Skák
Helgi Ólafsson
helol@simnet.is
Í ársbyrjun 1956 varð Boris Spasskí, þá nýorðinn 19 ára, efstur á sovéska meistaramótinu í fyrsta sinn en jafnir honum að vinningum urðu Mark Taimanov og Júrí Averbakh. Í aukakeppni um titilinn sem Taimanov vann kom þessi staða upp:
Sovéska meistaramótið 1956:
Averbakh – Spasskí
Spasskí lék 16. … Rc6. Slíkir leikir hljóta að teljast athyglisverðir, „…á ýmsan veg fyrir mína stétt…“ svo vitnað sé í ljóð eftir Tómas Guðmundsson. Alveg upp úr þurru er manni leikið beint í dauðann. Averbakh hirti auðvitað riddarann og var með unna stöðu lengst af þó að Spasskí hafi um síðir náð að snúa taflinu við en jafntefli varð niðurstaðan.
Það eru margir leyniþræðir í skákum Boris Spasskís, sem lést á dögunum 88 ára að aldri, og þeir bera oft vott um magnað sálfræðilegt innsæi og næman skilning á persónuleika andstæðingsins. Þetta kom oft fram í þeim einvígjunum sem hann háði á sjöunda áratug síðustu aldar. Það var ekki alltaf ljóst hvað vakti fyrir honum er hann fórnaði liði en hann hélt áfram alveg pollrólegur að því er virtist. Frægasta skák sem hann tefldi á ferlinum var sviðsett í upphafsatriði James Bond-myndarinnar From Russia with Love:
Sovéska meistaramótið 1960:
Boris Spasskí – David Bronstein
Kóngsbragð
1. e4 e5 2. f4 exf4 3. Rf3 d5 4. exd5 Bd6 5. Rc3 Re7 6. d4 O-O 7. Bd3 Rd7 8. 0-0 h6?
Upphafið að óförum Bronsteins. Hann gat leikið 8. … Rf6 og staðan er jöfn.
9. Re4 Rxd5 10. c4 Re3 11. Bxe3 fxe3 12. c5 Be7 13. Bc2 He8?
Önnur ónákvæmni. Enn var betra að leika riddaranum til f6.
14. Dd3 e2
Reynir að hægja á sókn hvíts.
15. Rd6! Rf8 16. Rxf7! exf1=D+ 17. Hxf1
17. … Bf5
Bronstein sá fram á að eftir 17. … Kxf7 kemur 18. Re5+ Kg8 19. Dh7+! Rxh7 21. Bb3+ og mátar, t.d. 21. .. Kh8 22. Rg6 mát.
18. Dxf5 Dd7 19. Df4 Bf6 20. R3e5 De7 21. Bb3 Bxe5 22. Rxe5 Kh7 23. De4+
- og svartur gafst upp. 23. … g6 eða 23. … Kh8 er svarað með 24. Hxf8!
Spasskí tefldi sjö kappskákir við Garrí Kasparov. Þeir skildu jafnir en Spasskí vann tvisvar með svörtu. Í Niksic í Júgóslavíu haustið 1983 var hlutskipti keppinauta Kasparovs líkt við sjúkrahúsvist, en hann hlaut þar 11 vinninga af 14, langefstur. En hann tapaði fyrir Spasskí, sem lék allvafasömum leik snemma tafls:
Niksic 1983:
Garrí Kasparov – Boris Spasskí
Kóngsindversk vörn
1. d4 Rf6 2. c4 g6 3. Rc3 Bg7 4. e4 d6 5. f3 Rc6 6. Be3 a6 7. Rge2 Hb8 8. Dd2 0-0 9. h4 b5 10. h5 bxc4 11. g4
11. … Bxg4!?
Sennilega „óþarfi“ því að svartur átti 11. … Rb4 ásamt c7-c5.
12. fxg4 Rxg4 13. 0-0-0 Rxe3 14. Dxe3 e6 15. hxg6 hxg6 16. Hd2 He8 17. Rg1 d5 18. Rf3 a5 19. e5 Re7 20. Bh3
Hvíta staðan er áfram vænleg til sigurs en 20. Hdh2 var sennilega betra.
20. … c5 21. dxc5 Dc7 22. Df4 Rc6!
Svartur er kominn með mótspil.
23. He1 d4! 24. Hxd4 Rxd4 25. Rxd4 Dxc5 26. Rf3 Hed8 27. Rg5 De7 28. Dh4 Hd3 29. Dh7 Kf8 30. Rxe6 fxe6 31. Hf1 Ke8 32. Dg8 Bf8 33. Dxg6+?
Kasparov var í bullandi tímahraki og lagði ekki í 33. Rd5 með hugmyndinni 33. … Hxd5 34. Hxf8+ Dxf6 35. Dxe6+ ásamt 36. Dxd5 og staðan er jöfn. Kannski sá hann ekki fram úr flækjunum eftir 33. … Kd7! með hugmyndinni 34. Rxe7 Bh6+! og drottningin fellur.
33. … Kd8
- og Kasparov féll á tíma en staða hans er töpuð, t.d. 34. Bxe6 Db4! o.s.frv.