Már Guðmundsson fæddist 19. ágúst 1939. Hann lést 5. mars 2025.

Útförin fór fram 20. mars 2025.

Elsku besti Már frændi.

Mikið held ég að þú hafir verið hvíldinni feginn og ég er svo sannfærð um að það var tekið einstaklega vel á móti þér í sumarlandinu. Þú varst stóri bróðir mömmu og frændinn sem alltaf var svo ótrúlega stríðinn. En þér tókst samt einhvern veginn að stríða þannig að væntumþykjan skein í gegn. Þú varst einstaklega hjarthlýr maður, góður faðir og mikill fjölskyldumaður. Þrátt fyrir að lífið hafi margoft verið þér ansi erfitt þá áttir þú alltaf pláss í hjarta þínu til að taka að þér þá sem þurftu á vernd þinni og skjóli að halda.

Þú hafðir dásamlega nærveru og alltaf var stutt í spaugið og stríðnina hjá þér. Þú fetaðir í fótspor afa og starfaðir lengst af sem málari, þú spilaðir á harmonikku, hafðir gaman af því að hafa fullt af fólki í kringum þig og þá sérstaklega fjölskyldu þína og ástvini.

Eftir því sem þú eltist þá fannst mér þú alltaf líkjast afa meira og meira og ó hvað mér þótti vænt um það. Elsku frændi, nú eru þið sameinuð á ný þú, Jóhanna þín og elsti sonur þinn Kristján.

Hvíl í friði elsku Már minn og kærar kveðjur inn í sumarlandið.

Þín systurdóttir,

Herdís Rós.