Sjónarhorn
Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is
Manni getur þótt vænt um ansi margt í þessu lífi: manneskjur, dýr, myndlist, tónlist og bækur, góðan mat, haf, regnboga og haustregn svo pistlahöfundur nefni einungis fátt af því sem auðgar líf hennar. Svo er annað sem skiptir mann litlu máli og maður verður nokkuð undrandi þegar maður kemst að því hvað það skiptir aðra gríðarlega miklu máli.
Það er víst hægt að elska stjórnmálaflokk yfirmáta og ofurheitt. Slík ást birtist í ótal myndum. Flokkurinn verður mælikvarði allra hluta enda er hann nánst óskeikull eins og sértrúarsöfnuðir eru víst líka. Flokkurinn gefur línuna og henni er fylgt samviskusamlega. Að vísu má stundum efast um flokkinn en bara hæfilega. Til verða flokkshestar sem virka iðulega eins og þeir séu hannaðir eftir pólitískri forskrift. Þeir tala yfirleitt um flokkinn sinn eins og sé hann áttaviti sem vísi þeim rétta leið. Einstaka sinnum er eins og áttavitinn hafi brugðist og þá verða flokkshestarnir sárir og svekktir. Þá er mikið talað um að flokkurinn þurfi að leita aftur í ræturnar, hvað svo sem það þýðir. Flokkurinn dalar gríðarlega í skoðanakönnunum vegna þess að flokkshestarnir sýna mótþróaröskun en flestir þeirra skila sér samt á kjörstað á kjördegi og kjósa flokkinn þótt fýlan leki af þeim meðan þeir setja x á eina rétta staðinn. Þegar til kemur geta þeir ekki hugsað sér að svíkja flokkinn sem þeir trúa svo heitt á.
Engin pólitísk stefna er það góð að ástæða sé til að fylgja henni í blindni. Ætíð þarf að vera rými fyrir efa. Það er ekki eðlilegt að stjórnmálaflokkur fylli líf flokksmanna svo djúpum tilgangi þeir fagni því ógurlega að fá að tilheyra honum og kasti sér eins og hrægammar yfir þá sem leyfa sér að gagnrýna flokkinn harðlega og jafnvel gera grín að honum. Pistlahöfundur þekkir ansi mörg dæmi um þetta viðhorf þar sem allt er gert til að vernda flokkinn fyrir gagnrýni. Í hennar huga er þetta birtingarmynd ofstækisfullrar pólitískrar ástar. Hún hefur ekki hugmynd um pólitískar skoðanir flestra vina sinna og stendur nákvæmlega á sama um hvaða flokk þeir kjósa. Sjálf hefur hún nefnilega kosið alls kyns flokka í gegnum árin, stundum í tómri tilraunamennsku. Þá hugsar hún með sér í kjörklefanum: Ég er svo mikill jafnaðarmaður að ég vil gefa öllum tækifæri. Henni finnst það verulega fallegt af sér.
Hið pólitíska litróf þarf að vera fjölbreytt svo allar raddir fái að heyrast. Sú sem þetta skrifar er engin sérstakur aðdáandi Vinstri grænna (þótt hún hafi ætíð metið Katrínu Jakobsdóttur mikils) og því síður dáist hún að Sósíalistaflokknum eða Pírötum. Henni finnst hins vegar slæmt fyrir lýðræðið að enginn alvöru vinstri flokkur sé á þingi. Þar geta vinstri menn sjálfum sér um kennt, þeir eru of gefnir fyrir að vega hver annan þegar þeir ættu að lifa í bróðerni.
Nú er enginn lengur á þingi til að hrópa: „Spilling“! eins og Píratar gerðu nánast sjálfkrafa. Vissulega voru þau óp ansi þreytandi á köflum en stundum var þó innistæða fyrir þeim – og það skiptir máli. Enginn er til að ræða um náttúruvernd, eins og Vinstri grænir voru líklegir til að gera, allavega í stjórnarandstöðu. Nú er eins og hin yndislega náttúra landsins eigi enga sérstaka talsmenn á þingi. Ákveðin málefni komast ekki á dagskrá vegna þess að vinstri flokkar eru svo að segja dauðir. Það eina sem getur bjargað þeim er sjálfsbjargarviðleitni.
Í nokkurn tíma hefur það verið svo að flokkar geta ekki lengur gengið að kjósendum vísum í sama mæli og áður. Kjósendur eru tortryggnir og hafa sannarlega ástæðu til. Það er alltaf þreytandi þegar manni er lofað einhverju og síðan gerist nákvæmlega ekki neitt. Gamlir og grónir flokkar bregðast og þá leita kjósendur á önnur mið. Þeim finnst sjálfsagt að gefa nýjum flokkum tækifæri í von um að þeir standi sig aðeins betur en flokkurinn sem það hafði slysast til að kjósa og sveik flest loforð. Það eru verulega góð meðmæli með kjósendum að blind pólitísk ást fylgir þeim ekki lengur á kjörstað.