Gunnar Már Torfason fæddist 26. júní 1924 í Hafnarfirði. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Sólvangi 5. apríl 2025.

Foreldrar hans voru hjónin Torfi Björnsson vélstjóri, f. 1884, d. 1967, og María Ólafsdóttir, húsmóðir f. 1901, d. 1971. Hálfsystkini Gunnars Más samfeðra, börn Torfa og Stefaníu Guðnadóttur, f. 1882, d. 1918: Guðjón Guðmundur, f. 1910, d. 1996, Hjálmar Ragnar, f. 1913, d. 1979, Guðný, f. 1914, d. 1993, Ólafur Engilbert, f. 1917, d. 1930.

Alsystkini Gunnars voru: Stefanía, f. 1922, d. 1994, Einar Karel, f. 1925, d. 2009, Vilborg, f. 1927, d. 2009, og Hrönn, f. 1929, d. 2006.

Hálfsystkini Gunnars sammæðra, börn Maríu og Ásgeirs Páls Kristjánssonar, f. 1900, d. 1970, voru: Kristján Jóhann, f. 1932, d. 2019, Kristín Mikkalína, f. 1933, d. 2016, og Karólína Guðrún, f. 1939, d. 2017.

Gunnar Már giftist 5. mars 1949 Auði Þorláksdóttur, f. 26.10. 1930, d. 29.6. 1993.

Börn þeirra eru: 1) Haraldur Rafn, f. 18.5. 1949, maki Sigrún Karólína Ragnarsdóttir og eiga þau tvo syni. 2) Gerður María, f. 15.5. 1950, maki Karl Birgir Júlíusson og eiga þau þrjú börn. 3) Ársæll Már, f. 17.7. 1952, maki Kristín Breiðfjörð Kristinsdóttir, þau eignuðust þrjá syni, en einn þeirra er látinn. 4) Magnea Þóra, f. 5.12. 1953, sambýlismaður Grétar Mar Jónsson. 5) Olga, f. 5.10. 1958, maki Jørgen Tommy Jensen og eiga þau tvo syni. 6) Auður, f. 26.1. 1959, maki Magnús Rúnar Jónsson og eiga þau tvö börn. Afkomendur Gunnars Más eru sextíu og einn.

Gunnar Már var ungur að árum settur í fóstur að Vesturkoti á Skeiðum. Hann undi hag sínum vel í sveitinni og eftir fermingu fór hann í vinnumennsku að Efri-Rauðalæk í Holtum. Mestan hluta ævinnar bjó Gunnar Már í Hafnarfirði, lengst af í Grænukinn 17. Stuttu eftir að hann varð ekkjumaður flutti hann að Sólvangsvegi 3 og þar kynntist hann góðri konu, Aðalbjörgu Björnsdóttur, sem nú er látin. Þau ferðuðust mikið saman meðan heilsan leyfði. Árið 2021 fór Gunnar Már á Hjúkrunarheimili Sólvangs.

Gunnar Már var um tíma til sjós, en lengst af ævinni var hann vörubílstjóri í eigin atvinnurekstri. Hann vann m.a. fyrir Hvaleyrarbræður, Rafveitu Hafnarfjarðar, Íshús Hafnarfjarðar, Góðtemplara og Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði, þar sem hann var meðlimur. Síðar vann hann sem húsvörður hjá Bílaborg hf. Eftir að Gunnar Már komst á eftirlaunaaldur fór hann í sendiferðir fyrir Vélar og skip ehf. og Raftíðni ehf. Rúmlega níræður að aldri lauk hann sínum starfsferli og skilaði inn ökuskírteininu 95 ára.

Gunnar Már var alla tíð mikill sjálfstæðismaður og tók þátt í starfi flokksins í Hafnarfirði. Hann hafði gaman af veiðiskap og Veiðivötnin voru ætíð í miklu uppáhaldi. Í mörg ár veiddi hann þar að hausti í net ásamt fjölskyldunni. Á hverju hausti fór hann Landréttir þar sem hann hitti gamla kunningja úr sveitinni.

Útför Gunnars Más fer fram í Hafnarfjarðarkirkju í dag, 15. apríl 2025, klukkan 15. Streymt verður frá útförinni:

https://www.mbl.is/andlat

Í dag kveðjum við elsku afa Gunna.

Hann var dugnaðarforkur og vinnuþjarkur enda datt honum ekki í hug að hætta að vinna þegar hann var kominn á aldur. Hann var alltaf kátur, mikill húmoristi, sagði skemmtilega frá og alltaf með hnyttin svör á reiðum höndum. Oft eru það litlu hlutirnir sem skipta okkur máli og veifið hans afa Gunna er það krúttlegasta sem til er.

Afi Gunni hafði ætíð gaman af því að keyra og vera á rúntinum og hafði miklar skoðanir á því hvernig fólk ætti að haga sér í umferðinni. Eftir að Siggi Rúnar fékk bílprófið var afi duglegur að lauma að honum ýmsum heilræðum um hvernig best væri að haga akstrinum. Eftirminnilegt atvik átti sér stað þegar afi var farinn að nýta sér skutlþjónustu og var að koma til okkar í kaffi. Þá gat hann ekki orða bundist yfir aksturslagi bílstjórans og fannst að það ætti að taka af honum prófið hið snarasta.

