Viðtal
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir nauðsynlegt að fylgjast grannt með afleiðingum verndartollasetningar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, en telur þó ástæðulaust að bregðast sérstaklega við að svo stöddu. Þetta kom fram í viðtali við ráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í gær.
Þarf ríkisstjórnin ekki að endurstilla nánast öll sín plön í ljósi tollatilkynningar Trumps?
„Ég held að það sé of snemmt að segja það. Auðvitað er þetta ekki jákvæð þróun, en fyrst og fremst hef ég áhyggjur af afleiddum áhrifum, viðbrögðum í öðrum löndum og að verðlag vindist upp.
Það breytir því ekki að við erum þrátt fyrir allt í lágmarkstolli. Það er auðvitað ekki gott að fá á sig 10% hækkun, en verð er alltaf afstætt og það fá allir a.m.k. 10% hækkun á sig, þannig að samningsstaða okkar er í mörgum tilvikum sterkari en hjá öðrum þjóðum.
Nefna má útflytjendur á sjávarafurðum héðan til Bandaríkjanna, vara sem er varla framleidd þar, þannig að samningsstaða okkar gagnvart verðlagningu þar er mjög sterk, en eins fengu okkar helstu keppinautar á sig hærri tolla en við. Við þurfum bara að fylgjast náið með og sjá hvað gerist.“
Gætin gagnvart ESB
Evrópusambandið (ESB) svaraði Trump með refsitollum, en ríkisstjórnin gælir við aðild, gæti það ekki truflað stöðuna? Nú eða ef tollastríð veldur efnahagslægð á okkar helsta útflutningsmarkaði ef ekki heimskreppu?
„Það er alveg rétt, þetta getur haft alvarleg áhrif. Það eru hins vegar alls konar greiningar í gangi núna, sem sýna að fyrstu viðbrögð hafi ekkert endilega stórkostleg áhrif á efnahagsumsvif, en þetta eru auðvitað bara fyrstu viðbrögð. Við vitum ekki hvað getur gerst. Þetta er fyrsta skrefið í vondri þróun, ef svo má segja.“
En Evrópusambandið?
„Ég get alveg tekið undir það að það væri alvarlegt ef viðbrögð Evrópusambandins myndu til dæmis toga okkur inn, það er að segja við myndum verða fyrir gagnkvæmnistollum, ekki aðeins gagnvart Bandaríkjunum, heldur einnig ef Evrópa ákvæði að setja tolla á önnur ríki til að vernda sína markaði.
Þess vegna er ég til dæmis að fara til Brussel í næstu viku þar sem ég mun ræða við Ursulu von der Leyen [forseta framkvæmdastjórnar ESB] og teymið í kringum hana. Ég veit að Jonas Gahr Støre [forsætisráðherra Noregs] er að gera slíkt hið sama. Ég átti samtal í morgun við forsætisráðherra Liechtenstein um stöðu EFTA-ríkjanna innan EES til að tryggja að það sé litið til þeirra sem aðila að innri markaðnum þótt við séum ekki í tollabandalaginu.
Það er auðvitað bara hrein og klár hagsmunagæsla, sem þarf til að tryggja að við festumst ekki þarna á milli.“
Engin stefnubreyting í bili
Nú hefur umræðu um fjármálaáætlun verið frestað um viku, af tæknilegum ástæðum skulum við segja; kæmi til greina að fresta henni frekar í ljósi gerbreyttra forsendna?
„Ég held að það væri verra. Í þessari stöðu þurfum við fyrst að gæta hagsmuna gagnvart Bandaríkjunum, svo við fáum ekki hærri tolla en þetta, í öðru lagi er hagsmunagæsla gagnvart Evrópusambandinu en í þriðja lagi er lykilatriði að ná efnahagslegum stöðugleika innanlands.
Það þurfa að vera skýr skilaboð frá ríkisstjórninni um að við munum hemja verðbólgu, að við munum ná hallanum niður, við munum vera með eðlilegan útgjaldavöxt og tekjur til að duga fyrir þessu. Það væru mjög vond skilaboð að mínu mati inn í atvinnulífið, inn í viðskiptalífið, inn í væntingar heimilanna, að sýna að við getum ekki haldið sjó í þessu.
Auðvitað er það síðan alltaf þannig að ytri aðstæður breytast, þær hafa áhrif á afkomu og annað slíkt og það er hægt að endurskoða það, en það er ekkert sem kallar á endurskoðun akkúrat núna.“
Væri þá rétt að hefja undirbúning endurskoðunar í haust …
„Við erum ekki komin á þann stað og ég held að það væri ekki rétt að ramma það þannig inn, að þetta sé einhver hræðileg staða fyrir íslenskt efnahagslíf. En auðvitað þurfum við að vera undir allt búin.“
Ríkisstjórnin áformar bæði veiðigjöld og auðlindagjald í ferðaþjónustu, þarf að taka það til endurskoðunar í þessu ljósi?
„Ég hygg að það sé ekki nauðsynlegt. Varðandi sjávarafurðir þá auðvitað fylgjumst við náið með, en eins og ég nefndi er samkeppnisstaða okkar, að minnsta kosti eins og sakir standa, hlutfallslega betri en margra keppinauta okkar.“