Bæjarlistamaður Kópavogs, Kristófer Rodriguez Svönuson, og strengjaleikarar kammerhópsins Cauda Collective standa fyrir tónleikum sem nefnast „Skjól: strengir og skinn“ í Gerðarsafni í kvöld kl 20. Þá hafa þau fengið til liðs við sig Birgi Stein Theodórsson kontrabassaleikara og Matthías Hemstock slagverksleikara og munu þau leika tónlist sem fjallar á einhvern hátt um vatn. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu verður leikið með hið hefðbundna tónleikaform á mörkum tónlistar og myndlistar. Að þessu sinni skipa Cauda Collective þær Sigrún Harðardóttir á fiðlu, Þóra Margrét Sveinsdóttir á víólu og Þórdís Gerður Jónsdóttir á selló. Kristófer Rodriguez er slagverksleikari og tónskáld af íslenskum og kólumbískum uppruna og ólst upp í Kópavogi þar sem hann býr enn í dag. Árið 2019 gaf hann út sína fyrstu plötu Primo, sem var tilnefnd sem plata ársins í opnum flokki á Íslensku tónlistarverðlaununum.