Júlíana Sóley Gunnarsdóttir fæddist 8. júní 1956 í Hafnarfirði. Hún lést í faðmi fjölskyldu, eftir stutta en erfiða baráttu við krabbamein á Líknardeild Landspítalans, 2. apríl 2025.

Foreldrar Sóleyjar voru Gunnar Þór Ísleifsson, f. 3. september 1938, d. 23. desember 2003, og Guðmunda Lilja Ingibjörg Þorsteinsdóttir, f. 18. mars 1939, d. 12. mars 1996.

Sóley var elst systkina sinna sem hún lifði öll, þau voru Guðmundur Össur Gunnarsson, f. 6. júní 1957, d. 10. mars 2007, stúlka Gunnarsdóttir, f. 5. desember 1958, d. 1. mars 1960, Grímur Norðkvist Gunnarsson, f. 31. janúar 1960, d. 16. ágúst 1961, og Jón Halldór Gunnarsson, f. 22. október 1962, d. 16. nóvember 2012. Sóley á einnig fjóra bræður samfeðra; Róbert Þór Gunnarsson, f. 20. maí 1973, Anton Rafn Gunnarsson, f. 11. júní 1976, Ríkharður Guðjón Gunnarsson, f. 1. nóvember 1977, og Sæmundur Mariel Gunnarsson, f. 18. júní 1982.

Sóley giftist Guðna Svavari Kristjánssyni, f. 20. nóvember 1954, d. 7. ágúst 1984, og áttu þau saman tvö börn. Davíð Aron Guðnason, f. 24. júlí 1973, eiginkona hans er Ester Linda Helgadóttir f. 30. apríl 1976, og eiga þau saman þrjú börn. Aron Ingi Davíðsson, f. 28. nóvember 1994, og á hann tvö börn, Mikael Inga og Önnu Ósk, Lena Dögg Davíðsdóttir, f. 29. júní 2001, unnusti hennar er Daníel Ingi Garðarsson og eiga þau eitt barn, Frey Inga. Emma Linda Davíðsdóttir f. 14. nóvember 2008. Rakel Rós Guðnadóttir, f. 11. júní 1979, eiginmaður hennar er Björgvin Jónsson, f. 16. febrúar 1977. Þau eiga tvö börn, Sóleyju Birtu Björgvinsdóttur, f. 8. júní 2004, og Birni Mána Björgvinsson, f. 1. mars 2017.

Sóley kynnist eftirlifandi eiginmanni sínum Friðriki Má Bergsveinssyni, f. 24. júlí 1962, árið 1985, þau giftu sig 13. september 2008. Sóley og Guðni hófu búskap á Selfossi þar sem Guðni starfaði sem rafvirki og Sóley á Hótel Selfossi. Sóley og Friðrik hófu sinn búskap í Kópavoginum en fluttu 1988 í Grafarvoginn þar sem þau bjuggu lengst af eða þar til að þau fluttu í Boðaþingið í Kópavoginum.

Útför Sóleyjar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 16. apríl 2025, klukkan 13.

Við viljum minnast elskulegrar mágkonu okkar með nokkrum orðum. Júlíana Sóley eða Sóley eins og við kölluðum hana alltaf var hvers manns hugljúfi. Hún var ótrúlega dugleg og sterk, þessi netta og fínlega kona, sem mátti reyna svo margt í lífinu. Sóley hafði hlýja nærveru og vildi allt fyrir alla gera, fjölskyldan var henni allt og var hún ákaflega stolt af börnum sínum og barnabörnum. Við eigum eftir að sakna þín kæra mágkona en um leið minnast þín þegar fjölskyldan kemur saman. Ljós þitt mun lifa með okkur.

Elsku Sóley, takk fyrir samfylgdina og góðar minningar gegnum árin. Við kveðjum þig með söknuði. Hvíl í friði.

Elsku Friggi bróðir, Davíð, Rakel og fjölskyldur, ykkar missir er mikill, megi Guð vera með ykkur og veita styrk.

Þeir segja þig látna, þú lifir samt

og í ljósinu færð þú að dafna.

