Sigurbjörg Unnur Jóhannesdóttir fæddist á heimili foreldra sinna í Reykjavík 2. desember 1929. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 8. apríl 2025.
Foreldrar hennar voru hjónin Jóhannes Ásgeirsson verkamaður, f. 1891, d. 1967, og Þorbjörg Friðjónsdóttir húsmóðir, f. 1902, d. 1962.
Systkini Unnar eru Kristján Trausti sem fæddist árið 1927 og lést á öðru aldursári, Guðrún Sigríður, f. 1932, og Sóley, f. 1937.
Unnur giftist 5. júlí 1952 Vali Jóhannssyni prentara, f. 11. júní 1918, d. 3. nóvember 1984. Þeirra börn eru: 1) Trausti, f. 1949, fyrrverandi maki Guðrún Birta Hákonardóttir, f. 1954. Börn þeirra eru Andri, f. 1982, og Tinna, f. 1984. 2) Erla, f. 1952, maki Jóhann Guðmundsson, f. 1948. Börn þeirra eru Orri Valur, f. 1982, Unnur Ýr, f. 1984, og Daði, f. 1986. 3) Árni Jóhannes, f. 1954, maki Halldóra Harðardóttir, f. 1957. Börn þeirra eru Valur, f. 1977, Jónas Hörður, f. 1980, Brynjar, f. 1988, og Björg, f. 1993. 4) Edda, f. 1958, maki Gunnar Heimir Ragnarsson, f. 1954. Börn þeirra eru Guðbjörg Dögg, f. 1976, Anna Margrét, f. 1980, Ragnar Heimir, f. 1983, og Dagný, f. 1985. Langömmubörnin eru 24.
Unnur gekk í Austurbæjarskóla, lauk þar barnaskólaprófi og einum vetri í gagnfræðaskóla. Eftir það vann hún við afgreiðslu í nokkur ár en eftir að hún hóf búskap var hún heimavinnandi. Þegar börnin voru uppkomin starfaði hún við ræstingar í Háskóla Íslands til rúmlega sjötugs.
Unnur bjó alla tíð í Reykjavík, þar af tæp 60 ár í Vesturbænum, en sem telpa var hún mörg sumur hjá ættingjum sínum vestur í Dölum og frá því hún var þrítug og fram á níræðisaldur dvaldi hún meira og minna á sumrin í sumarbústað fjölskyldunnar í Laugardal með börnum, ömmubörnum og langömmubörnum.
Unnur sótti námskeið í málaralist og postulínsmálun. Hún naut þess einnig að prjóna og lesa og ráða krossgátur. Eftir hana liggja málverk og lopapeysur víða.
Útför Unnar fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 15. apríl 2025, klukkan 11.
Í dal einum austur af fjöllum er unaðslegt sumarhús.
Angar þar birki og fura og handan við horn sést
glitta í mús.
Þrestirnir halda þar ókeypis konsert upp á hvern dag
við undirleik lækjar og ljóðrænnar golu, hvar heyrir þú
fegurra lag?
Þar yrkir hún móðir mín garð sinn og gælir við blóm,
þar gengur hún léttfætt um iðandi lífið í rósóttum
sólskinsskóm.
Hún sest í sinn stól þá húmar og kyrrðin kemst á
og kaffi sér fær og bita af brauði en mest af því
fuglarnir fá.
Og þrestirnir syngja henni kvöldsólaróð og þakka fyrir sig,
þeir þekkja hennar elsku og önn í áranna fjöld og svo er
með mig.
Þinn sonur,
Trausti.
„Dögg mín veistu, það fer heill heimur með ömmum,“ sagði vinkona mín við mig þar sem ég var í ekkasogunum í leigubíl í miðju Kanada, fimm þúsund kílómetra að heiman. Bíllinn stefndi á flugvöllinn í Calgary og ég freistaði þess að komast heim til fjölskyldunnar sem allra fyrst, nýbúin að fá af því fréttir að elsku amma væri dáin.
Það er ekki auðvelt að byrja að skrifa um ömmu Unni þegar hún er nýfallin frá. Ömmu sem var ætíð full af æðruleysi, svo sterk og ótrúlega lausnamiðuð. Hún var aldrei upptekin af því sem var erfitt, hindranir voru ekki til í hennar orðabók heldur bara lausnir. Amma var líka ótrúlega sjálfstæð. Hún missti afa árið 1984 og bjó ein upp frá því og allt til síðasta dags. Hún hafði alltaf tíma og endalausa orku í að að prjóna, mála, leysa krossgátur, mála kort og leggja kapal. „Mér leiðist aldrei,“ sagði hún ósjaldan.
