Jón Már Ólason fæddist í Reykjavík 6. október 1948. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 5. apríl 2025.
Foreldrar Jóns Más voru Óli Björgvin Jónsson, f. 1918, d. 2005, og Guðný Guðbergsdóttir, f. 1922, d. 1990. Systkini Jóns Más eru Hólmfríður María, f. 1946, eiginmaður hennar er Guðmundur Hallvarðsson, og Jens Valur, f. 1958, eiginkona hans er Ólöf Hjartardóttir.
Jón Már giftist Björgu Sigurðardóttur 31. desember 1970. Þau skildu árið 1996. Björg lést 14. janúar 2015. Börn Jóns og Bjargar eru: 1) Sigurður Örn, f. 1973, eiginkona hans er Anna Jónsdóttir. Sonur Sigurðar er Bragi Þór, f. 1995, eiginkona hans er Hrafnhildur Fannarsdóttir. Börn Braga og Hrafnhildar eru Dagmar Ósk, f. 2020, og Elmar Örn, f. 2025. Börn Sigurðar og Önnu eru Katrín, f. 2003, og Jón Arnar, f. 2007. 2) Óli Björgvin, f. 1976, eiginkona hans er Sigríður Sóley Guðnadóttir. Börn þeirra eru Hildur Björg, f. 2004, og Guðný, f. 2007. Sonur Sigríðar er Bergsteinn Ásgeirsson, f. 2001.
Jón Már, sem alla jafnan var kallaður Nonni, var fæddur og uppalinn Vesturbæingur. Hann ólst upp á Grandavegi 36, í húsi sem oftast er nefnt Stóra-Skipholt.
Nonni gekk í Melaskóla og lauk þaðan barnaprófi 1961. Þaðan lá leiðin í Gagnfræðaskóla Reykjavíkur, Gaggó Vest, þar sem hann lauk gagnfræðaprófi 1965. Hann hóf ungur að vinna hjá Sambandinu við hin ýmsu störf eins og tíðkaðist á þessum tíma. Hann útskrifaðist sem símvirki frá Póst- og símaskólanum árið 1970 og síðan sem símvirkjameistari árið 1977.
Nonni hóf störf sem símvirki hjá Póst- og símamálastofnun árið 1972 þar sem hann vann nánast allan sinn starfsferil. Vissulega breyttist nafn vinnustaðarins nokkrum sinnum en hann lauk starfsferlinum hjá Mílu árið 2018. Hann hafði þá unnið hjá sama fyrirtækinu í 46 ár.
Nonni var mikill KR-ingur og spilaði 23 meistaraflokksleiki áður en hann lagði skóna á hilluna árið 1969. Hann varð Íslandsmeistari með KR árið 1968 og var því um árabil nýjasti Íslandsmeistarinn þar til félagið náði loksins að hampa titlinum aftur árið 1999. Nonni hætti ekki alveg afskiptum af KR. Þegar synir hans fóru að spila með félaginu tók hann að sér liðstjórn um árabil.
Útför Jóns Más fer fram frá Neskirkju í dag, 15. apríl 2025, klukkan 13.00.
Fyrir 10 árum settist ég niður til að skrifa minningargrein um mömmu og nú í dag geri ég það um pabba.
Það var gott að alast upp með pabba, hann var rólegur og mjög skapgóður maður, ég held að við getum öll verið sammála um það. Það skipti nánast engu máli hvað við bræðurnir gerðum af okkur, hann var ekkert mikið fyrir að skamma mann, mamma sá bara um það. En minnigargrein um góðan pabba verður ekki skrifuð án þess að minnast á uppvaxtarárin í Breiðholtinu. Eitt kvöldið, þegar mamma var ekki heima og pabbi með okkur bræðurna á vaktinni, fékk pabbi þessa snilldarhugmynd að horfa á góða bíómynd og líklega hefur klukkan verið heldur margt því hann valdi að horfa á Rambó. Þegar langt var liðið á myndina og Rambó búinn að afgreiða málin áttaði pabbi sig á því að hann var að horfa með okkur og hélt þá fyrir augun á okkur út myndina því ekki vildi hann missa af lokamínútunum.