Því ljósi var úthlutað öllum jafnt

og engum bar þar að hafna.

Frá litlu hjarta berst lítil rós,

því lífið þú þurftir að kveðja.

Í sorg og í gleði þú senda munt ljós,

sem að mun okkur gleðja.

(Guðmundur Ingi Guðmundsson)

Auðbjörg, Berglind, Árni og fjölskyldur.

Elsku mamma, það er ólýsanlega erfitt að þurfa að kveðja þig í blóma lífsins, þú áttir svo mikið eftir og þú hlakkaðir svo mikið til þess að fara að ferðast og eyða tíma með okkur, barnabörnum og langömmubörnum. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt en ef það er einhver sem á hásæti á himnum, þá ert það þú, örlátasta og kærleiksríkasta manneskjan í lífi okkar.

Þú máttir aldrei neitt aumt sjá, þá varstu fyrst til að koma og bjóða fram hjálp og hlýju, þú varst höfuð fjölskyldunnar, sú sem hélt öllu saman og hvattir alla til dáða, það var alltaf hægt að leita til þín með allt.

Dugnaður, kærleikur og örlæti eru orð sem best lýsa þér, elsku mamma mín, og þú hugsaðir alltaf um alla aðra á undan þér.

Ég veit að pabbi og afi taka vel á móti þér ásamt öllum hinum englunum okkar, sem þú hugsaðir svo vel um. Við munum passa upp á að halda litlu fjölskyldunni okkar saman eins og þú hefðir viljað.

Börnin þín,

Davíð og Rakel.

Elsku Sóley, ég get ekki líst því hversu óendanlega þakklát ég er fyrir að hafa fengið þig sem tengdamömmu, þú tókst mér opnum örmum frá fyrsta degi og alltaf gat ég leitað til þín alveg sama hvað var.

Ég mun sakna þín óendanlega, en geymi í hjarta mér fallegar minningar, samverustundir og öll þau góðu orð sem þú lést falla. Þú skilur eftir djúp spor og kærleiksríka arfleifð sem lifir áfram í okkur sem elskuðum þig.

Hvíl í friði, elsku Sóley, og takk fyrir allt sem þú varst og gafst.

Í hjörtum okkar lifir þú enn,

með bros og hlýju sem aldrei fer.

Þó leiðin þín sé nú í ljósi og friði,

sitjum við eftir með söknuð og þökk.

Takk fyrir árin, fyrir allt sem þú gafst,

fyrir ástina sem aldrei hverfur eða gleymist.

(Höf. óþekktur)

Linda.

Til að lýsa hversu æðisleg amma var myndi þurfa meira en þúsund orð.

Amma var engum lík. Hún trúði því besta upp á alla og aldrei var nein neikvæð hugsun hjá henni.

Bestu minningarnar mínar úr æsku voru að gista heima hjá ömmu með litlu frænku minni, henni Sóleyju Birtu. Ein saga sem er svo gott dæmi um hversu góð amma var: Ég og Sóley Birta fengum tíu þúsund krónur til að kaupa pítsu og nammi í nettó. Við löbbuðum saman frænkurnar í búðina en týndum þessum tíu þúsundum á leiðinni. Við vorum rosalega stressaðar að segja elsku ömmu að við hefðum týnt peningunum, en þegar við sögðum henni sagði hún: Svo lengi sem það er allt í lagi með ykkur skiptir það ekki máli. Þetta var svo gott dæmi um hversu mikið amma elskaði okkur og hversu góð hún var.

Amma var svo dugleg að hringja í mig þegar ég var ólétt að syni mínum og spurði mig alltaf hvernig ég hefði það, þrátt fyrir allt sem hún var að ganga í gegnum. Ég kunni svo mikið að meta það, og hana, alltaf. Hún kveikti á kerti fyrir mig þegar ég var í erfiðri fæðingu og gerði það alltaf fyrir okkur öll þegar við þurftum á því að halda. Ég er svo þakklát að hún fékk sjá og hitta son minn, hann Frey, þrátt fyrir að það væri bara stutt. Ég mun alltaf vera dugleg að segja honum frá elsku Sóleyju ömmu. Við hefðum öll viljað meiri tíma með þér elsku amma, en við vitum að Guð velur englana sína vel.

