Heilbrigðisráðherra gat ekki svarað fyrirspurn Nönnu Margrétar Gunnlaugsdóttur þingmanns Miðflokksins um hvernig kostnaður á bráðamóttöku og heilsugæslu væri sundurliðaður. Í svari ráðherrans kemur fram að sjúklingar séu flokkaðir í sjúkratryggða og ósjúkratryggða. Þeir séu ekki flokkaðir eftir þjóðerni og því sé ekki unnt að svara fyrirspurninni.
Nanna Margrét segir að sér finnist ótrúlegt að þessi kostnaður sé ekki sundurliðaður.
„Hvernig er hægt að gera áætlanir og veita viðeigandi þjónustu ef ekki liggja fyrir upplýsingar um hvað greitt er fyrir hvern hóp? Þessi feluleikur um hvað hælisleitendakerfið kostar raunverulega er ein leiðin til að forðast erfiða umræðu, setja kíkinn fyrir blinda augað og neita að horfast í augu við staðreyndir.“
Hún segir að það að ekki liggi fyrir hver kostnaðurinn sé vegna þeirra sem hingað koma og hafi ekki greitt fyrir heilbrigðisþjónustu sé skýrt dæmi um óreiðu. „Þetta er algjörlega óboðleg meðferð á almannafé,“ segir Nanna. oskar@mbl.is