Pabbi var alveg ofboðslega viljugur að skutla mér og var það vel nýtt. Hvort sem það var á æfingar í KR-heimilinu eða vinahópnum. Það skipti nánast engu máli hvað maður var að vesenast, hann var alltaf á kantinum á Opelnum. Einhverra hluta vegna ólumst við bræðurnir upp með bíltegundinni Opel og eru það alls ekki gallalausir bílar. Fyrsti bíllinn sem ég man eftir var Opel Kadett rauður að lit og hann átti það til að bila, en pabbi var lunkinn að laga það sem þurfti. Eitt skiptið þegar við vorum að fara austur fyrir fjall á Apavatn, bíllinn fulllestaður með toppgrind troðfulla af farangri, brotnaði undan farþegasætinu frammi í þegar mamma settist inn, þá var undirvagninn orðin haugryðgaður og ferðalagið í hættu. Þá fékk pabbi þessa snilldarhugmynd að hengja sætið upp í handfangið farþegamegin með símavír svo hægt væri að hefja ferðalagið og sá sem var yngstur fékk að sitja frammi í. Hann var lausnamiðaður með eindæmum. Við áttum góðar stundir saman á Apavatni og á ég hlýjar minningar þaðan.
Fótboltinn var númer eitt hjá okkur og var pabbi liðstjóri hjá mér frá byrjun og alla leið í 2. flokk og er ég mjög þakklátur fyrir að hafa haft hann með í því ferðalagi. Ég var ekki alltaf í byrjunarliðinu en hann var duglegur að hvetja mig áfram og einnig að hafa stjórn á mér því ég átti það til að skipta skapi á vellinum. Eitt skiptið var mér skipt inn á í leik á móti ÍBV og var tæklaður niður beint fyrir framan pabba, ég stökk upp og hjólaði í peyjann, það eina sem ég heyrði var „Björgvin, rólegur!“. Hann kallaði mig alltaf Björgvin í þau örfáu skipti sem hann hækkaði röddina. Ég fékk beint rautt spjald og lauflétt spjall frá pabba eftir leik. Já, minningarnar ylja.
Fullorðinsárin tóku við, mamma og pabbi skildu. Þau voru samt sem áður góðir vinir þegar leið á og var það ánægjulegt. Mamma lést árið 2015 sem var erfitt fyrir okkur strákana og pabbi deyr 5. apríl 2025 eftir hetjulega baráttu á gjörgæsludeild Landspítala. Sem betur fer er ég enn ríkur af fólki sem stendur mér næst og er Siggi bróðir sá klettur sem staðið hefur hæst upp úr öldurótinu á þessum tímamótum.
Óli B. Jónsson.
Að alast upp í Breiðholtinu og vera KR-ingur tók stundum á. Ekki var það svo að við værum einu KR-ingarnir þar því þeir eru fleiri en fólk heldur. Ég var í kringum 6 ára aldurinn þegar pabbi fór að keyra mig í Vesturbæinn á æfingar hjá KR. Hann taldi ekki eftir sér að bíða á meðan æfingin stóð yfir. Þetta fannst mörgum skrítið, að fara alla leið úr Breiðholtinu í Vesturbæinn til að æfa fótbolta. Pabba fannst þetta sjálfsagt og lítið mál enda kom hann af mikilli KR-fjölskyldu. Þegar liðstjórar fóru að vera í flokkunum var hann fljótur að taka hlutverkið að sér. Ólíkt því hvernig þetta er í dag þá sáu liðstjórar um að þvo alla búninga því leikmenn áttu ekki búninga í þá daga. Það voru því reglulega nokkrir balar og stundum fullt baðkar af KR-treyjum heima sem lágu í bleyti í grænsápu.
