Anna Margrét Hólm fæddist í Reykjavík 18. apríl 1955. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 4. apríl 2025.
Foreldrar hennar voru Guðbjartur Hólm Guðbjartsson frá Króki á Kjalarnesi, f. 7. desember 1917, d. 6. nóvember 1989, og Gunnleif Kristín Sveinsdóttir, f. 14. október 1921, d. 27. janúar 1973.
Systkini Önnu Margrétar eru: 1) Hólmfríður Hólm, f. 15. september 1957. Dóttir hennar er Lára Margrét, f. 7. janúar 2001. 2) Guðbjartur Hólm, f. 4. ágúst 1961. Börn hans eru Anna, f. 18. febrúar 1992, og Nicolas, f. 6. desember 1994. 3) Steinunn Hólm, f. 22. ágúst 1964. Synir hennar eru Benedikt Hólm, f. 25. júlí 1993, og Matthías Hólm, f. 3. nóvember 1997.
Systkini Önnu í föðurætt eru: 1) Ágústa Ingibjörg Hólm, f. 10. september 1943, d. 15. maí 2015. Synir hennar eru Benedikt, f. 1974, og Ólafur Haukur, f. 1981. 2) Guðjón Hólm, f. 6. maí 1948, d. 9. júní 2017. Börn Guðjóns eru Hólmar Hólm, f. 20. nóvember 1990, og Ólafía Þyrí Hólm, f. 20. febrúar 1992. 3) Ólafur Hólm, f. 24. desember 1952, d. 15. september 2014. Sonur Ólafs er Guðbjartur Hólm, f. 14. desember 1990.
Eftir gagnfræðaskóla fór Anna í Verslunarskólann en hvarf frá námi 1973 þegar móðir hennar lést til að styðja við fjölskylduna og ung systkini. Ári síðar hóf hún störf á Arnarholti á Kjalarnesi þar sem hún starfaði í nokkur ár. Anna lauk stúdentsprófi frá öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð og fór að því loknu í nám í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Hún útskrifaðist sem félagsráðgjafi 1987. Á sumrin og með námi vann hún í Arnarholti og hjá tollstjóra. Þá vann hún lengi í Útideildinni sem var með starfsemi á vegum Félagsmálastofnunar Reykjavíkur þar sem farið var um götur bæjarins eftir að kvölda tók til að nálgast unglinga í vanda. Frá útskrift úr háskóla vann hún sem félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg þar sem hún sinnti ýmsum verkefnum en síðustu ár starfsævinnar aðallega úthlutun félagslegs húsnæðis. Anna fór á eftirlaun 65 ára gömul.
Anna var næm á tilfinningar og líðan annarra og reyndist systkinum sínum og systkinabörnum alla tíð mikill trúnaðarvinur og hollur ráðgjafi. Anna brann fyrir hagsmunum þeirra sem minna mega sín bæði í störfum sínum og einkalífi. Hún þoldi hvorki óréttlæti né ójöfnuð. Hún var félagslynd og vinmörg. Hún var víðlesin, sanngjörn og óhrædd við að lýsa skoðun sinni á mönnum og málefnum. Hún sinnti systkinabörnum sínum af kappi og ferðaðist víða meðan heilsan leyfði.
Útför Önnu Margrétar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 15. apríl 2025, og hefst klukkan 15.
Elsku systir mín, Anna, er látin eftir skyndileg og alvarleg veikindi.
Margs er að minnast þegar hugurinn leitar til baka. Saman fórum við í fjölmargar utanlandsferðir. Sú eftirminnilegasta var ferðin okkar til Kína þegar ég sótti Láru, dóttur mína. Þar var hún mér ómetanlegur stuðningur. Saman sáum við Láru í fyrsta sinn og hún hlaut sérstakan stað í hjarta Önnu. Anna varð strax ómissandi persóna í lífi Láru. Þær gerðu margt skemmtilegt saman og Lára saknar hennar sárt. Oft þegar ég vann um helgar fór Lára í pössun til Önnu, og þá sagðist hún vera fyrirtaks helgarpabbi. Það var svo sannarlega rétt hjá henni.
