Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Við erum að horfa á íslenskar aðstæður og hvað við þurfum ef við missum rafmagn eða vatn, eða komumst ekki að heiman af einhverjum ástæðum,“ segir Aðalheiður Jónsdóttir, teymisstjóri neyðarvarna hjá Rauða krossinum, um viðlagakassann sem miðar við að vera sjálfum sér nægur í a.m.k. þrjá daga. Verkefnið var upphaflega sett af stað árið 2015 hjá Rauða krossinum en í átakinu núna er verið að uppfæra viðlagakassann miðað við breytta tíma og hægt að sjá upplýsingar á 3dagar.is.
Allar upplýsingar á vefnum
„Við reiðum okkur mjög mikið á rafrænar greiðslur, síma og meira og minna allt samfélagið er háð því að rafmagnið virki. Þegar þetta verkefni var sett af stað var verið að hvetja fólk til að vera viðbúið ef eitthvað gerðist og þá þekktum við öll fyrstu blaðsíðuna í símaskránni þar sem hægt var að fletta upp á öllum upplýsingum um almannavarnir og fá leiðbeiningar um hvað þyrfti að gera.“ Nú er sú leið ekki fær því hætt var að prenta símaskrána árið 2015.
Í dag eru hins vegar allar upplýsingar á vefnum og Aðalheiður hvetur fólk til að kynna sér á vef Rauða krossins hvað sé æskilegt að gera ef heitt eða kalt vatn fer af eða rafmagnið dettur út, áður en að því kemur. „Þess vegna leggjum við til að í viðlagakassanum séu t.d. hleðslubankar svo hægt sé að að nota síma sparlega þótt rafmagn fari af,“ segir hún og segir einnig mikilvægt að hafa mikilvæga pappíra sem fólk gæti þurft eins og vegabréf og fleira.
Beinharðir peningar
Þá er einnig lagt til að fólk geymi peninga heima því í rafmagnsleysi gengur illa að borga með kortum eða símunum eins og flestir eru farnir að gera í dag. Hún segir að þótt talsvert hafi borið á því að fyrirtæki séu hætt að taka við beinhörðum peningum, þá hljóti annað að vera upp á teningunum ef aðrar greiðsluleiðir eru ekki í boði.
„Við erum ekkert að tala um að fólk fari að sofa með stórfé undir koddanum. En það er gott að ákvarða hver dagsþörfin er og vinna út frá því. Ef fólk upplifir að það gæti orðið skortur í kringum það eru verslanir fljótar að tæmast og þess vegna er gott að eiga einhverjar birgðir heima, eins og nægt vatn, dósamat, þurrmat og mat fyrir gæludýrin. Síðan er gott að hafa prímus eða eitthvað til að elda mat, skyndihjálparkassa, eldfæri, hafa bílinn hlaðinn eða með fullan tank svo eitthvað sé nefnt.“
Móðir jörð lætur í sér heyra
Aðalheiður segir að átakið núna tengist ekki utanaðkomandi hættu, en margir eru uggandi yfir válegu veðri á alþjóðasviðinu. „Ef slíkt ástand brysti á myndi viðlagakassinn vissulega nýtast líka, en við erum samt fyrst og fremst að hugsa um þær áskoranir sem við höfum staðið frammi fyrir hér á landi. Þar er af nógu að taka eins og skæð óveður, rafmagnsleysi dögum saman og svo eins og gerðist í fyrra þegar heita vatnið fór af á Suðurnesjum. Við þurfum ekki að horfa langt aftur í tímann til að sjá þessar aðstæður.“
Best að vera viðbúinn
„Það veitir fólki mikið öryggi að vera viðbúinn ef eitthvað kemur fyrir og að hafa á hreinu hvernig best sé að bregðast við aðstæðum,“ segir Aðalheiður. Hún segir gott að vera andlega undirbúinn og hafa ákveðið plan. „Get ég verið sjálfbjarga heima og vitað hvað á ég að gera? eru spurningar sem fólk þarf að spyrja sig. Síðan er líka mikilvægt að huga að nærumhverfinu, athuga með nágrannana og jafnvel eldra fólk í hverfinu.“
Aðalheiður segir að ef einstaklingar eru vel undirbúnir þegar krísa kemur upp þá minnki það álag á viðbragðsaðilum sem geti þá einbeitt sér hraðar að því að finna lausnir á málum.
Norðurlöndin
3-7 dagar
Ísland er á svipuðum nótum með viðlagakassann eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar. Í Danmörku og Finnlandi er miðað við að fólk geti verið sjálfbært í þrjá daga eins og hér en í Svíþjóð og í Noregi er viðmiðið sjö dagar.
Í gögnum frá t.d. Svíþjóð og Finnlandi er meira talað um hættuna á stríði og hvernig hægt sé að bregðast við ýmsum aðstæðum sem gætu þá komið upp. Í Svíþjóð var dreift uppfærðum bæklingi í nóvember sl. í öll hús sem ber þeirri áherslu vitni: „Om krisen eller kriget kommer“.
Skilaboðin eru altént skýr: Það borgar sig að vera viðbúinn.