Hún var ekki bara amma mín, hún var rokkstjarnan í boðunum mínum. Vinkonur mínar hópuðust að henni, þáðu prjónaráð og hlustuðu á skemmtisögur frá því í gamla daga. Hún var börnunum mínum ávallt góð og gaf þeim heillaráð. Hún hrósaði Katrínu jafnan fyrir að vera góð stóra systir og við Kristófer Loga sagði hún alltaf: „Spilaðu lagið.“ Hann vissi um leið hvað hún átti við og spilaði fyrir hana Þannig týnist tíminn. Helst tvisvar í röð.
Það fylgdi henni mikið af fólki og það var ávallt gestkvæmt hjá henni í Vesturbænum. Síminn hringdi oft á dag. Ömmu gat ég hringt í dag og nótt, ég var aldrei að trufla hana og aldrei að vekja hana. Alltaf velkomin, nótt sem dag.
Uppi í bústað var ekki fylgst með klukkunni: „Við sofum þegar við erum þreytt og borðum þegar við erum svöng,“ sagði hún og bætti við að „í sveitinni eru börn úti að leika, sama hvernig viðrar“.
Við Erling fórum með henni í sumar og tókum upp hlaðvarp þar sem hún sagði okkur frá æsku sinni á mölinni, frá sumrunum í sveitinni, frá því hvernig hún afgreiddi fátækt fólk úr Pólunum og hermönnunum sem steiktu skyr.
Amma hafði ótrúlegt minni og sagði frá tímum sem voru svo ólíkir þeim sem við lifum í dag. Eftir hlaðvarpstökurnar fórum við með henni í heimsókn á Bessastaði, þar sem við hittum forsetahjónin og gengum um híbýlin. Þá keyrðum við um Reykjavík og hún benti okkur á húsin sem hún hafði búið í á Grettisgötu, Þórsgötu, smáíbúðahverfinu, nesinu og Víðimelnum. Þetta var ótrúlega verðmætur dagur sem við áttum saman og nú þegar amma er farin er minningin enn dýrmætari.
Þegar ég fékk fréttirnar um að hún væri ekki lengur hér á meðal vor, brotnaði eitthvað inni í mér. Hjarta mitt kramdist og heimurinn fórst. Það er svo skrítið að geta ekki lengur rennt við hjá ömmu með þetta helsta: garn, reykta ýsu, mjólk og smjör. Hún situr við sjónvarpið og horfir á glæpamyndir, prjónar, málar, ræður krossgátur eða allt þetta fernt og biður mig svo að taka með mér heim að minnsta kosti 20 kort sem hún hefur málað.
Með ömmu minni fer heill heimur.
Takk fyrir alla gleðina elsku besta amma, ég sakna þín meira en tárum tekur.
Lengri grein á www.mbl.is/andlat
Þín,
G. Dögg Gunnarsdóttir.
Ég hélt að þú yrðir alltaf hjá mér, elsku amma.
Elsku fallega amma mín, mesti töffari lífs míns. Einhvern veginn hélt ég að þú værir sú eina í heiminum sem yrðir eilíf. Mér fannst þú það mögnuð. Svo stórkostlega mögnuð, elsku amma. Það er ekki hægt að hugsa sér betri fyrirmynd sem ömmu en þig. Hvernig þú fékkst þér bílpróf þegar þú varst 60 ára, prjónaðir, málaðir, saumaðir, lagðir kapal og gerðir krossgáturnar þínar. Hvernig þér leiddist aldrei. Hversu marga vini þú áttir allt í kringum þig. Að þú byggir ein 95 ára. Spáðu í því að vera 95 ára og eiga ekki skráða sjúkrasögu. Því þú varst hraustasta kona í heimi. Vá, amma! Þú varst svo mögnuð. Þú snertir líf svo margra á svo fallegan hátt. Það mátti brjóta allar „mömmu- og pabbareglur“ hjá þér. Horfa á bannaða bíómynd, vera á náttfötunum allan daginn, vaka eins lengi og maður gat. Best var að fara með þér í sveitina þar sem enginn vissi hvað klukkan sló. Veistu hvað ég tala alltaf stolt um þig við alla? Eitthvað sem ég mun aldrei hætta að gera. Og veistu hvað öllum finnst þú mögnuð? Því þú varst svo mögnuð, elsku amma. Fyrir örfáum dögum varstu með okkur að gleðjast uppáhalds Kára þínum á fermingardaginn hans. Svo falleg, flott, hraust og glöð eins og alltaf. Það sem þú sást ekki sólina fyrir börnunum mínum. Og það sem þau fundu það frá þér og vissu af því alltaf. Kári var aldrei í efa um að hann væri uppáhaldsbarnabarnabarnabarnið þitt enda var tengingin á milli ykkar einstök frá degi eitt. Ég hlýt að hafa fengið þrjóskuna frá þér en á einum stað var ég alltaf þrjóskari en þú og gaf aldrei eftir. Myndatökur. Þú þoldir ekki að láta taka myndir af þér en aldrei gaf ég það eftir. Ég er svo glöð að hafa fengið þrjóskuna frá þér því núna getum við yljað okkur við allar fallegu myndirnar af þér ásamt minningunum sem fylgja þeim. Að fá allan þennan tíma með þér er ég svo þakklát fyrir. Fram á síðasta dag var hausinn skýrari en minn, minnið þitt líka. Það eru svo mikil forréttindi að hafa átt þig sem ömmu.
