisa Abela, sú sem lék Amy Winehouse í Back to Black (2024), fer með hlutverk leyniþjónustukonunnar Clarissu Dubose og sýnir hún hvað mesta breidd af leikurum myndarinnar. Pierce Brosnan er durgslegur yfirmaður, fýldur og vægðarlaus og Tom Burke er líka fráhrindandi í hlutverki Freddie Smalls, líkt og hann á að vera. Þeim náunga myndi maður varla treysta fyrir því að fara út með ruslið, hvað þá meira. Regé-Jean Page, breskur leikari sem þekktastur er fyrir túlkun sína á kynþokkafulla hertoganum af Hastings í sjónvarpsþáttunum Bridgerton (2020–), er sæmilegur í hlutverki James Stokes, háttsetts náunga innan leynistofnunarinnar, og Naomie Harris leikur af öryggi þokkafullan sálfræðing sem leynir sannarlega á sér.

Lítil atriði sem sýna smámunasemi og nákvæmni George gera mikið fyrir persónusköpun myndarinnar. George finnur sig t.d. knúinn til að skipta um skyrtu þegar hann kemur auga á örsmáan blett í miðri eldamennsku. Hann er líka svo mikill snyrtipinni að hann brýtur saman fötin sín áður en hann nýtur ásta með eiginkonu sinni og skiptir þá engu að hún sé að bíða eftir honum. Í öðru atriði fer George, einu sinni sem oftar, að veiða á litlum árabáti. Róin sem því fylgir opnar huga hans og hann finnur týnda púslið, ef svo mætti að orði komast, í huga sér. Það er engu líkara en fiskarnir fylgist með honum því hluti myndavélarinnar er þá undir vatnsyfirborðinu.

Svartur poki er fagmannlega gerð kvikmynd með huggulegum leikurum í óaðfinnanlegum fötum.