Ingunn Bryndís Norðdahl fæddist í Reykjavík 16. mars 1930. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Grund 6. febrúar 2025.
Foreldrar hennar voru Kristín Kristjánsdóttir frá Efri-Vaðli á Barðaströnd, f. 1892, d. 1964, og Runólfur Eyjólfsson frá Reynivöllum í Suðursveit, f. 1878, d. 1976. Alsystkin Ingunnar eru Kristján Runólfur, f. 1931, d. 1990, Helga Pálína, f. 1933, d. 1992, Kristján Sveinn, f. 1935, d. 2008, og Jónas, f. 1937, d. 2020. Samfeðra systkin eru drengur, f. og d. 19.10. 1909, og Magnús, f. 1910, d. 1972. Sammæðra systkin eru Magnús S. Breiðfjörð, f. 1919, d. 1940, Kristín Olsen, f. 1922, d. 1961, Lára Loftsdóttir, f. 1925, d. 2002, og Hrefna Morrison, f. 1928, d. 2008.
Hinn 5. september 1953 giftist Ingunn Braga Norðdahl, fv. flugstjóra hjá Icelandair, f. 7.12. 1924, d. 19.9. 2011. Foreldrar hans voru Guðbjörg Úlfarsdóttir Norðdahl frá Fljótsdal í Fljótshlíð, f. 1901, d. 1975, og Kjartan Norðdahl frá Úlfarsfelli í Mosfellssveit, f. 1902, d. 1982. Nýgift hófu þau búskap í vesturbæ Reykjavíkur en byggðu síðan hús í Kópavogi og bjuggu þar frá 1959-2009 er þau fluttu í þjónustuíbúð við Sunnuhlíð.
Börn Ingunnar og Braga eru: 1) Erna, f. 1954, maki Edward H. Finnsson, f. 1947. Börn Ernu og Hinriks Þórhallssonar, fv. maka: a) Bragi Þór, f. 1974, maki Helga Arnardóttir, f. 1979. Börn Braga og Jóhönnu Frímann fv. maka: Erna Ísabella, maki Viktor Hugi Henttinen, og Hinrik Huldar. Fyrir átti Jóhanna Bergþór Sverrisson, maki Bryndís Þórólfsdóttir, börn: Írena og Sverrir Leó. Sonur Braga og Helgu: Jakob Örn, fyrir átti Helga Margréti Júlíu Reynisdóttur. b) Þórhallur Örn, f. 1976, maki Helga Ósk Hannesdóttir, f. 1976, börn: Orri, Anna Karen og Una María. c) Ingunn Birta, f. 16.8. 1980, d. 2.10. 2017. d) Kristín Hulda, f. 1984, maki Tobias Wendel, f. 8.12. 1989, d. 9.10. 2020. Dætur hennar: Ingibjörg Erna Brynjarsdóttir og Alexandra Birta Wendel. Sonur Kristínar og Tobiasar: Sebastian Bjartur. Börn Edwards og Hafdísar Helgadóttur: a) Helga Fanney, f. 1971, dætur: Sara Ósk Þrúðmarsdóttir sem á Helen Unu. Stefanía Veiga Sigurjónsdóttir, maki Benóný Dagur Brynjarsson, börn: Emma Katrín og Edward. b) María, f. 1974, maki Ólafur Rögnvaldsson, f. 1975. Dóttir: Kolbrún Vignisdóttir sem á Ými Hrafn Daðason. Börn Maríu og Ólafs: Katrín, Margrét og Sigurður. Fyrir átti Ólafur Árna. c) Hjálmar, f. 1975, synir hans og Áslaugar Friðriksdóttur, fv. maka: Hjálmar Friðrik og Jóakim. Fyrir átti Áslaug Þórkötlu. Dóttir Hjálmars og Óskar Mubaraka, fv. maka: Silva Hafdís. d) Tómas, f. 1978, maki Jóhanna Símonardóttir, f. 1970. Börn: Símon, Finnur og Anna María. 2) Kristín, f. 1956, maki Kristinn Guðmundsson, f. 1952. Sonur Kristínar og Helga Felixsonar, fv. maka: a) Snorri, f. 1974, maki Armi Linden, f. 1977, börn: Alexander Felix, Lilja María, Tyler Devin og Baldur Máni. Börn Kristínar og Kristins: b) Anna Rúna, f. 1983, maki Johan Torén, f. 1982, börn: Iðunn Hekla og Viðar Kári. c) Grímur, f. 1991, maki Unnur Lilja Úlfarsdóttir, sonur: Hrafn Andri. d) Birkir, f. 1994. 3) Björk, f. 1964. Börn hennar og Braga Hilmarssonar, fv. maka: a) Tryggvi, f. 1992, maki Katrín Kemp Stefánsdóttir, f. 1997. b) Brynjar, f. 1995, maki Aníta Rut Gunnarsdóttir, f. 1996. c) Hildur, f. 2000.