Elsku hjartans besta amma mín. Það sem ég elska þig fast og mikið og sakna þín strax. Það eru svo mikil forréttindi að missa 95 ára ömmu sína óvænt, að mér líður eins og það hafi komið þruma úr heiðskíru lofti. En á sama tíma svo sárt. Þú þarft engar áhyggjur að hafa af mér, því ég veit að þú hafðir þær oft og spurðir mömmu hvernig ég hefði það. Ég lofa því að þú þarft engar áhyggjur að hafa. Ég lærði að vera sterk og sjálfstæð eins og þú, ég lærði það af þér. Ég mun halda fast í allt sem þú kenndir mér, öll þín góðu og fallegu lífsgildi, og bera áfram til krakkanna. Við vitum að þú heldur áfram að fylgjast stolt með okkur og við munum halda áfram að segja öllum hversu mögnuð þú varst og hversu stolt og heppin við erum að hafa fengið þig sem ömmu okkar. Magnaðri manneskju er vonlaust að finna.
Elska þig alltaf, dýrka þig og dái
Þín
Dagný.
„Halló.“
„Hæ, amma.“
„Sæl, vinan.“
„Hvað segirðu?“
„Hvað segi ég? Haha, ég segi ekki neitt, hvað á ég að segja?“
Svona byrjuðu flest samtölin hjá okkur ömmu, bæði í síma og þegar ég kom í heimsókn. Hún hló alltaf að mér þegar ég spurði hvað hún segði eða hvað væri að frétta. Hvað ætti að vera að frétta af henni, orðin svona gömul! Hún hafði ekki yfir neinu að kvarta svo sem – var yfirleitt svarið sem ég fékk frá henni. Ég heyri alveg röddina hennar í þessum samtölum og ég vona að ég haldi því áfram, alltaf. Ég þurfti aldrei að taka sérstaklega fram að það væri ég sem væri að hringja, þrátt fyrir hrúguna af ættingjum, vinum og vandamönnum sem hringdu í hana í tíma og ótíma. Hún vissi bara eiginlega alltaf við hvern hún væri að tala.
Elsku amma. Það sem ég á eftir að sakna gæðastunda með þér:
Að sýna þér myndir úr fjallgöngunum mínum. Þótt þú yrðir lofthrædd við að skoða þær þá gerðirðu það samt, dáðist að íslensku fjallafegurðinni og hrósaðir mér fyrir að þora þessu.
Að prjóna hjá og með þér, þú varst góður prjónakennari þótt ég hafi kannski ekki verið besti nemandinn því ég hef ekki náð að klára þessi háleitu prjónamarkmið mín!
Að segja þér frá alls konar sem var að gerast í mínu lífi, að fá að skipta um á rúminu hjá þér því þér leiddist það svo mikið. Að koma með kjúkling úr Suðurveri, það fannst þér gott og varst fegin þegar við gerðum það – þá slappstu við að elda, sem þú varst samt svo dugleg að gera.
