Kristjana Sigmundsdóttir fæddist í Reykjavík 28. júlí 1956. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans eftir snögg veikindi 29. mars 2025.
Foreldrar hennar eru Bryndís Magnúsdóttir Zoëga og Sigmundur Indriði Júlíusson, bæði fædd árið 1934. Systkini hennar eru Júlíus Helgi, f. 1954, Jóhanna Árný, f. 1960, og María, f. 1969.
Kristjana ólst upp í Reykjavík og árið 1973 kynntist hún þar lífsförunaut sínum, Hjálmari Steini Pálssyni, f. 9. nóvember 1952. Þau gengu í hjónaband ári síðar, 1974. Börn þeirra eru:
1) Páll, f. 1974 giftur Lillian Jacobsen, f. 1977. Börn þeirra eru Sindri Frans, f. 1996, Júlía Diljá, f. 1997, Emilía Katrín, f. 2005, og Hrefna María f. 2010. 2) Bryndís Erla, f. 1977, gift Ástþóri Helgasyni. Synir þeirra eru Þór, f. 2006, og Huginn, f. 2008. 3) Ármann Helgi, f. 1990, giftur Soffíu Hjördísi Ólafsdóttur, f. 1991. Dætur þeirra eru Lóa Kristjana, f. 2019, og Una Þorbjörg, f. 2023.
Kristjana sinnti fjölbreyttum störfum allt til ársins 2000 þegar hún hóf störf sem móttökuritari hjá Heilsugæslu Hlíðasvæðis. Þar tók hún síðar við sem skrifstofustjóri og eftir útskrift sem læknaritari árið 2015 gegndi hún þeirri stöðu til starfsloka árið 2022.
Hreyfing og heilsa skipuðu stóran sess í lífi Kristjönu og hafði hún sérstakan áhuga á hjólreiðum og dansi. Eftir starfslok gaf hún sig að fullu að handverki, einkum bútasaumi og prjónaskap, og naut þess að verja tíma með barnabörnunum sínum.
Útför Kristjönu fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 15. apríl 2025, klukkan 13.
Ég kveð þig, Kristjana mín, með söknuði þegar ég fylgi þér síðasta spölinn.
Ég kynnist þér um mitt ár 1973, þú þá nýorðin 17 ára.
Það er margs að minnast og þessi orð eru aðeins brotabrot af ævigöngunni. Æðruleysi, heilindi, umburðarlyndi og yndisþokki voru þínar bestu gjafir á lífsleiðinni. Vinir okkar vitna um hvað umhyggja þín og nærvera var góð.
Við dönsuðum saman og sóttum danstíma til að njóta dansins betur. Hreyfing var alltaf mikilvægur hluti af lífi þínu og um tíma hjólaðir þú í vinnuna í hvaða veðri sem var. Við fórum í hjólaferðir með Fjallahjólaklúbbnum um hálendið og þú fékkst margar viðurkenningar frá þeim. Við fórum í margar hjólaferðir hérlendis og erlendis.
Þrjú síðustu árin eftir að við hættum að vinna nutum við þess að vera heima, sinna áhugamálum og annast yngstu barnabörnin.
Páll, sonur okkar, fæddist haustið 1974 og við giftum okkur sama ár. Bryndís Erla, dóttir okkar, fæddist árið 1977 og Ármann Helgi, sonur okkar, árið 1990.
Við stofnuðum okkar fyrsta heimili á Hringbraut 28 snemma árs 1975, bjuggum eftir það á nokkrum stöðum og síðustu 25 árin í Vesturberginu. Barnabörnin okkar eru átta og þau voru þér yndi frá fæðingu. Þú vannst ýmis störf, meðal annars hjá Eimskip og Kerfi hf. Kringum aldamótin hófst þú störf í Heilsugæslunni Drápuhlíð, varðst skrifstofustjóri og laukst læknaritaranámi með vinnu. Þú útskrifaðist 2015 og starfaðir sem læknaritari eftir það. Þú varst frábær skrifstofustjóri og læknaritari að sögn vinnufélaganna.
Þú hættir störfum snemma árs 2022. Þú gast því aðeins sinnt áhugamálum þínum í stuttan tíma, en þau voru fjölbreytt; handavinna, dans, hreyfing, samfélag í kirkjunni, handavinnuhópurinn og bútasaumur. Þú saumaðir mörg teppi en náðir ekki að klára það síðasta. Sami saumaklúbbshópurinn hittist reglulega í rúm 50 ár. Kristilegt starf var þér hugleikið og það var mikil blessun að vera með þér í því.
