Dagur Benediktsson frá Ísafirði og Kristrún Guðnadóttir úr Skíðagöngufélaginu Ulli í Reykjavík urðu í gær Íslandsmeistarar í sprettgöngu með frjálsri aðferð í Hlíðarfjalli á Akureyri.
Þar hófst Skíðamót Íslands í skíðagöngu en keppnin heldur áfram í dag og lýkur á morgun.
Dagur varð fyrstur af þremur Ísfirðingum sem komust á verðlaunapallinn í karlaflokki en hinn þrautreyndi Snorri Einarsson varð annar og Ástmar Helgi Kristinsson þriðji.
Kristrún sigraði í kvennaflokki og þar var líka um þrjá samherja að ræða á pallinum því María Kristín Ólafsdóttir varð önnur og Sigríður Dóra Guðmundsdóttir þriðja en þær eru líka úr Ulli.
Þá var keppt í yngri flokkum þar sem Viktoría Rós Guseva frá Akureyri sigraði í flokki stúlkna 13-14 ára, Jökull Ingimundur Hlynsson frá Siglufirði í flokki drengja 13-14 ára, María Sif Hlynsdóttir frá Ísafirði í flokki stúlkna 15-16 ára og Elías Mar Friðriksson úr Ulli í flokki drengja 15-16 ára.
Í dag verður keppt í 10 km göngu með hefðbundinni aðferð og á morgun lýkur mótinu með keppni í 15 km göngu með frjálsri aðferð.