Tinna Hrund Birgisdóttir fæddist 5. desember 1982. Hún lést 20. mars 2025.

Útförin fór fram 3. apríl 2025.

Við Tinna kynntumst í Frakklandi, bjuggum hvor í sínum smábænum í Charente-héraði. Foreldrar okkar unnu á sama stað og við töluðum oft um að vináttan hefði bjargað lífi okkar á þessum mótunarárum enda urðum við strax bestu vinkonur og öryggisnet hvor fyrir aðra, ellefu og tólf ára gamlar. Hverja helgi var suðað í foreldrum okkar um að fá að gista því annars var helgin ónýt. Ég held að þau hafi sýnt þessu ágætan skilning þar sem ég var tíður gestur á heimili Tinnu og hún á mínu.

Síðan höfum við oft minnst þessa tíma með þakklæti fyrir að hafa fundið hvor aðra. Þarna upplifðum við unglingsárin saman, þeystumst um sveitirnar á litlu skellinöðrunni minni og mynduðum djúpa vináttu. Sumarið 1998, við þá á sextánda og sautjánda aldursári, fengum við vinnu í fiskvinnslufyrirtækinu Delpierre í Jonzac. Við leigðum saman íbúð í miðbænum enda orðnar fullorðnar manneskjur að eigin mati. Frakkar urðu heimsmeistarar í fótbolta þetta sumar og partíin á Rue du Four samkvæmt því. Okkur nægði lítil íbúð með hjónarúmi enda hreinasta firra að deila ekki rúmi eins og við vorum vanar.

Seinna fluttist vinnustaður foreldra okkar til Boulogne sur Mer í Norður-Frakklandi. Fjölskylduhús Tinnu var mér alltaf opið og þar var mér tekið eins og aukadóttur hjá foreldrum hennar og bræðrum. Það var mikill söknuður þegar Tinna ákvað að fara sem skiptinemi til Argentínu en í þá daga var biðin eftir bréfunum löng. Ég gleymi því aldrei þegar hún kom til baka skælbrosandi og altalandi á spænsku. Tinna var alltaf brosandi og smitaði frá sér jákvæðni og gleði hvert sem hún fór. Þegar ég fór í háskólanám til Bordeaux ákvað Tinna að flytja þangað og ljúka við menntaskólann þar. Við vorum einfaldlega óaðskiljanlegar allt frá fyrstu kynnum. Svo tók við tími hjá mér í París og Tinnu á Íslandi. Þá kynntist Tinna strák sem hún var óvenjulega spennt fyrir. Þessi strákur reyndist vera besti fengur og þegar þau heimsóttu mig í París fengu þau pláss á sófanum í pínulitlu íbúðinni minni.

Þrátt fyrir þessi umskipti var plássi mínu í hjarta Tinnu á engan hátt ógnað. Þegar ég kynntist Inga Birni gat ég séð að hér hefði Tinna hitt sálufélaga sinn. Ingi Björn var þó ekki maður einsamall því honum fylgdi Maríanna, sem Tinna gekk í móðurstað. Seinna komu svo Elías, Birgir og loks Kolbrún Linda. Ég fylgdist með Tinnu í móðurhlutverkinu með aðdáun enda dýpkaði vinátta okkar enn frekar þegar ég sjálf eignaðist dætur mínar.

Á síðustu misserum, eftir að Tinna veiktist, sá ég enn betur úr hverju sterka, bjarta vinkona mín var gerð. Hún var með eigin orkugjafa sem var óendanlegur og kærleiksríkur. Ég er full þakklætis yfir því að við vissum báðar hversu mikilvægar við vorum hvor fyrir aðra. Tinna kenndi mér svo margt og var minn traustasti stuðningsaðili bæði í gleði og sorg. Ég ætla að varðveita viskuna hennar, bjartsýnina, kærleikann og fallega brosið í hjartanu mínu. Með þakklæti fyrir vináttuna, traustið, ævintýrin, hlýjuna og gleðina sem munu fylgja mér ævilangt, ma meilleure copine du monde.

Vera Wonder Sölvadóttir.

Elsku hjartans Tinna okkar.

Mér kemur í hug ljúf minning frá því ég passaði þig við Njálsgötu og við fórum saman niður að Tjörn að gefa öndunum. Síðan fylgdist ég með þér vaxa og dafna, mennta þig, kynnast þínum frábæra Inga Birni og byggja upp ykkar fallegu fjölskyldu. Aftur vorum við komin að Tjörninni síðasta sumar, en þá til að hvetja þig þar sem þú hljópst í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir Ljósið. Þú geislaðir af gleði, faðmaðir okkur og varst sannarlega ljósið okkar.

