Hörður Bergsteinsson fæddist 4. október 1942. Hann lést 9. mars 2025.

Útför Harðar fór fram 2. apríl 2025.

Þegar ég fór til náms í barnalækningum í Bandaríkjunum tók Haddi á móti mér og fjölskyldu á flugvellinum í New York og lóðsaði okkur til Hartfort í Connecticut. Þar vorum við saman við nám.

Það myndaðist góður vinskapur á milli Hadda og Leons Chameides, yfirlæknis barnadeildar Hartfort Hospital, og átti Haddi síðar eftir að greiða götu margra sem fóru í nám þar, okkur öllum til góðs.

Í Hartfort gerðum við fjölskyldurnar margt saman í frístundum okkar. Fórum á skíði, í útilegur og á strönd. Við spiluðum golf og náði Haddi góðum tökum á golfinu, eitthvað annað en ég!

Síðar áttum við samleið í Montreal í Kanada þar sem Haddi lærði nýburalækningar en ég ofnæmis- og ónæmisfræði. Þar bjuggum við í sama raðhúsahverfi og áfram nutum við frístunda saman. Þá bættist við tennisleikur þar sem ég gat bætt fyrir lélega frammistöðu í golfinu!

Það tók okkur 30 til 40 mínútur að keyra á spítalann, Montreal Children's Hospital. Við fórum á bíl annars okkar og konur okkar og börn höfðu hinn til afnota. Í þessum bílferðum okkar sýndi Haddi mikið umburðarlyndi þegar ég talaði um ónæmis- og ofnæmisfræði, sem ég var mjög uppveðraður yfir, en ég fékk líka fræðslu um nýburalækningar.

Við áttum góðar stundir saman í Montreal eins og í Hartfort og aldrei bar skugga á vináttu okkar.

Þegar heim kom hóf Haddi störf á nýburadeild Barnaspítala Hringsins. Óhætt er að segja að hann hafi átt mjög stóran þátt í því að árangur í nýburalækningum varð frábærlega góður.

Við vorum starfsfélagar á Barnaspítalanum í mörg ár og hélst vináttan ávallt góð.

Ég, Kolla og fjölskylda okkar vottum Ellu, börnum og barnabörnum okkar dýpstu samúð við fráfall okkar góða vinar.

Björn Árdal.

Ég hef verið um tvítugt þegar mamma sagði mér að bróðir Siggu Bergsteins vinkonu hennar væri í Kanada að læra að lækna nýfædd börn og þar á meðal börn sem fæðst hefðu of snemma. Mér þótti þetta áhugavert, en grunaði ekki þá að þessi maður yrði seinna mín helsta fyrirmynd og að ég ætti eftir að starfa lengi með honum.

Hörður hóf störf á vökudeild Barnaspítala Hringsins árið 1976, nokkrum mánuðum eftir opnun deildarinnar. Hafði hann þá lokið námi í almennum barnalækningum í Bandaríkjunum og nýburalækningum í Kanada, auk sérnáms í lungnalækningum barna. Starfaði Hörður á vökudeildinni alla tíð síðan, þar til hann lét af störfum árið 2009.

Það var mikilvægt fyrir starfsemi hinnar ungu deildar að fá vel menntað fagfólk til starfa í upphafi. Ragnheiður Sigurðardóttir hjúkrunardeildarstjóri hafði lært hjúkrun nýbura í Skotlandi og Atli Dagbjartsson nýburalæknir hóf störf á Barnaspítalanum nokkru áður. Þau þrjú, ásamt Gunnari Biering yfirlækni, leiddu starfsemi deildarinnar og mótuðu þjónustu við veika nýbura hér á landi næstu árin.

Hörður var mjög fær læknir sem sinnti skjólstæðingum sínum einstaklega vel, bæði börnunum og foreldrum þeirra. Átti það ekki aðeins við þegar börnin voru á vökudeildinni, heldur fylgdi hann þeim einnig vel eftir að heim var komið.

Eitt af því sem einkenndi Hörð var hversu vel hann sinnti unga fólkinu, nemum og unglæknum. Hann var óþreytandi við að fræða og var óspar á tíma sinn. Honum þótti gaman að spjalla og fléttuðust heimspekilegar hugleiðingar þá oft inn í umræðuna.

Hörður var alla tíð einkar áhugasamur um að verðandi barnalæknar fengju góða sérmenntun. Gerði hann sér grein fyrir mikilvægi þess að íslenskir læknar kæmust á bestu sjúkrahús erlendis og notaði hann því þau tengsl sem hann hafði við Barnaspítalann í Hartford, Connecticut, þar sem hann var í sérnámi á sínum tíma. Segja má að allir þeir sem Hörður mælti með hafi komist þangað og er meirihluti þeirra barnalækna hér á landi, sem fór í sérnám vestur um haf, menntaður þar.

Í Montreal kynntist Hörður nýburalækninum Mary Ellen Avery, sem árið 1959 sýndi fram á að lungnasjúkdómur fyrirbura orsakast af skorti á efni er kallast surfaktant. Tókst með þeim góð vinátta sem hélst alla tíð og kom hún hingað til lands. Þegar ég var í sérnámi í Bandaríkjunum komst ég fljótt að því hversu virt þessi kona var og þótti mér gaman að geta sagt frá því að hún væri Íslandsvinur.

Á námsárunum tók Hörður þátt í rannsókn sem sýndi fram á að koffín örvar öndun fyrirbura og hefur því verið notað sem lyf til að fyrirbyggja öndunarhlé hjá þeim. Það er ánægjulegt að geta þess að nýlega hlaut hún árlega viðurkenningu Bandaríska barnalæknafélagsins fyrir að vera tímamótarannsókn sem staðist hefur tímans tönn og bætt horfur nýbura um heim allan.

Við fyrrverandi samstarfsfólk og kollegar Harðar kveðjum hann með virðingu og þökk, og vottum Ellu og fjölskyldunni okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning hans.

Þórður Þórkelsson.