Anna Kristín Arngrímsdóttir fæddist 16. júlí 1948. Hún lést 7. febrúar 2025.
Útför fór fram 27. mars 2025.
Kær vinkona hefur kvatt þennan heim. Við sem þekktum Önnu Kristínu og vissum hvaða mann hún hafði að geyma vorum harmi slegin yfir fréttinni af andláti hennar og líka sorgmædd yfir því að fá ekki tækifæri til að taka utan um hana og þakka henni fyrir samfylgdina.
Leiðir okkar Önnu lágu saman þegar hún byrjaði í Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur. Ég var þá á öðru ári í skólanum, en tók strax eftir fallegu norðanstúlkunni með hljómfögru röddina, skýru framsögnina og meðfæddu hæfileikana. Hún fékk líka fljótlega stórt hlutverk; það var í leikriti Jökuls Jakobssonar, Romm handa Rósalind, en það var fyrsta íslenska leikritið sem sett var sérstaklega upp fyrir Ríkissjónvarpið.
En í fyrsta skipti sem við Anna „unnum saman“ í leikhúsi var árið 1972. Þá um veturinn hafði LR sýnt Skugga-Svein eftir Matthías Jochumsson og Anna leikið ungu stúlkuna, Ástu í Dal. Sýningin hafði gengið svo vel að ákveðið var að bæta við nokkrum sýningum um vorið, en þá var Anna á leið til Bandaríkjanna þar sem hún og fjölskylda hennar ætluðu að dvelja um nokkurt skeið. Það var því með litlum fyrirvara sem ég var beðin að stökkva inn í hlutverkið hennar.
Anna hafði auðvitað í ýmsu að snúast áður en hún flutti vestur um haf, en gaf sér þó tíma til að fara vel og vandlega í gegnum handritið með mér og kenna mér lögin hennar Ástu. Það getur verið martröð leikarans að stökkva svona inn í flókna leiksýningu, en mér fannst Anna alltaf vera mér við hlið á sýningunum og leiða mig í gegnum verkið.
Sem betur fer áttum við Anna líka eftir að leika mikið saman, bæði í Iðnó og í Þjóðleikhúsinu, en sérstaklega er mér minnisstæð leikferð Þjóðleikhússins til Færeyja með sýningarnar „Lúkas“ eftir Guðmund Steinsson og „Litlu fluguna“ eftir Svein Einarsson, en þar var tvinnað saman lífshlaup og tónlist Sigfúsar Halldórssonar og þarna fengum við Anna tækifæri til að syngja nokkrar af perlunum hans Fúsa með undirleik hans sjálfs.
Við Anna vorum saman í herbergi þessa daga í Þórshöfn og þá áttaði ég mig á hversu hetjulega hún tókst á við sykursýkina, sjúkdóminn sem hún hafði greinst með sem ung kona. Hún gerði bara grín að sjálfri sér og öllum þessum sprautum og lyfjum sem hún varð að hafa meðferðis. Hún lét sjúkdóminn aldrei stöðva sig í því að taka fullan þátt í lífsins leik.
Seinna tók svo við annar og skemmtilegur leikur í lífi okkar Önnu, en það var að fara saman út í guðsgræna náttúruna og spila golf hér á landi og í útlöndum. Við stríddum stundum hvor annarri með því að hin hefði breyst úr dramatískri leikkonu í íþróttaálf.
Við hittumst síðast í nóvember til að fagna tíu ára afmæli Leikhúslistakvenna 50+. Anna og Úlfar voru að undirbúa ferð í sólina á Kanarí og hún sagðist ætla að nota tímann vel til að undirbúa golfsumarið okkar á Íslandi.
Golfhringirnir verða víst ekki fleiri að sinni, en allt sem Anna kenndi mér um lífið og listina varðveiti ég í hjarta mínu.
Ég samhryggist Úlfari, Garðari, Brynju, Matthildi og fjölskyldum þeirra.
Hvíl þú í friði, elsku vinkona.
Edda
Þórarinsdóttir.
Anna Kristín Arngrímsdóttir var frá því hún birtist fyrst á sviði Leikfélags Reykjavíkur í Iðnó, rétt um tvítugt, með eftirsóttustu leikkonum sinnar kynslóðar. Hún hafði allt til að bera, fegurð og kvenlegan þokka, bjarta og hljómfagra rödd, skýra framsögn og söng eins og engill. Örlögin höguðu því svo til að við jafnöldrurnar sem ólumst upp sín í hvoru fiskiplássinu, hún á Dalvík, ég á Akranesi, urðum um tíma nánar samstarfskonur og lékum ítrekað systur á sviði Þjóðleikhússins. Fyrst í Lé konungi (Shakespeare 1977), svo í Stalín er ekki hér (Vésteinn Lúðvíksson 1977), loks sem vondu systurnar í Öskubusku (1978). Í Náttbólinu (Gorkij 1976) lékum við stéttarsystur, öreigana Nöstju og Natöshju, undir stjórn tvíeykis frá Sovétríkjunum, Victors Strizhov og Davids Borowskí. Það var ævintýri fyrir ungar leikkonur að fá að vinna með öðrum eins listamönnum.