Afi Gunni var mikið jólabarn og hafði gaman af flottu jólaskrauti. Mamma var dugleg að hjálpa afa að undirbúa jólin og fylgdi ég oft með. Í þakklætisskyni fyrir alla hjálpina gaf hann mér oft vandað og fallegt jólaskraut sem er mér mjög kært. Afi Gunni var líka alltaf með okkur á áramótunum og var hrókur alls fagnaðar. Hann tók glaður þátt í hattapartíi dóttur sinnar og var spenntari en barnabarnabörnin að opna knöllin með eftirréttinum. Auður Anna er strax farin að hugsa um hvernig næsta gamlárskvöld muni vera og hún er handviss um að langafi Gunni verði með okkur í anda.

Meira afmælisbarn en afi Gunni er vandfundið. Hann elskaði að eiga afmæli og að halda upp á það. Hann var varla búinn að eiga afmæli þegar hann var farinn að tala um það næsta. Því lék aldrei neinn vafi í mínum huga á að hann myndi ná hundrað árunum.

Fastur liður í heimsóknum hjá afa var að taka í spil og fá Prins Póló. Að spila ólsen-ólsen upp í 10 stig virðist vera frekar auðveldur hlutur en maður hafði ekki roð við afa. Maður var heppinn ef maður gat stolið einum sigri af honum. Hann var kominn með sínar eigin reglur, sem breyttust með hverju árinu, en börnunum mínum fannst alltaf jafn gaman að spila við langafa. Hann Jóhann Gunnar mun halda uppi heiðri langafa síns í spilamennsku því hann er búinn að mastera alla helstu frasana og taktana hans. Hann kallar púkana til sín og segir fólki að líta út áður en hann lokar. Jóhann Gunnar er nokkuð viss um að núna sé langafi að spila ólsen-ólsen við englana og hann er sko að svindla á þeim og hirða öll stigin.

Á mínu heimili köllum við lagið Hvítu mávar lagið hans afa. Frá því að Sandra Rut byrjaði að læra á píanó bað afi Gunni hana um að spila það fyrir sig. Það var svo fyrir hundrað ára afmælið hans afa sem hún lagði kapp á að læra það fyrir hann og endaði á því að spila það fyrir langafa sinn í afmælisveislunni.

Elsku afi Gunni, nú kveðjum við þig í dag með ást og þakklæti. Mikið er ég þakklát fyrir þann tíma sem við fengum með þér. Við munum hugsa hlýtt til þín og minning þín mun lifa áfram í hjörtum okkar.

Þín afastelpa,

Sigrún Ása.

Það er með bæði gleði og sorg í hjarta að við bræður kveðjum afa okkar Gunnar Má sem við kölluðum alltaf afa Gunna. Það er mikill missir að þessum litríka persónuleika sem hafði mikil áhrif á líf okkar beggja. Við söknum allra góðu stundanna, til dæmis þegar við fórum niður í kjallara í Grænukinn 17 og hann gaf okkur kók, malt og appelsín í gleri á jólunum og einnig allra ferðanna sem stórfjölskyldan fór á Bindindismótið í Galtalæk þar sem hann var í fararbroddi ásamt ömmu Auði. Við erum líka ánægðir með að hann skyldi fá tækifæri til að lifa heilsuhraustur í heil 100 ár og geta kvatt þennan heim sterkur, stoltur og sprækur allt til æviloka.

Margar minningar koma upp í hugann eins og myndin af vörubílstjóranum sem vann myrkranna á milli, tók í nefið og var tilbúinn að leggja mikið á sig hvort sem það var fyrir íþróttafélagið FH eða Góðtemplararegluna. Sterkastar eru minningarnar frá Veiðivötnum.

Afi hélt mikið upp á lagið Óbyggðirnar kalla enda naut hann sín best í náttúrunni þar sem andstæðurnar kölluðust á, svartur sandurinn og fjöldi fallegra vatna. Í Veiðivötnum lögðum við net í samvinnu við fjölskyldu Sigrúnar frá Lýtingsstöðum, veiddum silunga og gerðum að aflanum. Við bræður lærðum þar af honum handtökin sem við getum vonandi miðlað til okkar afkomenda eins og að hnýta hnúta, blóðga fisk og velja góða veiðistaði. Hann gat verið hvass og ákveðinn þegar hann sagði okkur til en undir niðri var húmor og hjartahlýja.

Við bræður vorum svo heppnir að fá tækifæri til að vinna með honum hjá föður okkar í Raftíðni. Hann var einn af þeim sem hættu sökum aldurs 70 ára, en byrjaði svo aftur að vinna sem sendill og reddari og vann allt til 90 ára aldurs. Vinnan göfgar manninn, var hans lífsmottó, og hann mátti eiga það að hann var alltaf léttur og kátur og grínaðist mikið í samstarfsmönnum sínum.

Afi var sannur Hafnfirðingur, stundum kallaður Gunni Mössu að hafnfirskum sið. Honum þótti vænt um bæinn sinn, tók þátt í ýmsu félagsstarfi í Hafnarfirði og leit eiginlega út eins og hinn eini sanni Gaflari með sixpensarann á höfðinu og tóbaksklútinn í vasanum.

En þó að afi Gunni hafi kvatt þennan heim þá lifa minningarnar áfram í hjörtum okkar. Minningar um mann sem var ætíð stoltur af fjölskyldunni sinni, gjafmildur, hjálpsamur og vinnusamur.

Hvíldu í friði, elsku afi Gunni.

Vilhjálmur Kári
Haraldsson og Kjartan
Örn Haraldsson.