Gunnar Theodór Þorsteinsson, Teddi, fæddist á Ísafirði á sjómannadaginn, 2. júní 1957. Hann lést 4. apríl 2025 í Reykjavík.

Teddi var sonur hjónanna Bríetar Theodórsdóttur, f. 21. ágúst 1927, d. 22. febrúar 2002, og Þorsteins Jóakimssonar, f. 19. febrúar 1920, d. 25. maí 2011. Hann var næstyngstur fjögurra systkina en systur hans eru Sigurbjörg, f. 1950, Rósa, f. 1954, og Friðgerður, f. 1958.

Hann kynntist Elínu Huld Halldórsdóttur árið 1976. Nokkrum árum síðar hófu þau saman búskap í Reykjavík en fluttust fljótt til Ísafjarðar. Börn þeirra eru Arnar Þór, f. 1983, Áróra, f. 1990, og Bergrós, f. 1995.

Teddi ólst upp á Ísafirði og lauk gagnfræðaprófi þar. Hann starfaði hjá Pósti og síma á Ísafirði á unglingsárum en hóf svo nám í bifvélavirkjun við Iðnskólann í Reykjavík og lauk meistaraprófi í greininni árið 1985. Eftir að hafa starfað m.a. í Vélsmiðjunni Þór, Steiniðjunni og Bílatanga fluttist hann með fjölskyldunni til Kópavogs árið 1999 og hóf störf á bifreiðaverkstæðinu Toppi. Síðustu árin starfaði hann á vélaverkstæði Eimskipa og lauk starfsferlinum þar.

Hann var mikill áhugamaður um skip og báta, mótorhjól, sögu lands og þjóðar, auk alls sem tengdist horfnum atvinnuvegum og verkháttum. Ferðalög innanlands og sérstaklega um eyðibyggðir voru honum einkar hugleikin.

Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 16. apríl 2025, klukkan 11.

Elsku pabbi, þetta var ekki planið. Þú varst engan veginn tilbúinn. Þú varst á leiðinni til útlanda í enn eina mótorhjólaferðina þína til Noregs og Svíþjóðar. Það er sárara en orð fá lýst að sjá þau plön ekki raungerast.

Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur, sama hvað. Á öllum tímum sólahringsins varstu tilbúinn að leysa úr lífsins vandamálum. Það vissu þínir bestu vinir jafn vel og við fjölskyldan. Þú varst sá sem svo margir stóluðu á og „nei“ var ekki til í orðabókinni þegar einhver bað um aðstoð.

Við vorum svo heppin að fá að ferðast mikið með þér. Þú fórst með okkur í ótal bíltúra og lengri ferðir um landið og áttir alltaf fróðleik um það sem bar fyrir augu handan við næstu beygju. Hvernig gat einn maður munað svona mikið af sögum, staðarheitum og öðrum fróðleik um byggðir sem hann átti ekki daglega leið um? Þegar þú fórst að skrifa dagbækur og vangaveltur í gömul bloggkerfi fyrir rúmlega 20 árum grunaði okkur ekki hversu mikill fjársjóður þetta efni yrði fyrir okkur sem nú sitjum eftir í tóminu. Þú varst einfaldlega betri en allra besti pabbi og afi sem við hefðum nokkurn tímann getað ímyndað okkur.

Þú varst handlaginn með eindæmum. Við gleymum aldrei þegar þú dróst gamalt rútuhræ heim en breyttir því á nokkrum árum í fullkominn ferðabíl fyrir fjölskylduna. Eða þegar þú fannst allslausa bátsskel við Reykhóla og breyttir henni í listaverkið sem nú stendur á þurru landi á Ísafirði. Þessari fallegu trillu varstu einstaklega stoltur af og hún beið þess aðeins að þú kæmir í sumar til að setja á flot og leyfa vélarhljóðinu að bergmála milli fjallanna.

Við vitum að þú hefðir kvatt okkur einhvern tíma, það er hluti af lífi flestra að kveðja foreldra sína. Við vitum að einn daginn hefði verið óumflýjanlegt að læra að lifa án þín. Við óttuðumst þó aldrei raunverulega að sá dagur væri svona nálægur.

Við skulum sjá þá staði sem þig langaði að sjá, elsku pabbi. Við skulum ferðast um norsku firðina og upplifa augnablikin sem þig langaði að deila með okkur. Við munum aldrei líta annan sólardag án þess að velta fyrir okkur hvernig þú værir að eyða honum ef örlögin hefðu gefið þér tækifæri. Værirðu á skaki vestur í Djúpi, sitjandi með nestið þitt á fallegum útsýnisstað í Noregi eða kannski bara með kaffibolla og ostaslaufu í bakaríinu?

Við munum segja afastelpunum áfram sögur af þér. Við skulum gera það sem þú hefðir gert með þeim, við skulum ferðast með þeim og gefa þeim alls konar bækur við öll tilefni. Við skulum styðja við áhugamálin þeirra, sama hver þau verða, líkt og þú hefur alla tíð stutt okkur í tónlist og öðru sem okkur hefur þótt áhugavert. Við skulum kenna þeim að meta og varðveita bæði landið okkar og tungumálið. Einn góðviðrisdaginn skulum við síðan sitja með þeim á fallegum stað við Ísafjarðardjúpið sem var þér svo kært, hlusta á vindinn, horfa á öldurnar og athuga hvort við sjáum litla gula trillu á skaki einhvers staðar við sjóndeildarhringinn.

Arnar, Áróra og Bergrós.

Líttu sérhvert sólarlag

sem þitt hinsta væri það.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.

