Guðjón Jensson
Á undanförnum vikum hafa spunnist töluverðar umræður um þau áform ríkisstjórnarinnar að krefjast hærra afgjalds fyrir veiðiheimildir úr hendi útgerðarinnar. Fyrir 40 árum var núverandi kvótakerfi innleitt og má færa rök fyrir því að sú ákvörðun hafi verið rétt. Hins vegar er umdeildara hvort rétt hafi verið að leyfa veðsetningar og enn síðar framsal og sölu á veiðiheimildum. En eitt er víst að kvótakerfið hefur skilað góðum árangri hvernig sem litið er á það.
Útgerðin hefur bókstaflega blómstrað en var oft áður eins og hvert annað olnbogabarn í íslensku efnahagslífi. Þegar á móti blés í rekstri, einkum togara, var oft gripið til stórfelldra gengisfellinga sem urðu launþegum mikið áfall og tilefni langvinnrar launabaráttu sem oft enduðu með verkföllum. Þá töpuðu allir í samfélaginu.
Undanfarna áratugi hefur útgerðinni vegnað mjög vel. Rekstur hefur verið bættur verulega og árangurinn verður að teljast ótrúlegur. Undanfarin ár hafa útgerðarfyrirtæki fært út fyrra athafnasvið sitt, haslað sér völl og eru nú víða virkari en einungis útgerð. Launakjör eru mjög góð enda velgengnin yfirleitt mikil.
Það hafa verið uppi raddir að treysta betur opinberan rekstur. Víða eru verkefnin mun kostnaðarmeiri en tekjunum nemur enda samfélagið að verða umsvifameira og víða liggur okkur verulegur vandi á höndum. Rekstur skóla og heilbrigðisstofnana og vegagerð eru dæmi um þetta þar sem víða bíða verkefni til að laga og bæta. Hvarvetna þarf að lagfæra byggingar og byggja nýjar. Vegakerfið okkar er víða í mjög slæmu ástandi og þar þarf að bæta úr og leggja nýja vegi. Og svo eru hugumstórir menn sem vilja stofna her á Íslandi. En það kostar sitt og ekki ljóst hvernig eigi að fjármagna það ævintýri sem engum gagnast nema helst hergagnaframleiðendum.
Í fjárlögum fyrir 2025 er gert ráð fyrir útgjöldum ríkissjóðs fyrir um 1.420 milljarða. Það þýðir að hvern dag sem líður kostar rekstur þjóðarbúsins okkur tæpa fjóra milljarða á degi hverjum (4x365=1.460 milljarðar). Nú hefur verið talað um að hækka afgjald útgerðarinnar um 10 milljarða, sem þýðir að þessir fjármunir duga rétt fyrir um 2,5-3 dögum af rekstri ríkissjóðs. Það dugar ekki einu sinni í hálfa viku.
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við völd og stýrði fjármálaráðuneytinu, og þar með skattamálum þjóðarinnar, var þess vandlega gætt að láta skattleysismörkin ekki fylgja neinum vísitölum. Það varð til þess að skattbyrðin færðist meira yfir á láglaunafólk en varð til þess að opna möguleika á að hygla sínum kjósendum með því að lækka hátekjufólkið og íhaldsmenn í sköttunum. Er þetta það sem við viljum? Nú er komin ríkisstjórn sem vill snúa þessu við og koma skattbyrðinni yfir á þá tekjuhærri.
Ég styð þessa ríkisstjórn með heilum hug og vænti þess að sem flestir átti sig á þessum einföldu staðreyndum.
Höfundur er rithöfundur, leiðsögumaður, tómstundablaðamaður og eldri borgari í Mosfellsbæ.