Margrét Guðríður Karlsdóttir fæddist á Birnustöðum í Laugardal 27. desember 1943. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði 22. mars 2025.

Foreldrar hennar voru Ásmar Karl Gunnlaugsson, f. 16. ágúst 1909, d. 20. febrúar 1982, og Guðrún Jónsdóttir, f. 33. júlí 1916, d. 6. september 2005. Systkini Margrétar eru Gunnlaugur, f. 23. ágúst 1940, d. 2. ágúst 1990, Guðrún, f. 1945, Jón Helgi, f. 1948, og Þóra, f. 1952.

Fyrrverandi sambýlismaður Margrétar var Brynjólfur Gíslason, f. 15. nóvember 1942. Synir þeirra eru: 1) Rúnar Þór, f. 21. júlí 1963. Maki Ingibjörg Ólafsdóttir, börn þeirra eru fjögur og barnabörnin fjögur. 2) Gísli Jón, f. 28. desember 1965. Maki Kristrún Elva Jónsdóttir, börn þeirra eru þrjú og barnabörnin sex. 3) Ásmar Örn, f. 9. janúar 1967. Maki Auður Ingunn Friðriksdóttir, börn þeirra eru tvö og eitt barnabarn.

Útför fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 5. apríl 2025, klukkan 11.

Í dag, 5. apríl 2025, kveðjum við elsku Grétu ömmu og langömmu barna minna með miklum söknuði. Þegar ég hugsa til hennar ömmu hlýnar mér um hjartarætur. Hún amma var einstaklega góð kona með góða nærveru. Það eru fjölmörg lýsingarorð sem koma upp í hugann þegar ég hugsa til hennar ömmu minnar. Til að mynda var hún sjálfstæð, barngóð, hjartahlý, ráðagóð, ákveðin og traust. En fyrst og fremst var hún amma ein af mínum helstu fyrirmyndum í lífinu.

Frá því ég man eftir mér hefur amma alltaf haft nóg fyrir stafni. Hún átti sjoppuna Krílið á Ísafirði og vann þar öllum stundum þar til hún seldi sjoppuna og hætti að vinna sökum aldurs. Það var mikið sport að fá að koma með ömmu í vinnuna og afgreiða fólk í bílalúgunni ásamt því að borða yfir mig af sælum og alls konar sælgæti. Hún amma elskaði líka sveitina okkar, Hveravík, og vildi hún helst vera þar öllum stundum hefði hún getað það. Alltaf var nóg um að vera og gera í sveitinni. Sterkt í minningunni er þegar við systur vorum yngri og hræddar við kríurnar í sveitinni og þorðum ekki út að leika. Amma hafði nú ráð við því og skellti á okkur systur sælgætisboxi á höfuðið og fór með okkur út að leika. Svínvirkaði það ráð og við systur alsælar með þetta. Í sveitinni fórum við í ótal fjöruferðir, slógum grasið og rökuðum, fórum í heita pottinn eða sundlaugina og á haustin fórum við oft í berjamó. Amma elskaði að tína ber og fallegar skeljar í fjörunni. Fengum við fjölskyldan yfirleitt nokkra lítra af berjum á haustin eftir að amma hafði farið um allt Djúp í leit að aðalbláberjum.

Hún amma mín var einstaklega barngóð kona og mörg börn kölluðu hana alltaf Grétu ömmu, henni þótti mjög vænt um það. Ég hugsa til ömmu með miklu þakklæti fyrir hennar samband við börnin mín. Hún var þeim svo góð og sakna þau hennar mikið líkt og við hin. Þó svo að amma ætti heima fyrir vestan og við fyrir sunnan áttum við í nánu sambandi. Amma kom oft suður og var heima hjá mömmu og pabba í 2-3 vikur í senn. Naut hún þess mikið og við hin líka. Við hringdumst líka á og átti þá amma oft erfitt með að kveðja en hún endaði yfirleitt símtölin á orðunum „já, jú, já, bless“. Mér þykir það viðeigandi að ljúka þessum minningarorðum um hana ömmu með þeim sömu orðum. Takk fyrir allt, elsku fallega amma mín. Takk fyrir þig, ég elska þig og mun sakna þín alla daga. Þangað til næst: Já, jú, já, bless.

Hjördís Ósk Gísladóttir.

Að heilsast og kveðjast er lífsins saga. Kæra Gréta, við höfum átt fallega daga og stranga daga á okkar lífsins leið, en alltaf varst þú ráðagóð, dugleg, ósérhlífin, framtakssöm og traust. Tilveran var ekki alltaf einföld, að reka heimili og sjá fyrir endann á því. Vinátta þín og trúfesta var sterk og styrkti aðra í sínu lífi. Samleið okkar kallar fram minningar um gleði, vináttuna, samverustundir sem voru ófáar, þátttökuna í félagsstarfi okkar allra í litlu samfélagi en litríku. Hafðu kæra þökk fyrir allt og allt, minning þín lifir.

Hugheilar samúðarkveðjur til sona þinna, fjölskyldna og systkina.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem)

Steinunn.