Hluti af æsku minni og KR-lífinu með pabba var flugeldasalan. Gamlárskvöld byrjaði ekki fyrr en við vorum komnir heim úr flugeldasölunni um klukkan sex og þá var mamma tilbúin með matinn. Strax eftir matinn þurfti að rjúka út því það mátti engan tíma missa að byrja sprengingarnar. Apavatn var griðastaður fjölskyldunnar á sumrin þar sem fyrir tilstilli pabba við tókum þátt í að byggja svæðið upp með gróðursetningu trjáa. Dagarnir fóru þó að mestu í að vera niðri við vatnið eða úti á bát að veiða alveg sama hvernig viðraði. Eftir daginn var farið inn á Laugarvatn í gufu og skolað af sér.
Pabbi eyddi flestum hátíðisdögum með fjölskyldunni minni síðustu 25 árin og verður því erfitt að venjast því að hafa hann ekki með okkur. Síðasta árið var komin venja á að pabbi sótti mig í vinnuna flesta daga vikunnar. Þá gátum við farið yfir daginn og veginn og það sem okkur lá á hjarta þá stundina. Þessar ferðir voru ekki síst mikilvægar fyrir mig til að fylgjast með líðan hans núna undanfarna mánuði þar sem eitthvað virtist vera farið að angra hann. Hann var eins og margir af hans kynslóð ekki mikið að kvarta og kveinka sér fyrr en sársaukinn var orðinn óbærilegur.
Þrátt fyrir að pabbi léti ekki mikið fyrir sér fara hafði hann mikinn húmor. Liggjandi á gjörgæslunni þar sem hann barðist fyrir hverjum andardrætti lét hann húmor sinn í ljós alla daga. Þegar ég kem í eitt skiptið og spyr um líðan hans segir hjúkrunarfræðingurinn að hann sé hátt uppi og er þá að vísa til magns verkjalyfja sem hann hafði fengið. Þegar pabbi heyrir þetta segir hann: „Nei, nei, nei, ég er svo lofthræddur,“ sem hann og var.
Ég veit að þið mamma fylgist með okkur öllum.
Elsku pabbi minn, vonandi ertu hættur að finna til og orðinn aftur frískur.
Sigurður Örn.
Tengdafaðir minn, Jón Már, var með eindæmum rólegur og þolinmóður maður, stundum svo að mér þótti nóg um. Sérstaklega þegar börnin voru lítil og fengu að búa til leikvöll í stofunni hjá honum á Flyðrugrandanum. Sófanum var breytt í fimleikaáhald eða sparkað var í bolta eins og leikvöllurinn væri heimurinn en ekki stofa í blokkaríbúð í Vesturbæ Reykjavíkur. Ég fórnaði höndum en hann sagði mér bara að vera róleg, þau myndu ekkert skemma. Svalirnar hans á Flyðrugrandanum voru kallaðar „Costa del Afi“ og mörg sumur voru þær heimsóttar reglulega og setið þar og slappað af, spilað og borðaður íspinni sem alltaf var til í frystinum.
Nonni, eins og hann var alltaf kallaður, gerði hlutina á sínum hraða. Þegar hann sagðist ætla að gera eitthvað í rólegheitunum var ég nokkuð viss um að það myndi jafnvel aldrei gerast, svo rólegur var hann. Hann gleymdi samt aldrei því sem hann var búinn að taka að sér, eins og að sækja krakkana í skólann, skutla þeim í vinnu, á fótboltaleiki, æfingar eða annað. Nonni var alltaf boðinn og búinn þegar beðið var um pössun eða hjálp og henti öllu til hliðar, jafnvel vinnunni hjá Mílu sem hann hafði svo gaman af. Svo þegar börnin voru komin með bílpróf og þau vantaði bíl var auðfengið að fá bílinn lánaðan ef „afi strætó“ gat ekki sjálfur skutlast.