Anna naut þess að ferðast. Ég minnist ferða til útlanda, bústaðaferða, bílferða og þess að þvælast um eða hanga saman. Hún ætlaði sér alltaf að verja elliárunum í ferðalög en heilsan kom í veg fyrir það og nú er tíminn floginn frá okkur.
Anna hafði góða nærveru. Hún naut þess að hitta fólk og gera hluti og var mikið á ferðinni þegar dagarnir voru betri. Hún eignaðist ekki börn en þótti mjög vænt um systkinabörn sín, áhugasöm um það sem þau tóku sér fyrir hendur og mjög umhugað um að öllum gengi vel og nýttu hæfileika sína. Systkinabörnunum var hún sem besta amma. Hún vissi nákvæmlega hvað var að gerast í lífi þeirra og hikaði ekki við að lýsa skoðun sinni á því hvað þau ættu helst að gera í mismunandi aðstæðum. Í því efni var hún ráðagóð og útsjónarsöm.
Ég er mjög þakklát fyrir allar þær stundir sem við áttum saman og við munum búa að minningunum um alla framtíð. Anna var dugleg að kalla fjölskylduna saman og fagna tilefnum. Það var ósjaldan sem hún bauð fjölskyldu og vinum í pönnukökur um helgar bara til að hóa hópnum saman. Við systurnar töluðum saman oft á dag og vorum mjög nánar. Það var gott að geta leitað til hennar og fengið ráð þegar maður var efins eða tvístígandi eða erfiðleikar bönkuðu upp á. Hún var rausnarleg og hafði gaman af að gefa og valdi vel þær gjafir sem hún gaf. Hún hugsaði hvað hentaði hverjum og einum og að gjöfin hitti í mark.
Anna átti fallegt heimili þar sem hver hlutur var úthugsaður og allt í röð og reglu. Hún hugaði að heimilinu og vildi að hlutir væru í lagi. Hún var hugmyndarík og leysti vandamálin og var oft lengi að hugsa hvaða lausn væri best. Undir lokin var markmiðið, einn dagur í einu því orkan minnkaði hratt.
Við kveðjum Önnu með söknuði en einnig með þakklæti fyrir allt sem hún gerði fyrir okkur. Eftir sitja dýrmætar minningar sem ylja okkur í sorginni. Takk fyrir allt og góða ferð, kæra systir. Sjáumst seinna.
Hólmfríður (Fríða) systir.
Elskuleg systir mín er látin eftir snörp veikindi. Líf hennar var innihaldsríkt en ekki áfallalaust. Hún var langveik vegna lungna- og hjartasjúkdóms. Það komu tímar þar sem hún var hætt komin en alltaf tókst henni rífa sig upp úr veikindum og slappleika með sjúkraþjálfun og líkamsrækt. Þá tóku við góðir tímar með ferðalögum og samveru með fjölskyldu.Ég á Önnu mikið að þakka. Hún setti hagsmuni mína ávallt framar sínum eigin. Þegar móðir okkar lést hafði faðir okkar í annað sinn misst eiginkonu frá ungum börnum sem reyndist honum óbærilega þungbært. Anna tók þá ákvörðun aðeins 18 ára gömul að hætta í skóla, flytja aftur í sveitina á Kjalarnesi og aðstoða föður okkar við að sjá um mig og Batta eldri bróður minn. Okkur gekk hún í raun í móðurstað þó ung væri að árum. Efnin á æskuheimilinu voru ekki mikil. Hjá okkur Batta var áherslan lögð á metnað, ósérhlífni og að afla sér menntunar sem sem gæfi lykilinn að góðri framtíð. Bæði urðum við langskólagengin, Batti tannlæknir og ég lögmaður. Hún var líka afar stolt af dugnaði barnanna okkar en tvö þeirra hafa lokið doktorsprófi í sínu fagi, tannlækningum og tölvunarfræði, og hin tvö eru arkitekt og lífeindafræðingur. Þegar hún hafði komið fjölskyldunni á beina braut eftir móðurmissinn sneri hún aftur til náms en sleppti þó aldrei hendinni af uppeldi okkar. Þegar við tíndumst til Reykjavíkur eitt af öðru í nám, leigðum við alltaf saman. Þar voru skapaðar margar góðar minningar sem lifa með okkur. Anna var næm á tilfinningar og líðan annarra og reyndist systkinum sínum og systkinabörnum hollur ráðgjafi. Hún átti í nánu og góðu sambandi við Fríðu systur sína. Sjaldan var talað um þær nema í sömu setningunni. Þá var hún afar náin Láru dóttur Fríðu. Hún sjálf sagðist vera helgarpabbinn hennar enda var Lára oftast hjá henni þegar Fríða var á helgarvöktum. Lóa dóttir Gauja bróður átti líka gott og náið samband við Önnu. Þegar Lóa, rétt rúmlega tvítug, hafði misst báða foreldra sína greip Anna hana og reyndi eftir mætti að fylla upp í það tómarúm sem foreldramissirinn var. Hana kallaði Anna alltaf fósturdóttur sína.
