ÍL-sjóður Lögfræðilegar spurningar hafa risið vegna tilboðs ríkisins.
ÍL-sjóður Lögfræðilegar spurningar hafa risið vegna tilboðs ríkisins. — Morgunblaðið/Eyþór
Lögfræðilegar og siðferðilegar spurningar hafa risið vegna tilboðs ríkisins til eigenda bréfa ÍL-sjóðs vegna svokallaðra HFF-bréfa. Samkvæmt nýrri greinargerð frá Óttari Guðjónssyni hagfræðingi eru uppi verulegar efasemdir um hvort tilboðið standist skilmála bréfanna og lög

<autotextwrap>

Lögfræðilegar og siðferðilegar spurningar hafa risið vegna tilboðs ríkisins til eigenda bréfa ÍL-sjóðs vegna svokallaðra HFF-bréfa.

Samkvæmt nýrri greinargerð frá Óttari Guðjónssyni hagfræðingi eru uppi verulegar efasemdir um hvort tilboðið standist skilmála bréfanna og lög.

Í greinargerðinni er dregið í efa hvort ríkið hafi lagalega heimild til að bjóða eigendum HFF-bréfa skipti á öðrum skuldabréfum, þar sem skilmálar útgáfunnar banna að skuldin sé greidd með öðrum hætti en samið var um. Heimildir til að gera slíkt eru ekki skýrar í opinberum gögnum og virðast ekki hafa verið birtar í Kauphöllinni.

Mögulegt brot gegn jafnræði

Auk þess eru áhyggjur af broti gegn jafnræði eigenda. Ríkisvaldið viðurkennir að stærri og smærri eigendur fái mismunandi kjör, bæði hvað varðar ávöxtun og tegund skuldabréfa sem boðin eru í skiptum. Þannig fá stærri fjárfestar ríkisskuldabréf með hærri vöxtum og skemmri binditíma en smærri eigendur.

Sömuleiðis er mismikið greitt í reiðufé til ólíkra hópa án skýringa. Þetta veldur því að smærri eigendur, sem vilja ávaxta eignir sínar áfram, þurfa sjálfir að finna fjárfestingarkosti í stað HFF. Erfitt getur reynst að finna sömu ávöxtun miðað við áhættu.

Morgunblaðið leitaði til Óttars vegna greinargerðarinnar:

„Mér finnst óskiljanlegt hvers vegna ríkisvaldið gengur svo hart fram sem virðist í þessu máli. Mér þætti lágmark að bjóða eigendum HFF sömu ávöxtun og þeir eru að gefa frá sér. Óþarfi er að lengja í skuldum á sama tíma og óþarfi að afhenda reiðufé. Til viðbótar við þetta finnst mér algert hneyksli og ekki geta staðist lög að mismuna eigendum með þeim hætti að augljóslega hallar á minni eigendur. Einföld leið framhjá öllum þessum athugasemdum væri að bjóða þeim sem vilja að eiga HFF-bréfin sín áfram hafi þeir áhuga á því.“

mj@mbl.is