Hafdís Björk Jóhannesdóttir fæddist á Akureyri 27. september 1942. Hún lést á heimili sínu 28. mars 2025.

Móðir Hafdísar var Halldóra Þórhalla Lilja Aðalsteinsdóttir, f. 4. desember 1913, d. 25. júní 1991. Faðir Hafdísar var Jóhannes Brynjólfsson f. 7. desember 1913, d. 18. febrúar 1962.

Hafdís ólst upp fyrstu árin á Húsavík en fluttist síðan til Hafnarfjarðar með móður sinni sem giftist Sæmundi Elíasi Sigurðssyni, f. 7. desember 1916, d. 16. desember 1978.

Hafdís eignaðist þrjá bræður en þeir eru Viðar Sæmundsson, f. 12. febrúar 1946, Aðalsteinn H. Sæmundsson, f. 26. júní 1947, og Sigurður Sæmundsson, f. 15. febrúar 1950.

Hafdís giftist Eiríki Ólafssyni, f. 12. desember 1943, d. 14. ágúst 2010, en þau slitu samvistum upp úr aldamótum. Móðir Eiríks var Sigríður Ríkey Helgadóttir, f. 12. júlí 1917, d. 20. desember 1988.

Börn og afkomendur Hafdísar og Eiríks eru: 1) Elfar Jóhannes, f. 2. febrúar 1963, giftur Birgit Eriksen, f. 31. október 1967. Dóttir Elfars er Kolbrún Ágústa, f. 1997, gift Árnýju Alexöndru Þórhallsdóttur, f. 1998, og eiga þær soninn Anders Aron, f. 2024. Móðir Kolbrúnar er Anna G. Andersdóttir, f. 1960. 2) Sigríður Ríkey, f. 26. febrúar 1964, börn hennar eru a) Elísabet Eir Garðarsdóttir, f. 1982, gift Hinriki Þór Sigurðssyni, f. 1982. Börn þeirra eru Ísar Bjarki, f. 2005, Aron Valur, f. 2007, Árný Sara, f. 2010, og Andri Garðar, f. 2018. Faðir Elísabetar var Garðar Skúlason, f. 12. ágúst 1963, d. 4. nóvember 2010. b) Eiríkur Þór Halldórsson, f. 1990, giftur Hafrúnu Guðmundsdóttur, f. 1981. Eiríkur og Hafrún eiga saman dæturnar Evu Dís, f. 2022, og Írisi Júlíu, f. 2023. Fyrir átti Hafrún börnin Emilíu, Guðmund og Ásgeir. Faðir Eiríks er Halldór Þór Jónsson, f. 20. febrúar 1961. 3) Halldóra, f. 5. september 1973, gift Þór Sigfússyni, f. 28. mars 1971. Börn Halldóru og Þórs eru a) Sindri Snær, f. 1994, giftur Sif Arnarsdóttur, f. 1996. Börn þeirra eru Freyr Ferdinand, f. 2020, og Saga Röfn, f. 2021. b) Hafdís Lilja, f. 1998, sambýlismaður er Ýmir Rúnarsson, f. 1993. c) Hekla Sif, f. 2001, gift Bjarti Frey Eyþórssyni, f. 1998.

Hafdís dvaldi mörg sumur sem barn á Húsavík og í sveit á Hóli á Tjörnesi. Hún gekk í Barnaskóla Hafnarfjarðar við tjörnina og tók síðan gagnfræðapróf frá Flensborgarskóla. Hafdís vann í Kaupfélagi Hafnarfjarðar á sínum yngri árum. Einnig vann hún við fiskvinnslu, m.a. í Norðurstjörnunni í Hafnarfirði. Þegar Hafdís var gift Eiríki ráku þau útgerð saman og Hafdís sinnti bókhaldi sem viðkom henni. Hafdís endaði starfsævina á leikskólanum Tjarnarási. Hún sinnti einnig ýmsum félagsstörfum. Hún var m.a. í sóknarnefnd Hafnarfjarðarkirkju, mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar, bingónefnd í Hraunseli og heiðursmeðlimur í Hestamannafélaginu Sörla.

Hafdís bjó á Smyrlahrauni 19 frá árinu 1987 og frá árinu 2008 bjó hún þar með Aðalsteini bróður sínum.

Útför Hafdísar Bjarkar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 16. apríl 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.

Hvernig er hægt að skrifa um þá sem hafa verið manni kærastir? Það getur verið erfitt að rifja upp allar minningarnar frá æsku og vita að þær verða varla fleiri.