Í tvígang tók ég tímabundið við hlutverki Önnu Kristínar í ólíkum en mögnuðum sýningum. Í fyrra tilvikinu sem ung skvísa í Sólarferð eftir Guðmund Steinsson (1976) í leikstjórn Brynju Benediktsdóttur. Í því síðara var það sjáandinn Kassandra í Oresteiu (Æskylos 1983) sem Sveinn Einarsson setti upp á sínu síðasta starfsári sem þjóðleikhússtjóri. Þetta var stór sýning og ég var ein í kór kvennanna, Fúríanna, en falið að gerast staðgengill Önnu sem var barnshafandi og veiktist um tíma á meðgöngunni. Þegar hún hresstist á ný tók hún aftur við Kassöndru og ég sneri til baka í Fúríukórinn.
Að sjálfsögðu tókum við báðar þátt í mörgum sýningum þar sem hin kom hvergi nærri, við vorum um margt ólíkar, stefndum í ólíkar áttir, en á milli okkar bast sterkur systurlegur strengur. Og nú hefur „systir“ mín gengið út af sviðinu í hinsta sinn. Við sem höfðum sammælst um að taka upp þráðinn frá sýningunni sem við kynntumst fyrst í, kabarettsýningu í Þjóðleikhúskjallaranum, Ertu nú ánægð kerling? (1974) sem fæddi af sér plötuna Áfram stelpur kringum Kvennafrídaginn 1975. Við stefndum að endurkomu leikkvennanna sem þá voru ungar. Anna Kristín var forsöngvari og spurði forðum með sinni ungu og björtu rödd: „Hvers vegna þegjum við þunnu hljóði?“ Sagði svo: „Ó, ó, ó stelpur!, ó, ó, ó, stelpur! Við brýnum okkar raust svo berist hún um heiminn!“
Raust íslenskra kvenna og íslenskrar kvennabaráttu átti í reynd eftir að berast um heiminn. Kvennafríið 24. október 1975 vakti athygli langt út fyrir landsteinana. Vigdís Finnbogadóttir, gamli kennarinn hennar Önnu úr leiklistarskóla LR, varð fyrsta konan til þess að ná kjöri sem þjóðhöfðingi í lýðræðislegum kosningum 1980. Og á þessari nær hálfu öld sem liðin er frá því við sungum lögin okkar úr Kjallaranum og af Lækjartorgi inn á plötu, og sum hafa orðið klassík, hefur Ísland þokast í fremstu röð þjóða þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Anna Kristín og við konurnar úr leikhúsinu eigum okkar hlut í þeirri baráttu, þeirri þróun. Við sem eftir stöndum syrgjum fallna systur sárt.
Blessuð sé minning mikilhæfrar leikkonu, systur, maka, móður, ömmu; fagurrar og heillandi konu til hinstu stundar.
Steinunn Jóhannesdóttir.
Tíminn er skrýtin skepna.
Þegar íslenskt sjónvarp hóf göngu sína var faðir minn fyrsti yfirmaður „lista- og skemmtideildar“.
Fyrsta útsending var 1966 en fyrsta íslenska leikritið sem var sett upp sérstaklega fyrir sjónvarp var flutt 4. mars 1968, Romm handa Rósalind eftir Jökul Jakobsson. Þá sat ég, á 16. ári, með stjörnur og tár í augunum og horfði á Önnu Kristínu Arngrímsdóttur túlka Rósalind af svo mikilli nærfærni og hógværð að ég náði varla andanum. Svona vildi ég verða, eins og þessi þroskaða, glæsilega leikkona! Það var ekki fyrr en löngu síðar að ég áttaði mig á því að aldursmunurinn á okkur væri ekki nema fjögur ár.
Svo fylgdist ég með afrekum Önnu í gegnum árin, á leiksviðinu í Iðnó, m.a. undir leikstjórn pabba í Hitabylgju og í Þjóðleikhúsinu þar sem hver leiksigurinn rak annan, en ég læt nægja að nefna Kæru Jelenu og svo Kirsiblóm á Norðurfjalli þar sem Anna varð japönsk í útliti, hreyfingum og öllu látbragði, svo unun var á að horfa.
Persónuleg kynni og vinátta okkar Önnu hófst svo þegar ég réðst til Þjóðleikhússins og þá hafði aldursmunurinn þurrkast út. Við lékum oft og mikið saman en vænst þykir mér um samvinnu okkar í Jón Gabríel Borkmann eftir Henrik Ibsen. Það var árið 2003 og við lékum þar systur. Anna lék Ellu, fyrrverandi unnustu Borkmanns, en ég var Gunnhildur eiginkona hans. Þar áttum við mjög náið og gott samstarf, studdum hvor aðra og hvöttum til dáða, grétum saman og hlógum í stressinu sem fylgdi allri dramatíkinni á sviðinu.
Þarna urðum við systur í anda og það gladdi okkur að lesa þessi orð gagnrýnanda: „Þær ná báðar meistaralegum tökum á hlutverkunum og það var stórbrotið að fylgjast með þeim túlka þessar ólíku systur.“
Og mér fannst ég, einbirnið, eiga systur í Önnu. Ég gat leitað til hennar bæði í gleði og sorg, faðmlagið hlýja var alltaf til reiðu. Svo gátum við líka gantast og hlegið eins og asnar, því húmorinn áttum við sameiginlegan, líka ástina á ljóðlistinni og móðurmálinu okkar, en Anna hafði hvort tveggja á valdi sínu.
Hún ætlaði að koma að skoða nýja heimilið mitt þegar þau Úlfar kæmu frá Spáni, það fór öðruvísi en ætlað var.
Þakka þér samfylgdina kæra fallega vinkona, þín verður sárt saknað.
Úlfari, börnum Önnu og fjölskyldunni allri sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Ragnheiður K. Steindórsdóttir.