Ég sakna góðrar systur sem fór allt of fljótt. Hún var mér ekki aðeins systir heldur líka móðurímynd og vinkona. Saman höfum við ferðast vítt og breitt um heiminn. Á árum áður þegar vinnuferðir hjá mér voru tíðar kom Anna stundum með mér í þær ferðir. Þá fórum við systurnar allar saman í frí með börnunum okkar árlega meðan heilsa hennar leyfði. Hún hefur verið mér stoð og stytta og hjálpað mér að innræta sonum mínum sömu gildi og ég sjálf lærði í uppvextinum.
Ég þakka samfylgd sem aldrei bar skugga á. Vertu sæl systir. Megi síðasta ferðalagið þitt ganga vel. Elska þig og gleymi engu. Við sjáumst síðar.
Steinunn
Mín kæra systir Anna er látin eftir erfið veikindi. Stórt skarð er höggvið í okkar fámennu fjölskyldu. Anna reyndist mér betur en hægt er að lýsa með orðum. Eftir andlát móður okkar tók hún mig og Steinu systur upp á sína arma. Fyrir það verð ég henni ævinlega þakklátur. Þótt ég hafi lengi búið og starfað erlendis hefur þráðurinn milli okkar Önnu aldrei slitnað. Símtölin og heimsóknir í gegn um áratugina óteljandi og umhyggja hennar fyrir velferð minni og fjölskyldu minnar mikil. Ég mun sakna Önnu sárlega en minningin um hana lifir í hjarta mínu um ókomna tíð. Blessuð sé minning minnar ástkæru systur.
Guðbjartur Hólm.
Anna, móðursystir mín, lést þann 4. apríl síðastliðinn. Anna var kraftmikil og þrautseig, en þrátt fyrir löng og erfið veikindi sem takmörkuðu líkamlega getu hennar lét hún það aldrei stoppa sig og hélt ótrauð áfram og fann gleði og grín í lífinu á ótrúlegustu stöðum. Hún var kröfuhörð og vildi einungis það besta fyrir sitt fólk. Þá var hún óhrædd við að tjá skoðanir sínar óspart ef henni fannst við ekki vera að lifa lífinu til fulls. Hún var ákveðin, ráðagóð, með sterka réttlætiskennd, elskaði netverslanir, ferðalög og fjölskylduna. Anna passaði mig oft þegar ég var barn ef mamma var á vöktum yfir helgi. Þá fór hún með mig í óvissuferðir, á kaffihús, horfði með mér á kvikmyndir, eða hvað sem henni datt í hug. Hún kallaði sig lengi vel helgarpabba minn, sem lýsti vel einu af þeim mörgu hlutverkum sem hún lék í lífi mínu og hinna systkinabarna sinna. Hún var okkur frænka, trúnaðarvinur, helgarpabbi, ömmuímynd og leiðarljós. Anna skilur eftir sig mikinn söknuð, góðar minningar, dýrmætar lexíur og þá einstöku og ómetanlegu upplifun að hafa þekkt manneskju sem lifði, elskaði, barðist og vann eins og aðeins hún gat. Takk fyrir allt sem þú kenndir mér, fyrir minningarnar sem ég varðveiti, og fyrir ástina og umhyggjuna. Hvíldu í friði, og góða ferð.
Lára Margrét Hólm Hólmfríðardóttir.