Mamma var sannur vinur vina sinna og hún var iðulega tilbúin að rétta hjálparhönd þeim sem á því þurftu að halda hverju sinni. Hún var mjög stolt af faðerni sínu, en faðir hennar var Jóhannes Brynjólfsson frá Hrísey, af ætt Hákarla-Jörundar sem var alltaf ofarlega í hennar huga. Nutum við systkinin þess að kynnast þeim ættboga frá Hrísey og eru stundirnar með systkinum afa Jóhannesar mjög eftirminnilegar þar sem ég var alltaf kallaður millinafni mínu, Jóhannes. Mamma bar ætíð sterkar tilfinningar til Húsavíkur enda ólst hún upp þar sín fyrstu ár uns hún fluttist með móður sinni, Halldóru Lilju Þórhöllu Aðalsteinsdóttur, til Hafnarfjarðar en tengingin var alltaf til staðar og minnist ég þess er hún talaði um vinnuna í beitningaskúrum sem krakki við að stokka upp línu fyrir sjómennina en þá byggðist Húsavík að mestu upp á útgerð og landbúnaði í sveitunum í kring.

Ég gæti skrifað langan pistil um mömmu og hennar líf en það var ekki alltaf auðvelt fyrir hana og sérstaklega eftir að pabbi veiktist reyndist það henni erfitt sem og öðrum fjölskyldumeðlimum en hún var ekkert fyrir það að bera erfiðleikana á torg og þurfti ég stundum að krefja hana svara til að fá að vita sannleikann en þannig var bara mamma.

Ég á mjög góðar minningar með mömmu og pabba í æsku og öll ferðalögin um landið hafa verið mér virkilega minnisstæð þar sem ferðast var með tjald í farteskinu og stendur þetta mjög upp úr mínum æskuminningum. Mamma hafði mikla ánægju af spilamennsku og eru minningar tengdar spilakvöldum hennar og vinkvenna mjög eftirminnilegar en þar var ekkert gefið eftir og mikið hlegið.

Mamma styrkti litla foreldralausa telpu frá Filippseyjum frá unga aldri allt fram til þess að hún lauk námi frá framhaldsskóla en hún stærði sig aldrei af því.

Við fjölskyldan vorum ætíð mjög tengd hestamennsku og man ég að um 1970 átti ég minn fyrsta hest og hélst það nánast alla tíð fram til 1999 en mamma og pabbi áttu sína hesta áfram. Mamma eignaðist meri, Söru Borgfjörð, sem gaf af sér afburðakeppnishesta, hérlendis sem erlendis.

Mamma starfaði alla tíð mikið í félagsmálum, í Vorboðanum, mæðrastyrksnefnd og ekki síst hestamannafélaginu Sörla þar sem hún var heiðursfélagi.

Barnabörnin og barnabörnin voru ætíð ofarlega í huga mömmu og er söknuður þeirra og missir mikill. Eftir stendur minningin um góða manneskju sem vildi öllum vel.

Elfar Jóhannes Eiríksson.

Elsku mamma mín.

Mér er svo illt í hjartanu og ég er svo sorgmædd. Það er svo mikil sorg að missa þig elsku mamma mín, ég var að vona að þessi dagur kæmi aldrei upp að þú færir frá okkur. Þú varst höfuð ættarinnar og sást um að það væri allt í lagi hjá öllum. Það var svo gaman að ég var kannski hjá þér fyrir klukkustund og svo vorum við farnar að hringja hvor í aðra eftir korter, bara til að heyra í hvor annarri aftur.

Elsku mamma mín, takk yfir að hafa alið börnin mín upp með mér, það er ómetanlegt eins og svo margt sem þú gerðir fyrir mig í lífinu. Ég elskaði þig, dáði og virti alla tíð og ég fór alltaf eftir því sem þú ráðlagðir mér í mínu lífi enda varstu fyrirmynd mín í lífinu.

Þú, ég og Alli vorum vön að fara upp í sumarbústaðinn hans Viðars alla páska og sumur. Hver á sofa í þinni holu í bústaðnum?

Elsku mamma, þú varst úr gulli gerð og það er enginn eins og þú þótt víðar væri leitað. Þú fylgdist alltaf mjög vel með þinni fjölskyldu og tókst mjög nærri þér ef eitthvað var ekki í lagi. Heimili þitt var stoppistöð okkar allra og ég tala nú ekki um þegar þú hafðir bakað pönnsurnar þínar eða marengsinn.

Ég skal passa að bjóða öllum í mat á þitt heimili og ég veit að þú verður með okkur þar. Ég skal líka passa að fara með Alla í sumarbústaðinn hans Viðars, fara til Elísabetar og Hinna þegar þau eru flutt í Reykholtið og Eiríks og Hafrúnar til Grundarfjarðar fyrir okkur báðar.

Elsku mamma mín, mér þykir svo vænt um allan tímann sem við fengum saman. Ég mun aldrei gleyma þér elsku hjartans mamma mín.

Ég mun ávallt elska þig og virða og þú verður með okkur alla tíð.

Góða ferð elsku mamma mín.

Þín dóttir,

Sigríður Ríkey.

Það er erfitt að finna orðin sem ná utan um söknuðinn og kærleikann sem býr í hjarta mínu þegar ég hugsa um mömmu. Hún var ein mikilvægasta og besta manneskjan í lífi mínu. Það var auðvelt að elska mömmu og hún var okkur fjölskyldunni ljós og hlýja í þessu lífi. Heimili hennar var skjól og athvarf og margir sem leituðu til hennar alla tíð.