Í huganum er þetta stuttur tími þegar ég lít til baka.
Nú skil ég til fulls orðatiltækið: Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.
Takk fyrir allar stundirnar sem við áttum saman, Kristjana mín, og megi Guð blessa minningu þína.
Þinn eiginmaður,
Hjálmar Steinn Pálsson (Hjalli)
„Mamma, paradísarblómið mitt er eitthvað slappt. Hvað á ég að gera?“
Svona hófust mörg símtölin okkar, símtöl sem voru svo sjálfsögð en eru í dag svo dýrmæt.
Oft gat hún leyst vandamál blómanna í gegnum símann en ef það dugði ekki, þá sendi ég henni mynd með SMS-i. Hún svaraði fljótt – með myndina merkta með rauðu: hér má snyrta, þarna klippa. Ef plantan virtist ekki eiga möguleika hjá mér, þá kom hún bara, sótti hana, tók hana með sér heim í aðhlynningu. Eftir smá tíma fékk ég svo plöntuna til baka, lifandi og heilbrigða og alltaf fylgdi með lítill afleggjari frá mömmu aukalega, svona til vonar og vara.
Svona var mamma. Hún bar umhyggju fyrir öllu lífi, fólki, blómum, dýrum. Hún var umönnunaraðili. Hjarta hennar sló alltaf með öðrum, ekki aðeins með okkur sem vorum henni nánust, heldur líka með þeim sem hún hitti í öllu því hópastarfi sem hún tók þátt í. Hún sá alla og allir skiptu máli.
Mamma fór alltaf skrefinu lengra en aðrir, hlustaði betur, elskaði heitar og ef henni fannst það ekki nóg, þá mætti hún með blóm, krem eða kerti og alltaf með opinn faðm.
Hún prjónaði peysur á mig og strákana, með fallegum skilaboðum saumuðum í hálsmálið, sendi vinum mínum gjafir og saumaði rúmteppi með ást í hverju spori sem hún gaf okkur.
Hún elskaði nefnilega ekki bara mest – hún hafði líka þá sjaldgæfu gjöf að láta ást sína sjást og finnast í hverjum einasta hlut sem hún snerti.
Kannski er það táknrænt að stóra rúmteppið sem hún hefur unnið að í eitt og hálft ár verði aldrei klárað. Engin manneskja hefur þá þolinmæði, nákvæmni og hjartalag sem þarf í það verk.
Núna, eftir að hún er farin, lít ég í kringum mig og í hverju horni heimilisins birtast litlar gjafir, litlar gersemar, litlir kossar. Allt frá henni.
Það er ekki hægt að fanga á blaði líf og ást jafn fallegrar konu og mamma mín var.
En við sem elskuðum hana berum minningarnar áfram – í blómunum okkar, teppunum, brosunum og hlýjunni.
Og alltaf, alltaf verður hluti af henni hjá mér.
Takk fyrir allt, elsku mamma.
Við höldum áfram, með þig í hjartanu.
Bryndís og strákarnir.
„Nóg um mig, hvernig hafið þið það?“ Þessi orð einkenndu hana Kristjönu okkar sem kvaddi okkur alltof snemma.
Það var árið 2014 sem að ég hitti Kristjönu fyrst. Stuttu eftir fyrstu kynni mín við Ármann var hún sótt út á bílaplan í Vesturberginu. Þar hitti hún fyrir þessa nýju stúlku sem yngsti sonurinn var byrjaður að slá sér upp með. Væntumþykja umvafði mann allt frá fyrsta faðmlagi og átti eftir að vaxa svo sterkt gagnkvæmt með tímanum.
Kristjana var verndari, hún vildi vita hvernig fólkið sitt hefði það, var stolt af því og var virkur þátttakandi í lífi okkar. Hún ól upp í börnunum okkar að sýna góðmennsku og hugsa vel um hvert annað. Okkur finnst sú staðreynd að geta ekki heyrt í henni hvenær sem er, sent henni myndir, fengið ráðleggingar og notið samverustunda með henni afar ósanngjörn. Á sama tíma erum við ævinlega þakklát fyrir allar stundirnar með henni.
