Hafsteinn Þór fæddist á Ólafsfirði 16. desember 1948. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Siglufirði 26. mars 2025.
Hafsteinn Þór er sonur þeirra Halldóru Gestsdóttur og Sæmundar Pálma Jónssonar. Hafsteinn var fjórði í röðinni af sex bræðrum: Nonna, Árna, Gesti, Hafsteini, Matta og Brynjari, en þeir bræður skiptu hann miklu máli. Hann bjó alla sína tíð í þessum fagra Ólafsfirði, nema þegar sjómennska og vertíðarstörf leiddu hann víðar. Það var einmitt á vertíð í Vestmannaeyjum árið 1965, að hann Hafsteinn kynntist sinni Eyjameyju, Kristínu Margréti, eða Stínu, eins og hún er oftast kölluð. Stína settist að á Ólafsfirði með Hafsteini, og stuttu síðar, þann 10. apríl 1966, eignuðust þau sitt fyrsta barn, hann Halldór Þór og aðeins 364 dögum síðar, þann 9. apríl 1967, kom annað barn þeirra í heiminn, hún Sigga.
Þann 29. desember 1968 giftu þau Hafsteinn og Stína sig, í Ólafsfjarðarkirkju. Fyrstu árin í sambúð bjuggu þau í Strönd, við Strandgötuna á Ólafsfirði, en árið 1971 fluttu þau í Hrannarbyggð 5, hús sem Hafsteinn hafði byggt sjálfur og þar sem hann bjó út ævi sína.
Hafsteinn var einstaklega duglegur maður – alveg frá því í barnæsku og þar til að hann lést. Hann vann hörðum höndum við ýmis störf, m.a. sjoppu- og hótelrekstur á Ólafsfirði ásamt Stínu sinni, en sjómennska var alltaf hans stærsta ástríða. Hann var sjómaður í húð og hár og sigldi víða um höf í gegnum árin.
Hafsteinn var einstaklega heilsuhraustur maður lengstan hluta lífs síns. Það var ekki fyrr en snemma sumars 2024 sem hann byrjaði að finna fyrir heilsubresti og greindist með smáfrumukrabbamein í lungunum. Þrátt fyrir þessar fréttir tók Hafsteinn þeim með mikilli dáð og sýndi aldrei hræðslu eða pirring. Hann byrjaði í lyfjagjöf um haustið og svaraði meðferðinni einstaklega vel. Þegar Hafsteinn lauk síðustu lyfjagjöf sinni í byrjun árs 2025, og myndir sýndu að meinið í lungunum væri nánast horfið í bili, var því ástæða til að fagna.
Það var síðan í marsmánuði þessa árs, þar sem Hafsteinn varð lasinn og virtist ekki geta náð sér sjálfur upp úr veikindunum. Læknisheimsóknir Hafsteins bæði til Akureyrar og Siglufjarðar, enduðu með því að hann lagðist inn á sjúkrahúsið á Siglufirði og við frekari rannsóknir kom í ljós að meinvörp höfðu sest á heila hans. Þróunin á ástandi hans var þess eðlis að tæpri viku síðar, þann 26. mars 2025, lést Hafsteinn umkringdur ástvinum sínum á sjúkrahúsinu á Siglufirði.
Útför Hafsteins verður haldin í Ólafsfjarðarkirkju í dag, 5. apríl 2025, kl. 11.
Elsku afi Hafsteinn kvaddi okkur 26. mars sl. á sjúkrahúsinu á Siglufirði eftir hetjulega baráttu fram á síðustu stund. Við erum virkilega þakklát fyrir það einstaka hjartalag og umhyggju sem starfsfólk sjúkrahússins sýndi honum. Þrátt fyrir að sárt sé að missa góðan mann eins hann afa er það engu að síður ljóst að hann fékk þann heiður að vera heilsuhraustur og lífsglaður næstum fram að síðasta degi.
Afi var maður sem elskaði fólkið sitt, og þrátt fyrir að vera ekki alltaf sá liprasti í að setja tilfinningar sínar í orð var það alltaf augljóst í verki og í því hvernig hann hugsaði um þau sem voru honum næst. Það verður ótrúlega skrítið að venjast því að hafa afa ekki lengur í næstu götu, að fá ekki fleiri myndbönd af Myllu á göngu eða að fá eitt gott knús frá honum.