Í þau skipti sem stórar framkvæmdir hafa verið á heimilum okkar fjölskyldunnar var Nonni mættur til að taka sér pensil í hönd, málningarrúllu eða kústinn til að þrífa upp eftir son sinn sem fór á undan með látum í framkvæmdunum. Honum fannst alltaf betra að hjálpa öðrum en að þiggja sjálfur hjálp og láta hafa fyrir sér.
Undanfarin ár kom hann reglulega í mat á sunnudögum og naut þess sérstaklega eftir að langafabörnin komu í heiminn, Dagmar Ósk og núna á þessu ári Elmar Örn. Nonni kunni að dekra við barnabörnin og sérstaklega var kært á milli þeirra Braga Þórs enda kallaði ég þá lengi vel „afgana“ þegar þeir voru á ferðinni saman.
Tíðu ferðirnar á Apavatn voru alveg sérstakar. Alltaf var sami matseðillinn í öllum ferðum, af hverju að breyta því sem gott er? Nonni var með stórt hjarta og einstaklega umhyggjusamur. Hann flíkaði ekki tilfinningum sínum og lét þær í ljós á sinn hátt. Hann borðaði aldrei ís nema heimagerða ísinn á jólunum en á þann hátt tel ég að hann hafi verið að sýna að hann kunni að meta hvað fyrir hlutnum var haft. Hann borðaði graflaxinn í forrétt með bestu lyst enda hafði hann stundum átt sinn þátt í að veiða hann.
Nonni var með okkur alltaf á hátíðisdögum og fór með okkur og fjölskyldu minni til Kanaríeyja eitt árið þar sem hann gekk að honum fannst óhóflega mikið en naut þess að stytta veturinn og halda jólin hátíðleg í hitanum. Síðasta sunnudag, daginn eftir að Nonni kvaddi okkur, settist enginn í sætið hans við matarborðið. Við erum viss um að hann hafi verið með okkur og við vitum að hann mun fylgjast með ungunum sínum með ömmu Bobbu, tengdamóður minni heitinni. Takk fyrir allt og hvíl í friði, elsku Nonni.
Anna Jónsdóttir.
Afi Nonni var ekki maður margra orða en hann var alltaf til staðar fyrir okkur og tilbúinn að hlusta, hvort sem honum líkaði betur eða verr. Hann var með góða og þægilega nærveru og einstaklega góðhjartaður. Þrátt fyrir að afa Nonna þætti gott að vera einn með sjálfum sér var hann alltaf til í að taka á móti okkur þegar við vildum koma í heimsókn. Við vissum að hjá afa gætum við fengið ótakmarkaðan skjátíma, ýmist á leikjaneti eða fyrir framan sjónvarpið að horfa á Cartoon Network og Boomerang. Auk þess máttum líka vera með læti og var stofunni oftar en ekki breytt í fimleikasal eða fótboltavöll. Afi kenndi okkur líka og spilaði mikið við okkur ólsen-ólsen og veiðimann. Þá fórum aldrei svöng frá honum og gátum treyst á að fá skorpubrauð, rúnstykki, snúð, mjólkurkex eða apaís.
Helgarferðirnar á Apavatn voru ófáar í æsku og verða núna dýrmætar minningar. Þar lærðum við öll að veiða fisk, bæði hefðbundna aðferð þar sem staðið er og kastað þangað til fiskurinn bítur á og þá aðferð sem afi Nonni fullkomnaði síðar meir, að kasta út, festa stöngina, labba upp í sumarbústað og koma svo aftur nokkrum tímum síðar þegar oftar en ekki fiskur hafði bitið á agnið.
Langflestir vina okkar þekktu afa Nonna. Það var nefnilega þannig að ef maður þurfti að komast eitthvað og aðrir fararkostir voru ekki í boði eða hentuðu ekki var iðulega hægt að treysta á að afi Nonni gæti mætt, með veiðisólgleraugun á nefinu, og skutlað okkur.
Afi lét ekki mikið fyrir sér fara en skilur engu að síður eftir sig risastórt skarð, stærra en hann hefði trúað sjálfur.
