Dauðafæri Sveindís Jane Jónsdóttir ein gegn markverði Norðmanna, Cecilie Fiskerstrand, sem bjargaði glæsilega með úthlaupi.
Dauðafæri Sveindís Jane Jónsdóttir ein gegn markverði Norðmanna, Cecilie Fiskerstrand, sem bjargaði glæsilega með úthlaupi. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekkert mark var skorað í viðureign Íslands og Noregs í A-deild Þjóðadeildar kvenna í fótbolta á Þróttarvellinum í gær og íslenska liðið er því með tvö stig eftir þrjá leiki af sex í riðlinum. Þetta er annað markalausa jafntefli Íslands í þremur…

Í Laugardal

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Ekkert mark var skorað í viðureign Íslands og Noregs í A-deild Þjóðadeildar kvenna í fótbolta á Þróttarvellinum í gær og íslenska liðið er því með tvö stig eftir þrjá leiki af sex í riðlinum.

Þetta er annað markalausa jafntefli Íslands í þremur leikjum í keppninni en leikurinn var samt nokkuð opinn og líflegur og bæði lið fengu færi til að gera út um hann.

Noregur fékk tvö góð færi í fyrri hálfleik, bæði eftir mistök hjá íslenska liðinu. Frida Maanum skaut í stöng eftir misheppnað spil út úr vítateignum og Cecilía Rán Rúnarsdóttir varði hörkuskot frá Theu Bjelde eftir að boltinn tapaðist á vondum stað rétt utan vítateigs.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fékk besta færi Íslands í fyrri hálfleik eftir glæsilega sókn á 39. mínútu en hitti boltann illa ein gegn markverðinum.

Ísland fékk tvöfalt færi á 57. mínútu þegar Sveindís Jane Jónsdóttir komst inn fyrir vörnina. Skot hennar var varið og boltinn hrökk á Hlín Eiríksdóttur sem skaut yfir markið.

Á lokakaflanum munaði engu að Ísland tryggði sér sigur þegar Andrea Rán Hauksdóttir skaut í stöng og Karólína í þverslá. Norska liðið ógnaði nokkrum sinnum í seinni hálfleik en fékk engin dauðafæri.

Höf.: Víðir Sigurðsson