Það sem ég er hvað þakklátust fyrir er að hann fékk að kynnast henni Emmu, dóttur minni. Það var svo dýrmætt að sjá þau saman – hún brosti sínu breiðasta í hvert einasta skipti sem hún sá afa sinn. Þau tengdust á sérstakan og fallegan hátt, og við munum halda fast í þær stundir sem þau áttu saman.
Við kveðjum þig með söknuði, elsku afi, en einnig með þakklæti fyrir allt sem þú gafst okkur. Þú lifir áfram í minningum, brosum og hlýjunni sem þú skilur eftir þig.
Kristín Margrét Halldórsdóttir.
Allflestir eiga sína uppáhaldsstaði og fyrir því geta verið margar ástæður. Stundum er það einfaldlega staðurinn sjálfur sem heillar eða fólkið sem þar býr, eða kannski bara hvort tveggja.
Þannig var það með mig, þegar ég kom fyrst til Ólafsfjarðar, þá náði staðurinn mér strax enda uppalinn á Norðfirði, sem var þá í svipuðum stærðarflokki. Það var ekki einungis að ég næði í konuna mína á Ólafsfirði, heldur náði ég strax afar góðum tengslum og vináttu við marga bæjarbúa, sem haldast hafa í áratugi. Margir minna bestu vina eru nú horfnir og í dag langar mig að minnast eins sem var mér einkar kær hin síðari ár.
Hafsteinn Sæmundsson var innfæddur Ólafsfirðingur og sannarlega vissi ég af honum, þó okkar kunningsskapur og vinátta hæfist ekki strax. Við Hafsteinn áttum okkar sameiginlega áhugamál, sem var golfið.
Við vorum kannski ekki bestu kylfingar landsins en við áttum það sameiginlegt að hafa virkilega gaman af að spila golf. Golfklúbburinn í Ólafsfirði er og var okkur hjónum afar kær og sannarlega skemmdi það ekki fyrir að tengdapabbi minn var einn af stofnendum klúbbsins. Á golfvellinum í Ólafsfirði hittast heldri menn og konur bæjarins á hverjum morgni þegar veður er skaplegt og spilaðar eru níu holur. Einhverra hluta vegna gerðist það bara að við Hafsteinn lentum oftast saman í holli og spiluðum saman. Þar var mikið spjallað og minnist ég margra skemmtilegra sagna sem Hafsteinn sagði mér. Hann stundaði sjóinn eins og flestir á hans aldri gerðu og kunni hann frá mörgu skemmtilegu að segja frá þeim tíma.
Segja má að Hafsteinn hafi tileinkað sér marga gamla og góða búskaparhætti því hann safnaði jurtum og ýmsu úr jurtaríkinu og bjó til ýmsa „görótta drykki“, sem hann sagði að væru góðir til lækninga við flestum kveisum en þó einkanlega við kvefi. Hafsteinn var mikill berjamaður og tíndi mikið af berjum á hverju sumri.
Það verður mjög sérstakt fyrir mig að koma norður í Ólafsfjörð og hitta morgunkylfingana þegar bæði Sóley mín og Hafsteinn vinur minn verða ekki lengur með okkur, en þannig er það nú bara að jafnvel okkar besta fólk hverfur burt alltof snemma.
Ég sendi vinum mínum í Golfklúbbi Ólafsfjarðar saknaðar- og samúðarkveðjur við fráfall Hafsteins.
Stína mín, þinn harmur er mestur og ég sendi þér og allri fjölskyldunni mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Guðmundur Oddsson.
hinsta kveðja
Elsku hjartans karlinn minn.
Núna skilja leiðir, sem mér finnst allt of snemma, en ég fæ engu um það ráðið. Við áttum gott líf saman og vorum alltaf góðir vini og elskuðum hvort annað. Nú er samleið okkar lokið í bili, ég er ekki sátt en fæ engu um það breytt. Bless elsku Hafsteinn minn, ég hugsa til þín alla daga og hlakka til þegar við hittumst aftur. Ástarkveðja, þín kæra.
Kristín Margrét Adolfsdóttir.