Lóa Kristjana okkar átti sterka tengingu við ömmu sína. Í huga þeirrar 6 ára er amma komin í framhaldsheiminn, Nangijala, úr bókinni Bróðir minn ljónshjarta. Þar sveif hún inn í blómakjól í rauða húsið sitt með gula þakinu sem er umkringt blómum. Í Nangijala rætast allar óskir manns en þar verður amma með stóran skjá þar sem hún fylgist með afkomendum sínum. Þar er líka sauma- og föndurvél og að sjálfsögðu nóg af kaffi. Það besta við Nangijala er að tíminn líður hraðar en í okkar heimi svo amma þarf bara að bíða til morgundagsins til að hitta okkur öll þó svo að við lifum áfram góðri ævi. Ósanngjarnast finnst henni að Una Þorbjörg, litla systir, fái ekki jafnmikinn tíma með henni og hún. Við ætlum að segja henni sögur af ömmu og leyfa ömmu að senda henni skilaboð í gegnum okkur. Amma elskar okkur, það fengum við að heyra reglulega frá Kristjönu og munum áfram finna fyrir því. Við elskum ömmu Kristjönu óendanlega líka.
Elsku Kristjana, við lofum að passa vel hvert upp á annað. Takk fyrir allt sem þú hefur gefið okkur, takk fyrir að leiðbeina okkur í foreldrahlutverkinu og vera alltaf til staðar. Það verður aldrei „nóg um þig“ því minningu þinni verður haldið sterkt á lofti.
Soffía Hjördís Ólafsdóttir.
Elsku Kristjana systir, hjartað mitt er brotið og ég á erfitt með að sætta mig við að ég geti ekki lengur hringt í þig eða sent þér skilaboð þegar ég þarf að segja þér frá einhverju eða fá ráð frá þér. Þú varst ekki bara systir mín – þú varst kletturinn minn, mín besta vinkona og sú sem hlúðir að mér eins og móðir, alltaf tilbúin að veita hlýju, öryggi og óendanlega ást. Þú varst hjartað sem sló alltaf fyrir aðra, gafst endalaust af þér, án þess að ætlast til nokkurs í staðinn.
Ég get enn heyrt hláturinn þinn, séð brosið þitt og fundið hlýjuna sem fylgdi þér hvert sem þú fórst.
Við deildum svo mörgu og á ég svo ótal margar minningar. Frá því að ég var lítil stelpa þegar ég elti þig um allt og vildi gera allt eins og þú. Þú varst fyrirmynd mín – sterk, fyndin og falleg bæði að innan og utan. Seinna þegar ég varð táningur opnaðir þú heimili þitt fyrir mér. Ég fékk að búa hjá ykkur Hjalla yfir lengri tíma og vera hluti af fjölskyldunni ykkar. Þessi kærleiksríki, hlýi heimur sem þú skapaðir var heimili mitt og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Þegar ég kom eitthvert kvöldið alltof seint heim, með samviskubit yfir því að nú værir þú að vaka eftir mér, sagði ég þér brandarann um froskinn með alltof stóra munninn. Við hlógum það sem eftir var nætur og gátum hlegið að þessu alla tíð síðan. Það var okkar augnablik og froskurinn varð þar með okkar einstaka systratákn.
Við hjóluðum mikið saman og voru ófáar ferðir farnar á hjólinu þar sem við gátum talað endalaust um allt milli himins og jarðar og alltaf lengdist leiðin því það var alltaf eitthvað aðeins meira að segja, eitthvað aðeins meira að sjá. Það voru augnablik sem ég minnist með hlýju í hjarta.
Þú varst svo dásamleg við dætur okkar Rabba – gafst þeim ást og athygli, fylgdist stolt með þeim og lést þær finna að þær skiptu máli. Þú bauðst okkur öllum að búa hjá ykkur þegar við vorum að byggja, það yrði sko ekkert mál að hýsa fjögurra manna fjölskyldu á meðan það þyrfti. Alltaf tilbúin að opna hjarta þitt og heimili, það var bara eðli þitt.
Þú varst alltaf til staðar fyrir mig, veittir mér styrk og hlustaðir þegar ég þurfti á því að halda, þú mótaðir mig sem manneskju. Það er ómögulegt að ímynda sér lífið án þín. Ég sakna þín meira en orð fá lýst.
En í minningum okkar lifir þú áfram – í hjólreiðaferðum okkar, í hlátrinum sem hljómar í huganum og í brosinu sem ég veit að þú myndir gefa mér ef þú værir hér.
Takk fyrir allt, elsku stóra sys. Þú varst, ert og verður alltaf órjúfanlegur hluti af mér.
Elsku Hjalli, Palli, Bryndís, Ármann og fjölskyldur, ég samhryggist ykkur af öllu hjarta. Missirinn er mikill og sorgin er stór, en hlý minningin um elsku Kristjönu mun lifa áfram með okkur öllum.
María.