Ingunn ólst upp í Reykjavík. Hún byrjaði ung að vinna fyrir sér. Nítján ára fór hún til Ameríku ásamt vinkonum sínum og vann þar í rúmt ár við ýmis störf. Hún hafði ekki tækifæri til að mennta sig á yngri árum en tók gagnfræðapróf á fullorðinsárum og nam síðan við Menntaskólann við Hamrahlíð. Ingunn vann af og til utan heimilis, gjarnan við verslunarstörf og í nokkur ár við umönnun aldraðra á Sunnuhlíð í Kópavogi. Hún rak barnafataverslunina Vögguna á Laugavegi 12a á árunum 1983-1987.
Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Elsku amma Didda.
Margar ljúfar æskuminningar tengjast eldhúskróknum á Þingholtsbrautinni hjá afa og ömmu, þar var notalegt að vera og ótrúlegt hversu margir komust fyrir. Að kíkja við í te og kjafta um lífið og tilveruna var alltaf gott og gaman! Þar lærði ég margt, til dæmis ljúfan ósið að borða blautt mjólkurkex upp úr tei, sefandi athöfn við amstri dags eða heimþrárköstum, siður sem fylgir mér væntanlega lífið út þótt það sé kjánalegt að flytja mjólkurkex í kassavís milli landa.
Amma og afi voru alltaf til í að leyfa okkur krökkunum að hanga með – kunni símanúmerið utan að alla tíð og eftir skóla eða í fríum var oft hægt að stytta sér stundir við að kjafta við ömmu og fá að koma með í einhver ævintýri með þeim. Fara upp í afasveit eða út í bæ, útvarpsleikfimi í stofunni, sólböð, sund í Kópavogslaug, heilsa upp á fólkið sitt eða bara eitthvert stúss. Það er dýrmætt að eiga alltaf trygga höfn og það var heimilið þeirra svo sannarlega – nenntu meira að segja á eldri árum að breyta bílskúrsgeymslunni sinni í stúdentaíbúð með mér.
Amma, eins og konur af hennar kynslóð, lagði alltaf mikið upp úr að vera vel tilhöfð, passlega uppáklædd og með hárið lagt. Fyrir okkur frænkurnar voru rúllurnar, fín krem og snyrtivörurnar spennandi. Að velja og skapa gæðaföt var eitt af hennar lífslöngu áhugamálum. Á yngri árum var amma ekki minna smart en Hollywoodstjörnurnar og svo kunni hún líka að sauma fötin. Þegar hún var orðin 80 ára og kíkti í heimsókn til okkar mömmu í Gautaborg með öllum stelpunum sínum var hún í essinu sínu í verslunarmiðstöðinni og sló okkur öllum við í búðarápinu.
Eins og gengur lentum við stundum upp á kant enda var amma pínu hvatvís og ráðskonugen í okkur báðum en það urðu alltaf fljótt bara fleiri skemmtilegar sögur að segja og hún kom mér oft á óvart með jákvæðni fyrir alls konar og frjálslyndum hugmyndum. Ég hlæ enn upphátt að minningunni þegar ég fyrir framan allan vinahópinn tók upp útskriftargjöf frá ömmu með vænni sendingu úr Victoria's Secret … aftur á móti þreyttist hún seint á að reyna að kenna mér að halda „rétt“ á hnífapörum – ef ske kynni að ég lenti í boði með kóngafólki …
Í fjölskyldunni eru margir bókaormar og sögufólk og amma lagði þar sannarlega á vogarskálarnar með einlægum áhuga og virðingu fyrir menningu, bókastaflar og –rýni gengu á milli og ljóð páruð. Amma hafði alltaf mikinn metnað fyrir að okkur börnunum og öllu fólkinu sínu gengi vel í því sem við tókum okkur fyrir hendur og hún sagði gjarnan grobbsögur af sniðugheitum annarra. Sögur af uppfinningaríkum ættmennum, nú sem fyrri alda, gefa extra stolt og þor að láta til sín taka.
Mér þykir svo vænt um að börnin mín hafi líka fengið að kynnast ömmu Diddu, þrátt fyrir útlandsvist. Iðunn á eftir að muna með langömmu dundur við naglalökkun, teboð í Kópavogi, lestur, frí á Bakka og elskaða fjársjóði í herbergið sitt.
Takk amma mín fyrir allt fjörið; fjölskyldusamveruna, ævintýrin með ykkur afa, þolinmæðina, sögurnar og veganestið kynslóða á milli!
Þín ömmustelpa,
Anna Rúna Kristinsdóttir.