Eins og þú sagðir alltaf við okkur: Sofðu rótt elsku amma og dreymi þig vel og hugsaðu fallega.

Lena Dögg.

Miðvikudaginn 2. apríl varð einn helsti ótti minn að veruleika þegar elsku besta amma mín, Sóley, kvaddi þennan heim.

Frá því að ég man eftir mér hefur hún verið ljósið í lífi mínu. Flest það góða sem einkennir þann mann sem ég er í dag á ég henni að þakka. Hún hefur alltaf verið minn helsti leiðarvísir, stuðningsmaður og kærleiksgjafi. Hún sá alltaf það besta í mér, jafnvel þegar ég gerði það ekki sjálfur.

Alla tíð leið mér eins og henni væri meira annt um mig en mér sjálfum. Hún fylgdist með öllu og studdi mig í hverju sem var. Ef ég fór í próf, mikilvægt viðtal, á viðburð – eða jafnvel eitthvað smávægilegt sem skipti mig máli – þá var hún búin að kveikja á kerti fyrir mig með bænamiða undir. Þetta gerði hún ekki eingöngu fyrir mig heldur fyrir allt sitt nánasta fólk, og jafnvel fyrir þá sem hún fann að þyrftu á því að halda.

Stóran hluta æsku minnar bjó ég hjá ömmu. Ég sóttist mjög eftir því að vera hjá henni og elsku Frikka afa – langt fram á fullorðinsár. Við vorum einstaklega náin og nánast alltaf þegar eitthvað bjátaði á hjá mér, þá hringdi amma – því hún fann það einhvern veginn á sér.

Amma var einstök. Hún var falleg – innan frá og út, ótrúlega klár, hjartahlý og hafði næmni og innsæi sem fáir búa yfir. Hún gaf alltaf bestu ráðin og hafði einstakt lag á því að sjá hlutina í réttu ljósi. Hún setti aðra alltaf í fyrsta sæti og passaði upp á að enginn í nánasta hring gleymdi afmælisdögum, gleðifréttum eða merkisdögum hjá hinum.

Þrátt fyrir að hafa upplifað fleiri áföll en flestir var hún alltaf fyrst á staðinn ef einhver átti erfitt eða þurfti á henni að halda.

Hún bar mikla virðingu fyrir hefðum, kurteisi og því að bera sig með reisn. Það var sífellt verið að kenna manni mannasiði og séð til þess að maður væri kurteis og herramannslegur hvert sem farið var.

Amma var sterkasta manneskja sem ég hef nokkurn tímann kynnst og lagði mikla áherslu á þakklæti fyrir að fá að vera heilbrigð. Leti var ekki til í hennar orðabók; hún var alltaf fyrst í verkin og sá jákvæðu hliðarnar á öllu. Sama hvaða ólán dundu yfir hana fann hún alltaf ástæðu til að vera þakklát fyrir að staðan væri ekki verri.

Það ættu allir að vera aðeins líkari henni Sóleyju ömmu, og það skiptir mig máli að sem flestir fái að vita hversu einstök og sterk hún var, elsku amma mín.

Lífið heldur áfram, en það verður aldrei eins, ég er virkilega þakklátur fyrir tímann sem ég fékk til að kveðja hana og eyða síðustu viku lífs hennar með henni. Mér fannst ég þó aldrei ná að koma því nægilega vel í orð hversu þakklátur ég er henni, þrátt fyrir að hafa minnt hana á það og reynt eins oft og ég gat.

Takk fyrir allt, elsku besta amma mín. Það verður tekið einstaklega vel á móti þér. Megir þú upplifa þann frið og hvíld sem þú átt skilið.

Það mun ekki líða sá dagur sem ég hugsa ekki til þín.

Lengri grein á www.mbl.is/andlat

Aron Ingi.