Gestgjafinn gekk svo á milli gesta með boxið fína og opnaði það með tilþrifum. Þá spruttu sígaretturnar út eins og blómvöndur.

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Nú þegar samfélagsmiðlarnir fyllast af fallegum myndum af ungmennum að fermast rifjast upp minn eigin fermingardagur sem var einmitt 5. apríl 1980, fyrir sléttum 45 árum. Guð minn almáttugur hvað tíminn líður!

Margt frá þessum degi er enn í fersku minni. Ég man eftir bláa kjólnum með blómunum sem ég var í, fínu skónum og nælonsokkabuxum sem ég prófaði þennan dag í fyrsta sinn og fannst ekkert sérstaklega þægilegar. Veislan var lítil og gjafir í hófi; Pentax-myndavél frá mömmu og pabba, einn lampi, einhver stytta og kannski smá reiðufé í umslögum. Myndatakan var svo eftir en ljósmyndarinn kom fram við mig eins og smábarn og því er ég afar mæðuleg á öllum myndunum og með asnalegt gerviblóm í stuttklippta hárinu. En hver á svo sem góða fermingarmynd af sér?

Um daginn bárust í tal hjá saumaklúbbnum fermingarveislur fyrri tíma. Allar mundu þær nokkuð vel eftir sínum veislum og í þeim sumum var boðið upp á sígarettur. Það þótti afar fínt og sérstaklega var haft fyrir því að kaupa margar tegundir og raða þeim í sérstök skrín. Á einu heimilinu var mikið sport fyrir krakkana á heimilinu að fá að raða í skrínið; Winston, Marlboro, Viceroy og Camel. Eitthvað fyrir alla! Skrínið var þannig gert að sígarettum var raðað í götótt hólf sem lágu í hringi og yfir þær var svo lok. Gestgjafinn gekk svo á milli gesta með boxið fína og opnaði það með tilþrifum. Þá spruttu sígaretturnar út eins og blómvöndur. Þetta hefur þótt agalega lekkert!

Ein vinkonan man eftir að mamman talaði um að kaupa sígarettur fyrir fermingarveisluna hennar en það fannst ungu stúlkunni ekkert sérstaklega góð hugmynd og segir: „Ég vil ekkert hafa sígarettur í veislunni minni.“ Svar mömmunnar var þá: „Viltu ekki hafa veisluna þína fína?“

Mikið vatn er runnið til sjávar síðan þá og sem betur fer hefur margt breyst til batnaðar. Engar sígarettur eru lengur í fermingarveislum og alls ekki vín, eins og stundum var líka í gamla daga. Við sem ólumst upp á áttunda og níunda áratug síðustu aldar erum kynslóðin sem leiruðum öskubakka í myndlistartímum og gáfum foreldrum í jólagjöf. Mörg okkar eru líka alin upp við reykmettaða bíla, heimili, banka, stofnanir og skemmtistaði. Jafnvel reykti eitt sinn kennarinn minn pípu í miðri kennslustund þegar ég var í barnaskóla.

Já, í þá gömlu góðu daga, eða þannig!