Unnsteinn Borgar Eggertsson fæddist á Hellissandi 28. október 1951. Hann lést á Gran Canaria 18. febrúar 2025.
Foreldrar hans voru Eggert Benedikt Sigurmundsson skipstjóri, f. 27. janúar 1920, d. 5. mars 2004, og Unnur Benediktsdóttir húsfreyja, f. 24. nóvember 1923, d. 26. apríl 2018.
Bræður hans eru: Benedikt Geir, f. 26. mars 1945, d. 26. mars 1950; Sigurður Kolbeinn, f. 20. febrúar 1949; Benedikt Geir, f. 15. mars 1950, d. 14. des. 2019; Ásgeir, f. 13. júní 1955; Ari Blöndal, f. 17. september 1959.
Börn Unnsteins með fyrri eiginkonu sinni, Steinunni Gísladóttur, f. 28. nóvember 1952, eru: 1) Gísli, f. 20. febrúar 1971. 2) Eggert, f. 17. apríl 1973. 3) Unnur, f. 23. júlí 1979. Börn Unnsteins með seinni eiginkonu sinni, Dagnýju Karlsdóttur, f. 25. febrúar 1962, eru: 4) Edda, f. 12. desember 1983. 5) Ebba, f. 12. desember 1983. 6) Benjamín Jochum, f. 4. desember 1996. 7) Dórothea Sigríður, f. 4. desember 1996. 8) Kristjana Anna, f. 6. nóvember 1998.
Unnsteinn átti 16 barnabörn og eitt barnabarnabarn. Síðustu árin bjó hann með Helmu Roysdóttur, f. 4. febrúar 1954.
Unnsteinn ólst upp á Hellissandi og í Kópavogi. Hann stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands, nám í vélvirkjun hjá Vélsmiðjunni Héðni, lauk sveinsprófi í rafvirkjun 1976, varð rafvirkjameistari 1980, fékk löggildingu til rafvirkjastarfa árið 1986 og lauk prófi sem rekstrarhagfræðingur frá Samvinnuskólanum á Bifröst 1998.
Unnsteinn stundaði ýmis störf til sjávar og sveita á yngri árum og er fram liðu stundir starfaði hann sem rafvirkjameistari, bóndi og trillukarl. Hann var bóndi á Hóli í Bolungarvík, og seinna á Skarðsströnd í Dalasýslu þar sem hann kom jafnframt á fót grásleppuútgerð. Hann stofnaði verktakafyrirtækið Kraftvaka ehf. og var framkvæmdastjóri þess. Síðustu starfsárin vann hann sem rafvirkjameistari í Noregi ásamt því að vera á strandveiðum á Íslandi á sumrin.
Útför Unnsteins fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 15. apríl 2025, klukkan 13.
Hann Unnsteinn bróðir minn fæddist á Bjargi á Hellissandi um haustið 1951. Ég var, þegar þessi atburður átti sér stað, tveggja ára og átta mánaða gamall og þetta er mér enn í fersku minni þó ég hafi ekki verið hærri í loftinu en það að ég náði ekki upp í hurðarhúninn á herberginu þar sem piltur hafði hátt við að komast til manna, öðruvísi en að standa uppi á háum þröskuldi sem þarna var. En þar var ég stoppaður af afa sem sagði að þarna mættum við ekki fara inn, þessi samkoma væri bara fyrir konur. Afi fékk mig því með sér út og tíndum egg hjá hænunum og gáfum beljunni og fórum svo inn aftur og þar er amma hlæjandi og segir, þú ert búinn að eignast einn bróðurinn enn og þarna fékk ég vitið í hausinn, man enda alla atburði upp úr því. En í mars á árinu áður hafði hann Benedikt bróðir okkar fæðst, en einmitt í þeim sama mánuði dó í bílslysi elsti bróðurinn á fimm ára afmælisdeginum sínum. Síðan áttum við eftir að eignast tvo bræður í viðbót. Við bræður ólumst síðan upp á Sandi næstu níu árin þar sem heimurinn milli jökuls og fjöru bauð upp á allt sem þrír frakkir bræður, sem alltaf héldu hópinn, gátu fengið frá náttúrunni. Þarna afrekaði piltur það að falla fram af Brennuhellinum, mikið fall, en heppinn var hann því hann lenti í sandi á milli tveggja stórra steina, þá vorum við Benedikt bróðir minn stoltir að koma með strák lifandi heim. Þaðan lá leiðin í Kópavoginn þar sem unglingsárin liðu hjá og alvara lífsins fór að banka hjá piltum og þeir að dreifast víða um landið.
Unnsteinn lærði rafvirkjun og vann við það stærstan partinn af sinni starfsævi, enda flinkur maður í faginu. En hann fékkst við margt annað til bæði sjós og lands, gerðist bóndi á Hóli í Bolungarvík og þaðan fór hann á Geirmundarstaði á Skarðsströnd þar sem hann bjó í nokkur ár. Kom á fót grásleppuútgerð í Skarðsstöð, nokkuð sem varð til þess að þar er nú hafskipahöfn og enn stunduð útgerð. Hann fór á Bifröst og lærði hagfræði og kom síðan á fót byggingarfyrirtæki sem varð stórt í sniðum, fór úr því til Noregs þar sem hann starfaði í nokkur ár og endaði svo starfsævina á strandveiðum. Allt sem hann tók sér fyrir hendur var vel gert og snyrtilega frá gengið, þar með talið að sjá um matargerð þegar einhverjar samkomur stóðu til.
En hann var athafnasamur á fleiri sviðum, pilturinn, eignaðist þrjár konur og með þeim átta mannvænleg börn og þeirra afkomendur eru nú 17.
Nú er ég einn eftir af þessum þremur bræðrum sem fæðst höfðu á innan við þremur árum og alltaf stóðu saman ævina á enda, ævi sem flogið hefur hratt hjá, en skilur þó eftir sig frábærar minningar um góða bræður sem ég mun sakna og hugsa til allan þann tíma sem ég á eftir í þessari tilveru.
Sigurður Kolbeinn
Eggertsson.