Elsku amma, það er bara erfitt að tína einhverjar minningar niður á blað, því þær eru svo ofboðslega margar. Og núna poppa þær allar upp í hausnum á mér á sama tíma, ásamt svo mörgum öðrum sem ég hef ekki hugsað sérstaklega um eða mundi jafnvel varla eftir. Eins og til dæmis þegar ég var krakki og ég mátti labba ein út í bakarí og kaupa snúð fyrir pening sem þú lést mig fá. Eða þegar ég bjó í Englandi og ætlaði að gera pönnukökur í fyrsta sinn á íslensku pönnukökupönnunni sem ég hafði fengið í jólagjöf. Það byrjaði brösuglega hjá mér og ég endaði á að hringja í þig og fá hjálp – og úr urðu fínustu pönnukökur! Og hvernig þú skammaðir mig þegar ég kom til Íslands í eitt skiptið og gleymdi að kaupa karton af Winston Long fyrir þig. Því gleymdi ég bara einu sinni!
Ég er svo glöð að þú náðir að hitta strákinn minn sem fæddist núna í febrúar. Þú varst alltaf að segja mér að ég yrði að verða mamma og þú náðir að sjá það verða að veruleika. Og fyrir það er ég svo endalaust þakklát. Ég mun segja honum allt um ömmu Unni og hvað þér fannst hann sætur!
Amma, ég gæti haldið endalaust áfram, því þær eru endalausar minningarnar sem ég á, sem ég mun varðveita og taka með mér áfram út í lífið. Ég á eftir að sakna þín, ég sakna þín strax. Þú varst einstakt eintak og það vantar sko eitthvað í heiminn núna.
Í lokin læt ég fylgja með línur úr þínu uppáhaldsljóði eftir Einar Ben.:
Eitt bros getur dimmu í dagsljós
breytt,
sem dropi breytir veig heillar
skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Þín,
Tinna.
Elsku amma.
Ég mun sakna þín mikið, sakna þess þegar þú faðmaðir mig og trúi ekki að þú sért farin frá okkur.
Ég man vel eftir því þegar þú varst að kenna mér að mála og ég á myndina ennþá.
Ég mun aldrei gleyma þér elsku amma mín.
Þitt barnabarnabarn,
Hekla Marin.
Elsku amma mín, ég mun aldrei gleyma þér og þú verður alltaf í hjarta mínu.
Þú varst kærleiksrík, góð og full af gleði.
Við elskum þig og munum aldrei gleyma þér.
Söknum þín mikið.
Hvíl í friði elsku amma.
Þitt barnabarnabarn,
Katla.
Elsku hressa, lífsglaða, dásamlega og bjartsýna langamma mín.
„Þannig týnist tíminn” er ekki einungis titill uppáhaldslagsins þíns, heldur eru það einnig orð sem eiga vel við þessa stund. Stundina núna, án þín, því árin mín 20 með þér liðu sannarlega allt of hratt.
Takk fyrir allt saman. Takk fyrir sögurnar frá æskunni þinni sem minni, fyrir hláturinn og grínið og takk fyrir allar fallegu stundirnar.
Það er erfitt að kveðja en ég minnist þín með bros á vör á hverjum degi og tek þig og jákvæða hugarfarið sem fylgir þér með mér sem veganesti inn í áskoranir framtíðarinnar.
Elsku amma Unnur, ofurkona og fyrirmynd mín að eilífu, tíminn með þér týndist en verður alltaf vel geymdur í hjarta mínu og okkar allra. Þú varst stórkostleg í alla staði og ég mun aldrei gleyma þér.
Litla langömmubarnið þitt verður alltaf þinn stærsti aðdáandi. Fljúgðu hátt, ég elska þig.
Katrín Ýr Erlingsdóttir.
Lykilpersóna í þroskasögu hefur kvatt. Skyndilega. Minning Unnar Jóhannesdóttur móðursystur minnar er umvafin reykmettuðu ljósi og skærum litum. Hún ríkti yfir fríríki æsku minnar á Melunum í Vesturbæ Reykjavíkur sem teygði anga sína alla leið í sælureitinn í Miðdal í Biskupstungum. Unnur átti nefnilega margt sammerkt með Línu langsokk. Hjá henni giltu fáar reglur og flest var leyfilegt. Á aðventu mátti barnið vaka eins lengi og það lysti, velja hvað það fékk í skóinn og háma í sig speglakökur upp úr beygluðu Quality Street-boxi. Í sveitinni var unglingurinn nestaður fyrir ferð að Stóruhríslu, Gullkistu eða Gilinu án fyrirmæla eða varnaðarorða. Gefið mikilvægt svigrúm fyrir lestur og einveru svo unglingurinn fann hlýju og kyrrð. Sagðar sögur af ömmunni ljúfu sem unga manneskjan fékk aldrei að kynnast nema sem ljósbliki. Fullorðinni var manneskjunni hrósað. Þá var gott að geta gefið til baka.
