Spjall Joachim B. Schmidt, annar frá hægri, á góðri stundu ásamt nokkrum gestum í bókaspjalli á Þórshöfn.
Spjall Joachim B. Schmidt, annar frá hægri, á góðri stundu ásamt nokkrum gestum í bókaspjalli á Þórshöfn. — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rithöfundurinn Joachim B. Schmidt skapaði í tveimur skáldsögum sínum hina sérstæðu persónu Kalmann Óðinsson sem er sjálfskipaður „sjeriff“ á Raufarhöfn og fer þar sínar eigin leiðir í tilverunni

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn

Rithöfundurinn Joachim B. Schmidt skapaði í tveimur skáldsögum sínum hina sérstæðu persónu Kalmann Óðinsson sem er sjálfskipaður „sjeriff“ á Raufarhöfn og fer þar sínar eigin leiðir í tilverunni.

Joachim heimsótti Raufarhöfn og Þórshöfn fyrir skömmu þar sem heimamenn áttu við hann notalegt spjall um bækur hans og fleira. Fyrri bókin um Kalmann gerist einkum á Raufarhöfn en í seinni bókinni liggur leiðin einnig á Langanesið þar sem fortíð afa hans kemur við sögu og dularfullir atburðir sem tengjast Heiðarfjalli og herstöðinni sem þar var. Heitir sú bók Kalmann og fjallið sem svaf.

Þriðja bókin á leiðinni

Gestum í bókaspjallinu á Þórshöfn lék forvitni á að vita hvort von væri á þriðju bókinni um Kalmann og sagði Joachim svo vera.

Hann upplýsti einnig að á döfinni væri að gera sjónvarpsþætti úr fyrstu bókinni um Kalmann og hún yrði tekin upp í heimabæ Kalmanns, Raufarhöfn. Framleiðslufyrirtækið Kontent hefur tryggt sér kvikmyndaréttinn en leikstjóri verður Kristófer Dignus og skrifar hann handritið með eiginkonu sinni, leikkonunni Maríu Hebu Þorkelsdóttur. Raufarhöfn er ákjósanlegt sögusvið og ekki ólíklegt að hið magnaða heimskautsgerði komi þá við sögu.

Fyrri bókin um Kalmann kom út árið 2020 og náði töluverðum vinsældum og komst inn á metsölulista Der Spiegel. Joachim er búsettur á Íslandi en er fæddur í Sviss.

Höf.: Líney Sigurðardóttir