Í kjallara verslunarinnar Epal á Laugavegi er nú sýning Skrípó, en þar hitti blaðamaður þá Guðjón Viðarsson Scheving og Kára Þór Arnarsson í vikunni þar sem þeir voru í óða önn að hengja upp stór og litskrúðug málverk sem þeir vinna í samvinnu. Á málverkunum eru alls kyns fígúrur; manneskjur, dýr og skrímsli svo eitthvað sé nefnt. Strákarnir hafa teiknað skrípamyndir allt frá æsku en eru nú að taka list sína skrefinu lengra.
Teiknað saman frá æsku
„Við höfum verið vinir frá því í leikskóla og höfum alltaf haft gaman af því að teikna og skapa saman,“ segir Guðjón.
„Við þróuðum svo með okkur stíl að teikna saman og vorum oft að skiptast á blöðum þar sem annar teiknaði kannski augu og svo hinn nef og svo var skipt aftur. Þannig teiknuðum við alls kyns fígúrur og erum í raun að nota þá aðferð enn í dag,“ segir Kári.
„Þetta gerðum við til svona þrettán ára aldurs og þá tóku við íþróttir og önnur áhugamál, en svo vorum við reyndar saman á myndlistarbraut í FG,“ segir Guðjón.
„Eftir FG fór ég í sálfræði og Guðjón í viðskiptafræði, og er í meistaranámi á öðru ári en hann kláraði fyrir tveimur árum,“ segir Kári, sem stefnir á að vinna sem sálfræðingur í framtíðinni samhliða myndlistinni.
„Ég er núna að vinna við liðveislu en draumurinn væri að geta verið í myndlistinni í fullu starfi. Það er eiginlega búið að vera full vinna að stækka Skrípó,“ segir Guðjón.
Alltaf hægt að mála yfir
Strákarnir eru með vinnustofu í Garðabæ og eru alltaf með að minnsta kosti tvö verk í vinnslu í einu.
„Oftast byrjum við á að teikna form á strigana og fyllum svo upp í formin til dæmis með andlitum,“ segir Kári.
„Já, og oft gerum við skrítin form til að ögra hvor öðrum,“ segir Guðjón en til verksins nota þeir akrýlmálningu og akrýlpenna.
„Við byrjuðum fyrst á að búa til eina mynd saman en svo sýndu aðrir þessu áhuga og þá fórum við að gera fleiri verk,“ segir Guðjón, en þeir hafa málað sleitulaust saman í þrjú ár.
„Við vinnum allar myndir saman en kannski mismikið eftir því hvað það er mikið að gera hjá okkur í öðru. Það skemmtilega við samstarfið er að maður veit ekki hvað hinn ætlar að gera og þá verður eitthvað óvænt til,“ segir Kári og segjast þeir vinir oftast sammála um útkomuna.
„Ef ekki, þá gildir bara hvor er frekari en oft prófum við bara og ef það gengur ekki, þá málum við yfir,“ segir Kári.
Húmor í þessu
Fjölmargar klukkustundir liggja að baki einu málverki. Á bak við stærstu myndirnar liggja yfir hundrað klukkutímar, en strákarnir hafa málað á milli fimmtíu og sextíu verk.
„Okkur hefur gengið vel að selja og það er alltaf eitthvað í pípunum,“ segir Guðjón, en strákarnir selja í gegnum Instagram-síðuna skripo_art og á heimasíðunni skripo.com. Stundum fá þeir sérpantanir og geta þá viðskiptavinir komið með óskir um til dæmis liti og fígúrur.
„Við erum þakklátir Epal fyrir að leyfa okkur að vera með sýningu hér,“ segir Kári, en sýningin verður opin til 25. apríl. Einnig selja þeir tölusettar eftirprentanir sem verða til í takmörkuðu upplagi.
Af hverju málið þið í skrípó-stíl?
„Ég hef alltaf einblínt á þennan teiknistíl og aldrei haft áhuga á að mála eða teikna í öðrum stíl,“ segir Guðjón.
„Ég hef líka verið að teikna annars konar myndir en það er ótrúlega gaman að gera þessar skrípómyndir því þar getum við sameinað krafta okkar,“ segir Kári.
„Það er húmor í myndunum og við erum mjög frjálsir í þessu. Það er létt yfir þessum myndum,“ segir Guðjón.
„Við erum ekki að stæla aðra heldur erum bara að gera okkar eigin stíl,“ segir Kári og segir að í raun megi rekja þennan stíl og þessi vinnubrögð til smíðatíma í barnaskóla.
„Við lékum okkur stundum að því að teikna á afgangs viðarbúta sem féllu á gólfið þegar nemendur voru að saga. Bútarnir höfðu ólíka lögun og við teiknuðum á þá alls kyns fígúrur. Smíðakennarinn sá þetta og hvatti okkur til að halda því áfram,“ segir Kári og hvetur gesti og gangandi að mæta á sýninguna á Laugavegi 7.