Unnur var nátthrafn sem málaði myndir á striga á sokkabuxunum með pensil í annarri og Winston í hinni. Hún gat smíðað, veggfóðrað og endurraðað híbýlum fólks. Tók bílpróf á sextugsaldri og ók bíl til níræðs. Unnur tók breska hlaupið „Wine Gums“ fram yfir fínasta konfekt og var fastheldin á mat. Vildi ekki sjá bergmyntu né garam masala, en karríið slapp. Hún var laus við allt pjatt, dökk yfirlitum, grannvaxin og kvik í hreyfingum. Bjó yfir góðu og glöðu geði en gat verið langrækin. Unnur var fordómalaus sem gerði það að verkum að hún laðaði að sér manneskjur úr öllum áttum. Vinsæl í samsætum og sígópásum allt til æviloka. Unnur var sannarlega einstök.
Við vegaskil þakka ég leiðarnesti og fyrir allt sem ég ann. Geymi þig ljósið og litir.
Erna Sverrisdóttir.
Elsku hjartans Unnur, mín kæra vinkona og mamma minnar bestu vinkonu, mig langar að minnast þín með örfáum orðum og þakklæti fyrir vinskapinn í yfir 60 ár. Man eftir þér/ykkur Val fyrst í Stóragerðinu en fluttuð svo fljótlega á Kapló. Þar var alltaf líf og fjör og allir velkomnir, háir sem lágir, alltaf matur og mikið fjör. Gleymdi því stundum að ég var ekki fjölskyldumeðlimur, svo vel leið mér hjá ykkur og með ykkur. Þú varst dálítið mikið öðruvísi í háttum og klæðnaði en konur á þínum aldri í þá daga, töffari í gallabuxum og sokkabuxum innanundir, stundum með opna buxnaklauf og alltaf að skapa eitthvað, meðan margar mömmur gengu í Hagkaupssloppum og sýsluðu við mat.
Dásamlegast var allt traustið sem okkur var sýnt á unglingsárum og, já, alla tíð, og það sýndi svo mikla virðingu gagnvart okkur.
Það var alltaf líf og fjör á ykkar heimili, bústaðnum og þar sem fjölskyldan var samankomin. Þú varst svo mikill dugnaðarforkur en það var samt aldrei að sjá að það væri neitt mikið að gera hjá þér, alltaf rólegheit hvort sem þú varst að elda, baka, prjóna eða mála, en þú varst einstaklega dugleg og skapandi og kenndir mér margt. Ég á þér svo ótal margt að þakka og ekki síst vinskap okkar á fullorðins árum, gat alltaf leitað til þín og þú reyndir að kenna mér að prjóna og mála og hvattir mig áfram þrátt fyrir að sjá að ég var ekki mikil handverks eða listakona. En þú hafðir alltaf trú á mér, og allt hrósið var ómetanlegt.
Það flýgur margt í gegnum hugann og erfitt að koma orðum að öllu sem mig langar að segja, en samverustundir eins og spilakvöld, ferðirnar í bústaðinn, allar veislurnar og allar sögurnar sem þú sagði okkur og meðal annars sögurnar af því hvernig þú eignaðist suma góða vina þína eru ómetanlegar. Þú eignaðist nokkra vini til æviloka sem þú tókst upp í bílinn þinn sem puttalanga á leiðinni austur eða í bæinn, marga tókstu heim til þín og bauðst í mat. Þetta var mjög sérstakt af einhleypri eldri konu þar sem svo margir voru hræddir við þessa puttalinga, en ekki þú og sannaðir að þú varst framúrstefnuleg og ekki eins og fólk á þínum aldri sem var hrætt við allar nýjungar. Þú laðaðir að þér fólk á mjög hljóðlátan hátt, vini barnanna þinna, vini barnabarna þinna og jafnvel vini barnabarna þinna og ótal margra annarra sem þú hefur verið samferða í gegnum lífið.
Elsku hjartans vinkona, sumarlandið og Valur bíða þín og trúi að það verði fagnaðarfundir. Hjartans þakkir fyrir vináttuna, traustið, virðinguna og allt annað sem ég lærði hjá þér eða af þér og að vera mamma minnar bestu vinkonu. Heimurinn væri betri ef til væru fleiri eintök af þér.
Votta ykkur börnum, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum mína dýpstu samúð og veit að missir ykkar er mikill.
Ingveldur Jóna Gunnarsdóttir (Inga).