Það mátti heyra konur konur snökta í þögninni þegar gengið var að minnismerkinu um borgarana sem rússneski herinn drap, nauðgaði og pyntaði í bænum Bútsja í Úkraínu fyrir þremur árum. Ég var viðstödd athöfn 31. mars í boði Ruslans Stefanchuks forseta úkraínska þingsins ásamt tæplega tuttugu evrópskum þingforsetum. Þann dag voru rétt þrjú ár liðin frá frelsun bæjarins. Dagurinn markaði líka upphaf gagnsóknar úkraínska hersins gegn þeim rússneska rúmum mánuði frá upphafi innrásarinnar.
Í Bútsja búa rúmlega 50 þúsund manns en bærinn er í tuttugu mínútna akstursfjarlægð frá Kyiv. Rússneskir hermenn hersátu bæinn í 33 daga og drápu um 560 manns, aðallega karla en líka konur og börn. Aðkoman var hryllileg. Rotnandi lík lágu á götum bæjarins, fólk hafði verið grafið í grunnri fjöldagröf við kirkjuna þar sem minnismerkið stendur nú og augljóst var að stríðsglæpir höfðu verið framdir. Voðaverkin í Bútsja höfðu og hafa djúpstæð áhrif á eftirlifendur eins og heyra mátti af frásögnum nokkurra kvenna sem lifðu hryllinginn af.
Í bók finnsk-eistneska rithöfundarins Sofie Oksanen, Í sama strauminn – stríð Pútíns gegn konum, má lesa óhugnanlega en sannfærandi lýsingu á því hvernig Vladimír Pútín notar kynferðisofbeldi markvisst í landvinningastríðum. Oksanen fjallar meðal annars um stríðsglæpina í Bútsja og færir rök fyrir því að óagaðir og illa þjálfaðir hermenn beiti þeim vopnum sem henta og hafi í raun samþykki frá æðstu stöðum til voðaverkanna. Kerfisbundið kynferðisofbeldi gegn konum og börnum er líklega elsta stríðsvopnið. Afleiðingar þess eru áþreifanlegar í margar kynslóðir en það þjónar þeim tilgangi að draga úr tilverurétti og þreki fólks og þjóða. Það er þegar allt kemur til alls ýktasta mynd kvenhaturs sem fyrirfinnst hér í heimi. Við megum ekki líta undan, hvorki í Úkraínu né annars staðar.
Volodomír Selenskí forseti Úkraínu fundaði með þingforsetunum og þakkaði hverjum og einum fyrir veitta aðstoð í stríðinu. Hann lagði áherslu á mikilvægi varnarsamstarfs Úkraínu og Bandaríkjanna og bað um liðsinni Evrópuríkja við að ná eyrum ráðamanna í Washington, bæði í Hvíta húsinu og á bandaríska þinginu. Selenskí bað okkur að skilja að Pútín þyrfti að mæta með miklum hernaðarstyrk og pólitískum þrýstingi. Hann bað „heiðarlegt fólk“ að beita sér gagnvart stjórnvöldum í Bandaríkjunum og spurði hvaða ríki væru í raun tilbúin til þess að útvega mannafla til að gæta friðarins í Úkraínu þegar hann loks kæmist á.
Ljóst er að tryggja þarf öryggi Úkraínu til framtíðar þegar hinu vonlausa stríði sem stjórnvöld í Kreml hófu 24. febrúar 2022 lýkur. Hvernig það verður tryggt er eitt mikilvægasta viðfangsefni bandalagsríkjanna innan NATO í bráð og lengd.
Höfundur er forseti Alþingis. tsv@althingi.is