Leikurinn var á margan hátt ágætlega spilaður af íslenska liðinu. Norska liðið virkaði heldur sterkara á vellinum í heild en Ísland fékk fleiri góð færi til að skora og var nær sigri.
Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir voru óheppnar að komast ekki á blað en það er ljóst að liðið þarf að fara að nýta færin betur. Þetta er í fjórða sinn í fimm leikjum sem það skorar ekki en boltinn small bæði í stöng og slá norska marksins í leiknum. En marktækifærin voru fyrir hendi.
Margir höfðu áhyggjur af varnarleik liðsins með Glódísi Perlu fjarverandi en varnarmennirnir stóðu sig allir vel, ekki síst bakverðirnir Guðný Árnadóttir og Sædís Rún Heiðarsdóttir sem hófu margar af bestu sóknum liðsins. Miðverðirnir Guðrún og Ingibjörg stigu nær engin feilspor.
Sem fyrr skapaði Sveindís Jane mestu hættuna í sóknarleiknum og á miðjunni var Berglind Rós Ágústsdóttir kraftmikil allan tímann. Góð innkoma hjá henni í fyrsta byrjunarliðsleiknum í tæp tvö ár.
Þjálfararnir Þorsteinn Halldórsson og Gemma Grainger eru í hálfgerðri refskák þar sem liðin mætast aftur í Þrándheimi í lok maí áður en þau eigast við í mikilvægasta leiknum, á EM í sumar, og lykilleikmenn vantaði í bæði lið. Fyrir íslenska liðið ætti að vera gott fyrir sjálfstraustið að finna að það stendur því norska fyllilega á sporði.