Það er margt sem fer gegnum hugann þegar við kveðjum þig eftir þína aðdáunarverðu og hetjulegu baráttu gegn þeim illvíga sjúkdómi sem tók þig alltof fljótt frá okkur. Frá fyrsta degi sýndir þú ótrúlega staðfestu. Þú varst staðráðin í að gera allt sem í þínu valdi stóð til að sigra og aldrei leyfa veikindunum að skilgreina þig. Þú leyfðir gleðinni og jákvæðninni að skína og þannig munum við ávallt minnast þín.

Við eigum ótal skemmtilegar minningar saman með fjölskyldum okkar. Þú vildir alltaf taka þátt, njóta lífsins, kalla fjölskylduna saman og fagna öllum tilefnum. Þú hafðir einstakt lag á að gera allt eftir þínu höfði og leggja alúð í hvert smáatriði. Ég gleymi því aldrei þegar þú hringdir í mig til að spyrja hvort það væri í lagi að þið mynduð gifta ykkur á afmælisdaginn minn sem auðvitað var mér mikill heiður.

Eftir sitjum við með dýrmætar minningar um hugrakka og skemmtilega Tinnu okkar. Við erum óendanlega þakklát fyrir að hafa átt þig að og fyrir allar stundirnar sem þú fylltir af litum og lífi. Minning þín lifir áfram í hjörtum okkar og þeim fjársjóði sem þú skilur eftir í þínum fjórum yndislegu börnum.

Guðmundur (Mundi) og Guðrún.

Við Tinna kynntumst í gegnum frumkvöðlastarfið og fljótt skapaðist vinskapur. Við unnum að tveimur frumkvöðlaverkefnum og áttum saman stóra drauma. Ég fann það fljótt að það var einstaklega gott að vinna með Tinnu því hún var með eindæmum jákvæð og drífandi. Sérstaklega var gaman að fara með henni til Frakklands og heyra hana selja hugmyndir okkar á frönsku.

Tinna var mikil fjölskyldukona, hamingjusöm eiginkona, yndisleg móðir og sannur vinur vina sinna. Ef hún sagðist ætla að bjóða í mat þá bauð hún í mat. Hún var einstaklega hjálpfús. Síðustu mánuði og vikur byrjaði hún iðulega á að spyrja hvernig ég hefði það og hvernig verkefni mín gengju. Mér fannst að umræðuefnið ætti frekar að snúast um hana og hvernig hún hefði það. Iðulega fékk ég skeyti frá henni þar sem hún var með hugmynd um framgang verkefna minna, „ég vaknaði í nótt og þá datt mér þetta í hug“ fékk ég reglulega frá henni.

Tinna hafði mikil áhrif á mig og fólkið í kringum sig í veikindum sínum. Þvílíkt æðruleysi, jákvæðni og von í gegnum þetta verkefni var einstakt. Tinna gerði allt sem hægt var til að auka líkur á bata. Það er súrsætt að vita að elsku Tinna okkar reyndi allt. Viðhorf Tinnu til veikindanna er einstök fyrirmynd okkar sem fengum að fylgjast með, von sem hefði getað flutt fjöll.

Innilegt samúðarfaðmlag til Inga Björns, Maríönnu, Elíasar, Birgis og Kolbrúnar Lindu. Hugur minn er hjá ykkur, elsku vinir. Einnig var ég svo heppin að fá að kynnast Lindu og Birgi og bræðrum Tinnu og hugur minn er líka hjá ykkur. Hlýjar kveðjur til ykkar allra frá Hlyni og krökkunum.

Það voru sannarlega forréttindi að eiga Tinnu að, takk elsku litríka vinkona,

þín

Þórdís Wathne.

Hún var einstök perla.

Afar fágæt perla,

skreytt fegurstu gimsteinum

sem glitraði á

og gerðu líf samferðamanna hennar

innihaldsríkara og fegurra.

