Brennidepill
Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
Aðildarríki Atlantshafsbandalagsins (NATO) þurfa að stórefla hernaðarstuðning sinn við Úkraínu og auka um leið gæði þeirrar þjálfunar sem verðandi hermenn Úkraínuhers fá áður en þeir eru sendir inn á vígvöllinn. Ekki sé nóg að þjálfa einstaklinga til almennrar herþjónustu í einungis sex vikur, líkt og nú er gert. Slík þjálfun skilar ekki nægjanlegum árangri í vopnuðum átökum. Þetta segir Simon Woodiwiss, fv. herstjórnandi í Bretlandsher og öryggisráðgjafi í Úkraínu. Fái Úkraínumenn nauðsynlegan stuðning frá Vesturlöndum er, að hans mati, útilokað að Rússar vinni stríðið. Rússlandsher sé einungis skugginn af því sem hann áður var.
„Úkraínuher hefur sýnt heiminum færni sína við að nýta alla þá hluti sem hann kemst yfir. Og ég veit ekki betur en árásardrónar þeirra hafi grandað fleiri skotmörkum en nokkurt annað vopnakerfi í þessu stríði. En drónar leysa ekki fótgönguliða af hólmi. Það er ekki hægt að ná landsvæði án fótgönguliða. Án þeirra er ekki hægt að endurheimta eða leggja undir sig land,“ segir Woodiwiss í samtali við Times Radio og bætir við að nú, þegar rúm þrjú ár eru liðin frá allsherjarinnrás Rússlands inn í Úkraínu, sé þjálfun almennra hermanna ófullnægjandi.
Stíf þjálfun eykur færni
„Grunnþjálfun fótgönguliða í Úkraínuher er einn og hálfur mánuður. Það er langt frá því að vera fullnægjandi þjálfun. Lengja þarf þjálfun þessara manna og þarf hún einnig að vera markvissari til að tryggja að ólíkar sveitir hersins vinni sem ein heild. Þá er einnig brýnt að veita betri markþjálfun. Við sjáum of mörg dæmi um ónákvæma beitingu skotvopna á vígvellinum – menn verða að fella skotmark sitt í einni til tveimur skothríðum í stað þess að sólunda skotfærum út í loftið. En slíkt lærist ekki nema með stífri þjálfun,“ segir hann og bendir á að það eigi að vera í höndum Vesturlanda að þjálfa Úkraínuher til orrustu. Segir Woodiwiss brýnt að stórauka fjármagn til þjálfunar hermanna og að þjálfun eigi að eiga sér stað innan landamæra Úkraínu en ekki utan. En tugir þúsunda Úkraínumanna hafa til þessa hlotið þjálfun innan landamæra annarra Evrópuríkja, m.a. á Bretlandseyjum og í Póllandi.
Vesturlönd verða að halda
Mikil umræða hefur átt sér stað sl. mánuði um hvernig best sé að ljúka stríðinu. Ýmsar útgáfur af vopnahléi hafa verið ræddar og eru hugmyndir einnig uppi um að senda inn vestrænt herlið til friðargæslu, náist að slíðra sverðin. Woodiwiss er hins vegar þeirrar skoðunar að einungis sé hægt að binda enda á stríðið með sigri á vígvellinum. Og að slíkur endir sé raunhæfur í Úkraínu.
„Ég er almennt þeirrar skoðunar að stríð vinnist á vígvellinum. Það er hægt að stöðva átök með samningum en stríði lýkur á vígvellinum. En til þess þarf Úkraína að hafa mun fleiri hermenn. Taka þarf slaginn gegn Rússum með sókn í stað þess að verjast endalaust.“
Moskvuvaldið mun fyrir 15. júlí fjölga með herkvaðningu í herafla sínum um 160 þúsund manns á aldrinum 18 til 30 ára. Woodiwiss segir ljóst að Rússland sé ekki að undirbúa frið. „En miðað við getu Rússlandshers á vígvellinum, þá munu Úkraínumenn stráfella þessa hermenn, svo lengi sem stuðningur helst frá Vesturlöndum. […] Á meðan við styðjum Úkraínu, þá er útilokað fyrir Rússland að vinna á vígvellinum. Ég hef enga trú á því.“
Molnar undan Moskvu
Rússar lifa á fornri frægð
Simon Woodiwiss, fv. herstjórnandi í Bretlandsher, segir rússneska herinn nú vera skuggann af sjálfum sér. Rússland er langt frá því að vera það mikla herveldi sem það var á tímum Sovétríkjanna sálugu.
„Þetta er ekki sami her og Vesturlönd þjálfuðu sína heri til að takast á við frá sjötta áratug síðustu aldar. Rússar hafa vissulega kjarnorkuvopn og það er miður. En sjóherinn er brandari og landherinn er ómögulegur. Þeir eru að klára alla sína skriðdreka og byrjaðir að senda hermenn til sóknar á golfbílum og mótorhjólum. Flestir eru þó fótgangandi.“