![Svona teiknaði Jakob Sigurðsson í Melsteðs Eddu („skrifari bæði og skáld var sá, skemmtun Vopnafjarðar“ var ort um hann þegar hann dó, liðlega fimmtugur árið 1779) söguna af því hvernig Óðinn náði skáldamiðinum eftir að hafa sofið þrjár nætur hjá Gunnlöðu dóttur Suttungs jötuns; „sendi aftur suman mjöðinn […] og köllum vér það skáldfífla hlut.“](/myndir/gagnasafn/2025/04/05/a2ffa6ee-5708-4a90-9700-fb2eb7649913.jpg)
Tungutak
Gísli Sigurðsson
gislisi@hi.is
Árið 2012 kom út metnaðarfull bók eftir Michael Witzel, prófessor í sanskrít við Harvardháskóla: The Origins of the World’s Mythologies. Witzel er sérfræðingur í Vedabókunum indversku og japanskri goðafræði. Honum hafði orðið starsýnt á hve margt væri líkt með goðsögum þessara menningarsvæða – þar sem töluð væru gjörólík tungumál. Innblásinn af rannsóknum Yuri E. Berzkin í Sankti Pétursborg (m.a. á líkindum sagna um Karlsvagninn meðal fólks á norðurhveli, sem hann rekur útfrá Himalajafjöllunum, og sagna um Sjöstirnið sem hann rekur til þess tíma þegar mannkynið var að leggja af stað út úr Afríku) setti Witzel fram þá kenningu að goðsögur alls heimsins, nema í Afríku sunnan Sahara og í Ástralíu (meðal afkomenda fyrstu bylgju mannkynsins sem fór þangað fyrir um 65 þúsund árum), byggist allar á sömu frumsögunni sem hafi orðið til fyrir um 40 þúsund árum og borist eftir það um heiminn.
Bókin kom út hjá háskólaútgáfunni í Oxford en hefur fengið mjög neikvæðar viðtökur vegna þess að Witzel notar orðfæri sem speglar þá rasísku hugmynd að þessi tvö ólíku menningarsvæði sem hann sér fyrir sér séu annars vegar vanþróuð og hins vegar þróaðri og lengra komin – fyrir utan það að hann þarf víða að stytta sér leið og höggva hæl og tá af goðsagnakerfum heimsins til að láta kenninguna ganga upp.
Fyrir okkur, sem þekkjum Völuspá og Snorra Eddu, er fróðlegt að lesa söguþráðinn í þessari meintu frumsögu Witzels: Hann segir að hún byrji á óreiðukenndu upphafi og frumveru. Himnafaðirinn og móðir Jörð eigi síðan fjórar kynslóðir goðmagnaðra afkomenda; himninum sé lyft upp, sifjaspell verði milli himnaföður og dóttur hans; ljós eða falin sól brjótist fram og guðir samtímans komist til valda með því að sigrast á forverum sínum; dreki sé veginn og sólargoðmagn verði faðir mannkyns (einkum þeirra sem betur mega); fyrstu mennirnir verði til og fyrstu misgjörðirnar; dauðinn eða flóð komi til sögu, einnig karlhetjur og dísir, hetja sæki eld, mat eða heilagan drykk til handanheima, mannkynið dreifist og ólíkar stéttir myndist áður en Sagan hefst á heimaslóð. Endalok mannkyns, heimsins og goðanna séu svo framundan, stundum með von um nýjan himin og jörð.
Margt í þessari stórsögu hefur skilað sér í eddurnar og það má hugleiða hvernig sagan um að goðmögnuð hetja sæki eld, mat eða drykk til handanheima er sögð hjá Snorra – sem beindi fræðum sínum að þeim sem vildu nema mál skáldskapar (og girntust að „skilja það er hulið er kveðið“). Ungu yfirstéttarskáldin sem horfðu til himins í heita pottinum hjá Snorra þurftu ekki að hafa áhyggjur af því hvernig eldurinn barst í mannheima – heldur því hvernig Óðinn náði í skáldamjöðinn. Það ætti því ekki að koma á óvart hvað tungutakið skipar háan sess í hugarheimi okkar miðað við þær djúpu og goðmögnuðu rætur sem orðlistin hefur meðal manna.