Fáar perlur eru svo ríkulega búnar,

gæddar svo mörgum af dýrmætustu

gjöfum Guðs.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Þetta ljóð finnst mér lýsa elsku Tinnu svo vel því hún var alveg einstök. Tinna var svo yndislega hlý og var alveg með það á hreinu að lífið væri til þess að njóta og gleðjast yfir. Þetta ættum við öll að taka okkur til fyrirmyndar. Það var svo fallegt að sjá ástina, gleðina og virðinguna í sambandinu hjá Tinnu og Inga Birni og hversu samheldin öll fjölskyldan var. Mikið er ég þakklát bróður mínum að koma með Tinnu inn í fjölskylduna okkar og þakka fyrir allar samverustundirnar. Minningin um hjartahlýja og góða konu lifir í hjörtum okkar.

Elsku Ingi Björn, Maríanna Mist, Elías Óli, Birgir Már, Kolbrún Linda, foreldrar Tinnu og bræður, ég sendi ykkur mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Sandra Rut.

Elsku Tinna Hrund, að kveðja þig núna í blóma lífsins er svo mikill harmur fyrir alla sem elskuðu þig. Þú varst sannur gleðigjafi og dásemd og elskaðir lífið svo mikið.

Frá því að þú varst lítill ungi á Njálsgötunni var fallega brosið þitt sem bræddi alla þér lýsandi best og hvað þú varst nú fljótt skemmtilega stjórnsöm að ekki var annað hægt en að leyfa þér að ráða ferðinni, svona öðru hvoru. Það er búið að vera svo gefandi og gaman að fylgjast með þér þroskast úr skoppandi stelpuskottinu í flottu frábæru konuna sem þú varst orðin, einlægni þín og örlæti á hlýju þína og smitandi lífsgleði gat ekki annað en laðað fram það besta í manni sjálfum. Þú hafðir alla þá kosti sem hægt var að óska sér, falleg að innan sem utan, víðsýn og fordómalaus og einstaklega kærleiksrík.

Barátta þín við óværuna átti svo sannarlega að vinnast, það var ekki til umræðu að láta þetta taka þig frá fólkinu þínu, sem þú elskaðir svo mikið, enda gerðir þú allt sem hugsast gat til þess að hafa betur, en því miður fór ekki svo og þú varst tekin frá okkur.

Nú verðum við að trúa því og treysta að við hittumst hinum megin og fáum að heyra aftur smitandi hláturinn þinn og sjá geislandi brosið.

Megi góður Guð gefa þínum yndislega Inga Birni og fallegu börnunum þínum, Maríönnu Mist, Elíasi Óla, Birgi Má og Kolbrúnu Lindu, styrk í þessari miklu sorg, einnig elsku vinum mínum Lindu og Birgi og bræðrum þínum, Jóhanni Leó og Nikulási Búa, sem voru þér öll svo náin. Öllu tengdafólkinu þínu, öllum frænkum og frændum og vinkonum sendi ég líka mínar dýpstu samúðarkveðjur, nú þarf hver að finna sína leið til að halda áfram án þín, það mun taka á, en að hugsa um þig gefur alltaf hlýju í hjartað og góðar minningar um einstakt eintak af dásamlegri konu.

Með ástarþökk ertu kvödd í hinsta sinni hér

og hlýhug allra vannstu er fengu að kynnast þér.

Þín blessuð minning vakir og býr í vinahjörtum

á brautir okkar stráðir þú, yl og geislum björtum.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Anna H.

Í dag kveðjum við vinkonu okkar, Tinnu Hrund. Við kynntumst í frönskunni við HÍ, áttum sameiginlega ást á Frakklandi og öllu sem því fylgdi og í náminu ferðuðumst við saman, til Parísar og Túnis. Tinna var sameiningarafl. Glaðvær tók hún á móti okkur í pínulítilli íbúð, fyrst í partíum þar sem hver einasti fermetri var fullnýttur og svo seinna í barnavagnakaffihittinga enda bjuggu þau þarna fyrst eftir að Elías Óli fæddist, barnavagninn stóð inni í litla eldhúsrýminu og saman sátum við yfir ostum, nýbökuðu brauði með ólífum og alls konar gúmmelaði því Tinna var alltaf með veislu sama hvað. Svo fluttu þau úr miðbænum í Vesturbæinn og svo loks í Hafnarfjörðinn. Okkar kona var ekki alveg viss um þá tilfærslu svona fyrst um sinn – en svo ákvað hún að þetta yrði það allra besta, byggði sér og sínum stóran hóp af dýrmætum vinum og gerðist Hafnfirðingur af lífi og sál.