Þessar ljóðlínur Braga Valdimars Skúlasonar koma í hugann nú þegar kvaddur er góður félagi og vinur, sem hvarf fyrirvaralaust úr lífi okkar til annarra heimkynna, einn af fyrstu vordögunum nú í apríl.

Auðvitað er ekki ráðlegt að lifa í stöðugum ótta um að ástvinir okkar kunni að hverfa skyndilega á braut, en þegar slíkt gerist getum við ekki varist þeirri hugsun að við hefðum kannski átt að nýta betur stundirnar sem okkur voru gefnar meðan engan skugga bar á. Því enginn veit hver annan lifir.

Teddi mágur minn mætti örlögum sínum allsendis óviðbúinn 4. apríl sl. þegar hann varð bráðkvaddur á hjartadeild Landspítalans. Það má nærri geta hversu mikið áfall það var fyrir fjölskyldu hans og stóran vinahóp. Það er erfitt að sætta sig við að lífsþyrstur maður á besta aldri skuli kallaður burt úr jarðlífinu við upphaf þess æviskeiðs, sem hann hafði beðið með eftirvæntingu, eftirlaunaáranna. Hann hafði áform um að nýta svo vel tímann fram undan og njóta með ástvinum sínum, börnunum sínum og fjölskyldum þeirra. Afaskotturnar hans tvær, sólargeislarnir, sem hann hlakkaði svo mikið til að sjá vaxa úr grasi, þær áttu í vændum endalaus ævintýri með afa.

En það ræður víst enginn örlögum sínum og nú blasir við það verkefni að lifa lífinu án hans, fylla það tóm sem fráfall hans skilur eftir. Þá er sannarlega dýrmætt að eiga í hugskotinu samverustundir sem veita birtu og yl í sálina. Ævintýri sem varðveitt eru í hjarta þeirra sem deildu með honum lífi sínu. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá er líklegt að Teddi sjálfur hafi litið sérhvert sólarlag sem væri það hans hinsta. Þannig lifði hann lífinu, þannig sinnti hann störfum sínum sem fagmaður í bílgreinum, þannig ferðaðist hann um landið, þannig ýtti hann bát sínum úr vör og þannig sinnti hann vinum sínum og fjölskyldu. Hann var maður augnabliksins. Þannig verður hans minnst og þannig verður hann áfram fyrirmynd fólksins síns.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.Allar góðar vættir lands og lagar styðji ástvini Tedda í sorginni og vefji þau heilandi ljósi.

Kolbrún Halldórsdóttir.

Mig langar að minnast vinar míns Tedda sem féll skyndilega frá langt um aldur fram. Við Teddi vorum vinnufélagar hjá Aðalskoðun 2011-2013 og með okkur tókst vinskapur sem stóð alla tíð síðan. Það voru forréttindi að þekkja Tedda, hann var vinur vina sinna og vildi allt fyrir þá gera. Hann var einn öflugasti og útsjónarsamasti viðgerðarmaður sem ég þekki, hann gekk fumlaust til verks og vissi hvernig átti að leysa úr hverju vandamáli. Sem dæmi um ósérhlífni hans má taka að einhverju sinni var hann að hjálpa vini sínum að koma vörubifreið í gang sem hafði staðið lengi, var sokkin ofan í fósturjörðina og vildi startarinn ekki virka. Ekki var Teddi ráðalaus, gangsett var grafa og grafinn skurður meðfram bifreiðinni og grafin göng undir hana og Teddi skreið undir bílinn og náði startaranum úr.

Annað dæmi um ráðsnilld Tedda er að í vetur bilaði bíll hjá Arnari syni hans, hjólabúnaðurinn aftan á Skódanum hans lét undan á vondum vegi úti á Snæfellsnesi. Flestir hefðu tekið bílinn upp á kerru og ekið á verkstæði, en ekki minn maður. Hann fór á staðinn og við vondar aðstæður kom hann Skódanum í ferðafært stand og var honum ekið til Reykjavíkur þar sem viðgerð fór fram. Teddi var sannkallaður jaxl. Væri maður í einhverjum vandræðum með bíla eða tæki þá gat maður alltaf leitað til Tedda, hann leysti alltaf málið fljótt og vel eins og honum var einum lagið. Teddi átti alltaf gamla bíla, taldi óábyrgt í fjármálum að kaupa nýja bíla, enda þekki ég engan sem var jafn duglegur að halda notuðum bílum gangandi. Suzuki var í sérstöku uppáhaldi, þá bíla þekkti hann eins og fingurna á sér. Stundum var hringt og þá hafði hann eignast einn alveg óvart og vantaði samastað fyrir hann þangað til hans væri þörf og þótti Tedda þá gott að fá að geyma slíka bíla um sinn á Apavatni og sama var með bifhjólin, stundum eignaðist hann eitt og eitt hjól sem þurfti að hýsa. Maður var fljótur að segja já við Tedda og frábært að geta gert honum smágreiða, því hann var alltaf fyrstur til ef mann vantaði eitthvað sjálfan.

Hann var afar duglegur að ferðast hvort sem var um Ísland eða erlendis nú síðustu ár, sérstaklega á mótorhjóli, og hann átti einmitt bókað far með Norrænu í sumar og var heimferð óákveðin. Við sem heima sátum fengum að njóta ferðalaga hans með mjög skemmtilegum ferðasögum á Fésbókinni.

Teddi var alltaf eitthvað að bardúsa og kom gjarnan í vinnuna til mín í Betri skoðun, bæði með bíla í skoðun eða bara að fá sér kaffi og spjalla. Ég á eftir að sakna þín mikið, kæri vinur, ég votta fjölskyldu þinni innilega samúð, guð gefi ykkur styrk í þessari miklu sorg við fráfall frábærs fjölskylduföður, vinar og félaga.

Magnús Helgi Jónsson.