Guðlaug Björnsdóttir (Laula) fæddist á Dalvík 8. febrúar 1939. Hún lést á Dvalarheimilinu Dalbæ, Dalvík, 5. apríl 2025.

Foreldrar hennar voru Björn Z. Gunnlaugsson, f. 13.12. 1915, d. 2.8. 2003, og Ingibjörg Valdemarsdóttir, f. 6.12. 1918, d. 7.5. 1995. Systkini Laulu eru Erla, f. 1940, Ríkharður, f. 1944, og Arna, f. 1957.

Laula giftist Hilmari Daníelssyni, f. 16.9. 1937, d. 21.1. 2016, árið 1959.

Börn þeirra hjóna eru Heiða, f. 1959, Björn Ingi, f. 1962, maki Hlín Helga Guðlaugsdóttir, Daníel Þór, f. 1964, d. 2002, og Hólmfríður, f. 1966.

Barnabörn Laulu og Hilmars eru 11 og barnabarnabörnin 13.

Laula ólst upp á Dalvík. Eftir gagnfræðapróf frá Dalvíkurskóla lá leiðin í Húsmæðraskólann í Reykjavík. Á þeim tíma kynntist hún Hilmari sínum og þau giftu sig árið 1959.

Laula og Hilmar byrjuðu sinn búskap á Húsavík 1959. Þaðan lá leiðin til Akureyrar og loks til Dalvíkur 1961, þar sem þau bjuggu til æviloka. Þar vann Laula m.a. við verslunar- og bankastörf. Árið 1982 var hún ein af fyrstu konum sem voru kosnar í bæjarstjórn á Dalvík og sinnti því þar til 1994.

Laula starfaði að ýmsum félagsmálum, m.a. Leikfélagi Dalvíkur og var formaður þess um tíma. Hún var einn af stofnendum Sinawik-klúbbs Dalvíkur og tók virkan þátt í því starfi þar til klúbburinn var lagður af. Síðustu æviárin var hún íbúi Dvalarheimilisins Dalbæjar á Dalvík.

Útför hennar fer fram frá Dalvíkurkirkju í dag, 15. apríl 2025, klukkan 13.

Ein af annarri birtast

okkar samfylgdarstundir,

hlýjar í huga mér.

(Jakobína Sigurðardóttir)

Látin er á Dalvík okkar kæra vinkona Guðlaug Björnsdóttir (Laula). Þeim hjónum henni og Hilmari Daníelssyni d. 2016 kynntumst við í sameiginlegum félagsskap um 1980. Sá kunningsskapur leiddi af sér einlæga og ómetanlega vináttu okkar fjögurra. Við smullum einhvern veginn svo vel saman, gátum rætt um allt milli himins og jarðar og skemmt okkur konunglega saman.

Við fórum í ótal ævintýraferðir bæði innanlands og utan, allar voru þær ógleymanlegar. Þau voru svo heimsvön, vissu allt og kunnu vel að njóta lífsins. Við dáðumst að þeim.

Laula var greind og skemmtileg, tók mikinn þátt í félagsmálum í sinni heimabyggð og var um tíma í forystu Framsóknar í bæjarstjórninni á Dalvík. Laula var glæsileg kona sem vakti athygli hvar sem hún kom, falleg og vel til höfð. Hún var ákveðin, sterk og traust, en við minnumst hennar líka fyrir hve ljúf og broshýr hún var. Hún var myndarleg húsmóðir, heimilið bæði hlýlegt og glæsilegt, allt var til fyrirmyndar.

Við þessi tímamót er þakklæti okkur fyrst og fremst í huga fyrir að hafa kynnst, notið samvista og vináttu elsku Laulu og Hilmars í áratugi.

Dagarnir líða, fundir fyrnast

og fljótið við bakkana niðar.

Við höfum átt þau sumarkvöld saman,

er sólin gekk aldrei til viðar.

(Davíð Stefánsson)

Við sendum stórfjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Úlfhildur og Hákon.