Tinna kunni þá kúnst sem dýrmætt er að eiga: Að gleðjast yfir því sem hún átti en velta lítið fyrir sér hvað hana vanhagaði um. „Stelpur, ég er svo glöð …“ voru einkunnarorð hennar. Með Inga Birni sínum var hún alltaf alsæl, hún elskaði allt sem hversdagurinn færði þeim og börnin þeirra öll svo undurheitt.

Þegar Kolbrún fæddist var Tinna hætt komin og þegar við hittum hana í fyrsta sinn eftir fæðingu og fengum að sjá nýja gullmolann sagði Tinna okkur frá því sem hent hafði eftir fæðingu og sagði svo: „Stelpur, ég er bara svo þakklát fyrir að vera hérna, lífið er óútreiknanlegt og við eigum aldrei að ganga að því vísu heldur njóta hverrar stundar.“

Þegar Tinna greindist með krabbamein nálgaðist hún veikindin með sama hætti. Lífið er óútreiknanlegt og mikilvægast af öllu að fá að halda í vonina. Hún hélt áfram að vera ljósberi lífsins fyrir allt sitt fólk. Gerði allt sem í hennar valdi stóð til að njóta dýrmætra stunda, skapa minningar með fólkinu sínu. Finna tilefni til að gleðjast. Gefast ekki upp. Lifa í von og ljósi frekar en að láta óvissuna gleypa sig.

Þótt Tinna hafi yfirgefið jarðneskt líf þá lifir hún með okkur öllum.

Lífsins dýrmætu lexíur sem hún kenndi okkur, vera þakklát fyrir það sem við eigum og umfram allt að vera þakklát fyrir fólkið okkar. Ljósið sem lifir áfram í fólkinu hennar. Vonin. Hún býr áfram innra með okkur og við munum reyna okkar besta að halda kyndlinum á lofti.

„À bientôt chère amie!“

Frönskurnar,

Jónína, Jóna Sólveig, Snjólaug og Sif.

Það eru tæp tuttugu ár síðan ég kynntist Tinnu. Sumarið 2005 fékk ég vinnu í Rammagerðinni við Tryggvagötu. Það var venja að para saman starfsfólk og ég var svo heppin að vera sett á sama vaktaplan og Tinna, sem þýddi að við umgengumst nánast daglega allt sumarið.

Ég man hvað mér fannst hún flott. Full sjálfstrausts, falleg, fyndin og veraldarvön. Hún var altalandi bæði á frönsku og spænsku, bjó ein í íbúð í miðbænum og lét engan slá sig út af laginu. Mig langaði svo að vera vinkona hennar og mín gæfa var að við urðum vinkonur þetta sumar.

Tinna kunni að njóta lífsins. Hún hafði gott vit á góðum mat og drykk og það var unun þegar hún eldaði fyrir mann, hvort sem það var flókinn fiskréttur eða grillað brauð eftir djammið. Hún kunni líka sannarlega að nýta sér það sem borgin hafði upp á að bjóða og við fórum saman á ótal tónleika, veitinga- og skemmtistaði og kaffihús á þessum tíma.

Eftir sumarið héldum við áfram að hittast reglulega þar sem við vorum báðar í Háskóla Íslands og ákváðum að byrja í háskólaræktinni. Við vorum mjög duglegar að hvetja hvor aðra áfram að mæta og ég segi allavega fyrir mitt leyti (en mætti segja mér að það hafi átt við okkur báðar) að ég hafi hvorki fyrr né síðar verið jafn dugleg að hreyfa mig.

Tinna kynntist ástinni í lífi sínu, Inga Birni, um þetta leyti og dóttur hans Maríönnu Mist og það var fallegt að fá að fylgjast með þeirra sambandi þróast og yndislegt að vita að ættleiðingin sem Tinna þráði svo heitt hafi loksins gengið í gegn nýlega.

Ingi Björn og Tinna giftust í undurfallegri athöfn í Skálholti sumarið 2008 og útgöngumarsinn var „All You Need Is Love“ með Bítlunum, sem var mjög í anda Tinnu. Þau eignuðust svo tvo yndislega stráka á næstu árum, Elías Óla og Birgi Má, og fluttu úr miðbænum í vesturbæinn. Síðan fluttu þau í Hafnarfjörðinn og þar bættist Kolbrún Linda í þennan fallega hóp.

