Keppnin í Þjóðadeildinni er hálfnuð eftir leiki gærdagsins og línurnar farnar að skýrast aðeins. Frakkland vann Sviss nokkuð örugglega á útivelli, 2:0, með mörkum frá Sandy Baltimore og Selmu Bacha í fyrri hálfleiknum og stefnir á sannfærandi sigur í riðlinum.
Frakkar eru með níu stig eftir þrjá sigurleiki en Noregur er með fjögur stig, Ísland tvö og Sviss rekur nú lestina með eitt stig.
Baráttan er því eins og búast mátti við á milli Noregs, Íslands og Sviss um annað sætið í riðlinum sem gefur öruggan þátttökurétt í A-deild næstu Þjóðadeildar. Mikið er í húfi því þá verður keppnin í raun undankeppni fyrir heimsmeistaramótið 2027. Þá mun skipta miklu máli að vera í A-deildinni þegar hún fer af stað.
Liðin sem enda í þriðja sæti í riðlum A-deildar fara í umspil gegn liðum í öðru sæti riðla B-deildar, nákvæmlega eins og þegar Ísland mætti Serbíu tvisvar í febrúar 2024.
Ísland er einmitt í þessu þriðja sæti núna, og þau fjögur lið sem væru þá mögulegir mótherjar í umspili eru Írar, Finnar, Tékkar og Norður-Írar sem eru núna í öðru sæti í sínum riðlum B-deildarinnar.
Leikurinn gegn Sviss á Þróttarvellinum á þriðjudaginn er því gríðarlega mikilvægur upp á framhaldið en með sigri þar væri íslenska liðið langt komið með að tryggja sér að minnsta kosti þriðja sæti riðilsins.