Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Það eina sem ég get staðfest er að það hafa mál frá félagsfólki sem starfar hjá Faxaflóahöfnum komið hingað inn og eru á borðinu í kjaradeildinni hjá Sameyki, en ég get ekki tjáð mig efnislega um málin eða efni þeirra,“ segir Kári Sigurðsson, formaður Sameykis, stéttarfélags í almannaþjónustu, í samtali við Morgunblaðið.
Hann var spurður hvort borið hefði á því að starfsmannamál vegna erfiðra samskipta á vinnustaðnum hefðu ratað inn á borð stéttarfélagsins, en fjölmargir starfsmenn Faxaflóahafna eru félagar í Sameyki.
Málin ekki mörg
Um hvort mörg slík mál væru til vinnslu hjá stéttarfélaginu sagði Kári þau ekki mörg samkvæmt sinni bestu vitund en ekki væri óeðlilegt að starfsmannamál Faxaflóahafna eins og annarra stofnana rötuðu til félagsins, enda stéttarfélagið stórt.
Hann sagði ekki hægt að ræða persónuleg mál fólks í félaginu opinberlega, þau væru í vinnslu og bundin trúnaði.
„Mál sem koma til kjaradeildarinnar eru ýmiss konar og varða oft einhver samskipti á milli starfsfólks, eða óánægju þess með réttindi og kjör,“ sagði hann og nefndi einnig að ekki væri um mörg sams konar mál að ræða sem til vinnslu væru og Faxaflóahafnir kæmu við sögu.
„Það eru ekki margir sem hafa komið, en það hefur komið til okkar starfsfólk Faxaflóahafna til að leita sér aðstoðar,“ segir Kári Sigurðsson.