Elsku besti afi okkar, við vonum að þér líði betur núna bæði á líkama og sál. Við söknum þín mjög mikið. Og aldrei gleyma að 5. apríl verður héðan í frá dagurinn ykkar Kötu. Risa knús til þín.
Bragi Þór, Katrín og
Jón Arnar Sigurðarbörn.
Látinn er minn kæri bróðir Jón Már sem var tveimur árum yngri en ég. Æskuárin í Stóra-Skipholti voru góð, enda liðu þau fljótt í faðmi foreldra og Jóns afa, að ógleymdum góðum nágrönnum. Á þessum árum var mikið um að vera á Grandaveginum við sjávarsíðuna með krabbadýrum, gróðri og auðvitað stígvéllafylli af sjó og tilheyrandi vosbúð og kulda sem herti og stældi manninn.
Svo liðu árin, auðvitað var þar KR allt og alltumlykjandi og fótbolti ástundaður þá aldur leyfði, og þá hófst nýr kafli í ævisögunni, en þá á milli leikið sér við félagana í nágreninu og ef illa fór var kallað á stóru systur til að hjálpa þegar leikfélagarnir sýndu í verki óréttlæti. Það dugði til og sættir tókust.
Svo kom litli bróðir í heiminn átta árum síðar en Jón Már. Jens Valur skyggði ekkert á leik og störf eldri systkina. Lífið hélt áfram sinn vanagang þótt fjölskyldan hefði stækkað. KR hafði mótað hug og færni bróður míns til fótboltans. Hann náði þeim árangri að spila með meistaraflokki KR árin 1968 og 1969 og ávallt þótt árin liðu fylgdist hann af áhuga með sínu góða knattspyrnufélagi og áföngum niðja sinna.
Ég kveð nú kæran bróður með söknuði og minnist góðra stunda. Sendi hans nánustu mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Hólmfríður María
Óladóttir og fjölskylda.
Það eru ekki margir sem ná að vinna í 50 ár á sama vinnustað.
Jón Már náði því hins vegar og gott betur. Árið 1966 hóf hann sem ungur piltur störf hjá Póst- og símamálastofnun. Jón Már upplifði gegnum tíðina miklar umbreytingar á félaginu sem fór úr því að vera Póst- og símamálastofnun yfir í Landsíma Íslands, Símann og loks Mílu. Á þessum tíma urðu einnig gífurlegar tæknibreytingar í fjarskiptageiranum og var Jón Már í seinni tíð óspar á að segja okkur vinnufélögunum skemmtilegar sögur úr rekstri félagsins.
Lengi vel vann Jón Már við símstöðina í Breiðholti. Hann lýsti því fyrir okkur einu sinni hvernig farið var að því að senda reikninga í „gamla daga“. Þannig var að á símstöðvunum voru „teljarar“ og á þriggja mánaða fresti voru teknar myndir af teljurunum með stöðu þeirra og sendar til fjármálasviðs til reikningagerðar. Í dag er ótrúlegt að hugsa til þess að svona hafi fyrirkomulagið verið og að það hafi virkað.
Frá árinu 2013 var Jón Már hluti af fjármálasviði Mílu. Þar vann hann einkum við að skrá leigulínur í kerfi félagsins og var einn af okkar helstu sérfræðingum á því sviði. Lengi vel var skráningin á leigulínuþjónustu handvirk og þá var gantast með „morgunhjalið“, en það var þegar Jón Már ásamt öðrum starfsmanni fór yfir og leiðrétti skráningarnar á þjónustunni.
Það er óhætt að segja að Jón Már hafi verið einstaklega þægilegur í umgengni og unnið starf sitt af kostgæfni. Hann var líka góður félagi sem gott var að leita til í amstri dagsins. Minningar um góðan vinnufélaga munu lifa um ókomna tíð.
Við vottum fjölskyldu Jóns Más innilega samúð.
Fyrir hönd fjármálasviðs Mílu,
Hildur Eygló Einarsdóttir.