Tinna var mikil fjölskyldukona og naut þess að eyða gæðatíma með sínum nánustu. Ég man að hún lýsti einhvern tímann ferðalagi innanlands á þann hátt að það hefði verið eins og lagið hans Mugison, „Stingum af“ og síðan þá hef ég alltaf séð fyrir mér Tinnu, Inga Björn og börnin úti í íslenskri náttúru á björtu sumarkvöldi þegar ég heyri það lag.

Tinna var lífsglaðasta manneskja sem ég hef á ævinni kynnst. Hún elskaði að skemmta sér í góðra vina hópi og trúði því að maður ætti að halda upp á áfanga í lífinu. Hún var líka rosalega hvetjandi varðandi skemmtilegar ákvarðanir eins og til dæmis ferðalög og þvílíkt og hafði þá möntru að „ef þú vilt gera eitthvað þá bara gerirðu það“ (en auðvitað innan ákveðinna skynsemismarka). Hún var til dæmis sú sem hvatti mig til að halda brúðkaupsveislu og fyrir það verð ég henni eilíflega þakklát.

Þessi einstaka lífsgleði kom líka bersýnilega í ljós í veikindum hennar þar sem hún hélt alltaf í vonina um að vinna bug á meini sínu og gerði það með sinni einstæðu bjartsýni, fegurð og gæsku.

Elsku Ingi Björn, Maríanna Mist, Elías Óli, Birgir Már og Kolbrún Linda, mínar dýpstu og innilegustu samúðarkveðjur til ykkar.

Álfdís Þorleifsdóttir.

Elsku Tinna vinkona okkar er fallin frá. Gullkonan okkar sem átti svör við öllu, fékk skemmtilegustu hugmyndirnar og spilaði svo mikilvægt hlutverk í vinahópnum.

Við erum mörg sem syrgjum að fá ekki lengri tíma með Tinnu. Því miður var hann naumur og við munum líklega aldrei skilja af hverju.

Tinna smitaði út frá sér gleði, jákvæðni og húmor hvar sem hún kom. Hún hafði einstakt lag á að velja alltaf réttu orðin sem hver þurfti að heyra á hverjum tíma. Heiðarleikinn skein í gegn og hún kom honum fallega í orð ef við þoldum hann ekki beint í æð. Tinna var lausnamiðuð og úrræðagóð, hún gerði kröfur en þær voru sanngjarnar. Hún var helsti stuðningsmaður okkar allra. Kom okkur í gegnum erfið tímabil á öllum vígstöðvum. Því miður gátum við ekki unnið hennar baráttu.

Vinátta okkar varð til í gegnum börnin okkar, hverfið og FH, svarthvítu hjörtun. Það er ekki sjálfgefið að svona vinskapur myndist og að jafn stór hópur tengist jafn sterkum böndum. Tinna á stóran þátt í því.

Síðasta eina og hálfa árið eftir greiningu nýttum við vel. Tinna fékk hugmyndirnar og við hjálpuðumst að við að koma þeim í framkvæmd. Öllum áföngum skyldi fagnað og allir draumar rætast. Fyrir framtakssemina og hugmyndirnar erum við þakklát í dag. Minningarnar létta sorgina sem nístir.

Tinna var fyrirmyndin okkar að svo mörgu leyti. Í baráttuandanum og voninni sem hún bjó yfir allt fram á síðasta dag var orka sem hefði verið hægt að virkja en því miður dugði ekki til.

Við munum sakna samtalanna um miðjar nætur, hugmyndanna sem streymdu sem á færibandi væru, kaffibollanna í útilegunum, sælkeramáltíðanna og litagleðinnar sem Tinna færði inn í líf okkar allra. Saman ætlum við að halda minningu Tinnu á lofti, lifa í hennar anda og vera fjölskyldunni hennar fyrirmyndin og stuðningurinn sem hún var okkur.

Elsku Tinna, takk fyrir allt sem þú kenndir okkur og gafst með nærveru þinni. Við elskum þig.

Brotinn hlekkur, keðjan slitin.

Vantar brosið okkar bjarta.

Hetjan okkar, fyrirmynd allra.

Við kveðjum þig, fallega hjarta.

Í hjörtum okkar munt þú alltaf vera.

Minning þín svo falleg og hlý.

Taktu frá sæti, við skálum síðar

þegar við hittumst á ný.

Fjölskyldu Tinnu sendum við innilegustu samúðarkveðjur.

Aðalheiður, Anna Lísa, Arnheiður, Berglind,
Guðný, Gunnella, Íris, Klara, Kristín og
fjölskyldur í Kúrekafélagi Hafnarfjarðar.