Hlýtt loft verður yfir landinu næstu dagana og gæti hiti náð allt að 20 stigum, að sögn veðurfræðings.
„Það er hæð austur af landinu við Færeyjar sem er að fikra sig í áttina að Bretlandseyjum og hún mun dæla til okkar sunnanáttum með hlýju lofti langt sunnan úr höfum,“ segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Hann segir að í dag og á morgun muni hámarkshitinn á Norður- og Austurlandi fara yfir 15 stig og eins og spáin líti út núna þá gæti hitinn náð allt að 20 stigum í upphafi næstu viku.
„Það er ekkert útilokað að hitinn nái 20 stigum fyrir norðan og austan en það þarf ýmislegt að ganga upp til að svo verði. Eigum við ekki að segja að miði sé möguleiki,“ segir Birgir.
Hann segir þó ólíklegt að hitamet í apríl verði slegin. Þá segir hann að líklega verði veðrabrigði eftir miðja næstu viku. gummih@mbl.is