Þórarinn A. Guðjónsson fæddist 12. ágúst 1931 í Vestmannaeyjum. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 6. apríl 2025.

Foreldrar hans voru Guðjón Karlsson vélstjóri, f. 27. nóvember 1901, d. 15. maí 1966, og kona hans, Sigríður Markúsdóttir, f. 26. september 1902, d. 13. ágúst 1993. Systkini Þórarins: Karl Guðmundur, f. 1928, d. 2020 , Sjöfn, f. 1930, Rúnar, f. 1933, d. 2017, Eygló, f. 1935, Markús Sigurður, f. 1938, d. 1966, Hrefna, f. 1940, d. 2006, Sigríður, f. 1941, Garðar, f. 1942.

Þórarinn var kvæntur Erlu Jónasdóttir, f. 31. október 1940, árið 1965. Hún lést 12. janúar 2023. Börn þeirra eru: 1) Haraldur Þór Þórarinsson, f. 17. júní 1962, d. 12. mars 1972. 2) Aðalsteinn Þórarinsson, f. 25. janúar 1964. Börn hans eru a) Hekla Aðalsteinsdóttir, f. 14. júlí 1989, og b) Hrafnkell Máni Aðalsteinsson, f. 27. apríl 2009. 3) Guðrún Bára Þórarinsdóttir, f. 4. apríl 1968. 4) Haraldur Þórarinsson, f. 1. júlí 1973.

Útför Þórarins fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 16. apríl 2025, klukkan 13.

Pabbi var einstakt glæsimenni og það var líkt og æðruleysi og jákvætt hugarfar væri honum í blóð borið. Öllum áskorunum lífsins mætti hann af stakri rósemd, gjarnan með húmorinn að vopni, svo fátt virtist koma honum úr jafnvægi og alltaf var hann staðráðinn í að vera til staðar fyrir sitt fólk. Þó pabbi væri oft langdvölum á sjó var öll sumur farið með okkur krakkana í tjaldútilegur á sumrin sem sitja í minningunni sem mikil og sólrík ævintýri. Pabbi var líka ötull sundmaður sem við krakkarnir fengum að njóta og margan laugardag fór hann með okkur í Laugardalslaugina. Sundið stundaði hann reglulega meðan hann hafði heilsu til og eftir að hann hætti að geta keyrt gafst mér tækifæri til að endurgjalda honum sundferðir æskunnar. Á tíræðisaldri leiddi hann mig inn í sína föstu rútínu: heitur pottur, 200 metra sund, vatnsnudd á iljar og kálfa, sjópottur og gufa. Enduðum svo í kalda pottinum ef vel viðraði.

Síðustu árin bjó pabbi, ásamt mömmu meðan hún lifði, í íbúð á Hrafnistu á Sléttuvegi. Þar naut hann sín einstaklega vel og tók virkan þátt í því góða félagsstarfi sem í boði er. Stundum bauð hann mér þangað á viðburði og var dásamlegt að finna hve mikils metinn hann var í því samfélagi og hve vel honum leið þar.

Pabbi sagði mér stundum frá því sem amma hans sagði við hann þegar hann var ungur maður: Mundu það Þórarinn að huga ávallt vel að heilsunni því hún er það mikilvægasta sem þú átt. Hann sagðist minnast þessara orða reglulega og þakkaði þeim að hafa haldið góðri heilsu svo lengi.

Ég er þakklátur fyrir þær stundir og þau einlægu samtöl sem við pabbi áttum síðustu árin og að hafa fengið betri innsýn í hans fallega og tæra viðhorf til lífsins sem mun verða mér vegarnesti um ókomna tíð.

Elsku pabbi, hvíl í friði.

Aðalsteinn Þórarinsson.