Mamma var svo mikilvæg fyrir okkur öll. Hún var hjartað í fjölskyldunni. Hún var alltaf tilbúin til að hlusta, styðja og elska skilyrðislaust. Fjölskyldan var henni allt og það fór aldrei á milli mála. Hún fylgdist vel með sínu fólki og talaði um fólkið sitt með tár á hvarmi og af mikilli virðingu.

Það var einfalt að gleðja mömmu, hún þurfti ekki mikla fyrirhöfn, bara kaffi, pönnukökur og spjall og þá var hún í skýjunum. Allt fram á síðasta dag var hún að bjóða allri fjölskyldunni heim til sín til að eiga gæðastundir og hitta fólkið sitt. Mamma dæmdi engan og hennar hlýja og nærvera sköpuðu heimili þar sem öllum leið vel.

Ég er yngsta barnið þitt og naflastrengurinn á milli okkar slitnaði aldrei. Ég fór um allt með ykkur pabba og átti erfitt með að vera án þín. Hvort sem þið voruð að fara í utanlandsferðir með vinum ykkar eða á sjómannaböll þá fylgdi ég alltaf með og fann aldrei fyrir því að ég væri ekki velkomin. Eftir að ég kynntist Tóta þegar ég var 15 ára gömul þá fór hann að fylgja líka. Ef þið fóruð í útilegu eða sumarbústað þá brunuðum við á eftir. Ég er búin að njóta þeirra forréttinda að fá að búa í kjallaranum hjá þér þegar við byrjuðum að búa. Það auðveldaði mér að flytja að heiman í skrefum að þú værir ekki langt undan. Svo síðustu 20 árin er ég búin að búa í næsta húsi við hliðina á þér og börnin mín hafa heldur betur notið góðs af því. Amma hikaði ekki við að taka á móti þeim eftir skóla og jafnvel vinum þeirra og spældi egg eða annað eins fyrir skarann. Svo þegar ég byrjaði að vinna á leikskólanum Tjarnarási þá fékk ég þig til að koma að vinna þar líka. Alltaf svo gott að hafa þig nálægt.

Ég geymi allar þessar góðu minningar í hjarta mínu. Það verður erfitt að halda áfram án þín elsku mamma því þú varst svo mikil dásemd. Ég kveð þig í bili með þakklæti og kærleika. Elska þig mamma mín.

Þín

Halldóra.

Það eina sem er ljóst í þessu lífi er að einn daginn munum við öll deyja. Það versta er að í mínum huga myndi það sama ekki gilda um ömmu mína Hafdísi. Hún yrði einfaldlega alltaf til staðar. Foringinn, leiðtoginn, hjartað, miðjan og traust ættarinnar sem var okkur svo einstaklega mikilvæg og kær.

Hún var ekki nema 39 ára þegar ég fæddist. Hún tók mig þéttum og ástríkum örmum inn í líf sitt ásamt ungum foreldrum mínum og passaði upp á mig alla tíð. Ég á henni svo óendanlega margt í lífinu að þakka. Það leið ekki sá dagur sem ég heyrði ekki í ömmu eða að hún kæmi ekki við hjá okkur á Erluhrauninu til að athuga hvernig öllum liði. Hún var alvöruættmóðir og því afar erfitt að sætta sig við það að hún hafi farið svo snöggt úr lífi okkar. Af eigingirni spyr maður sig, af hverju strax? Fyrir mér var hún bara 82 ára. Maður á að vera þakklátur en ég vildi meira. Endalaust meira!

Amma var sérlega hrein og bein. Ef henni mislíkaði eitthvað, passaði hún að skipta sér ekki af en ef það var eitthvað mjög slæmt talaði hún skýra íslensku, í algjörri ró. Svo var það einfaldlega útrætt mál. Hún gerði aldrei kröfur eða ætlaðist til neins. Hún uppskar svo sannarlega með því að vera afar vinsæl og eftirsótt af fjölskyldunni. Meira að segja ef hundurinn stakk af þá fór hún til ömmu, þar var jú alltaf eitthvað gott að fá.

Það er mér minnisstæð stund þegar við fórum saman í Palóma sem endaði þannig að við keyptum alveg eins kjól og jakka. Það var töff að vera eins og amma. Og svo auðvitað ferðina okkar til Glasgow þegar við fórum bara tvær einar. Einnig voru margar og dýrmætar Svíþjóðarferðirnar sem hún kom til okkar þegar við bjuggum þar. Hún kom alltaf með stútfullar töskur af íslensku góðgæti, mat og gjöfum. Einnig stóðu dyrnar hennar alltaf galopnar þegar við komum til Íslands og fengum alltaf að búa hjá henni.

Nú erum við fjölskyldan að flytja í sveitina en í því verkefni fundum við fyrir miklum stuðningi og hvatningu frá ömmu en ég veit að henni þótti samt erfitt að missa okkur svo langt frá sér. Við ákváðum að hún myndi eyða miklum tíma hjá okkur í sveitinni í sumar og ég hlakkaði einstaklega mikið til að fá að stjana við hana ásamt mömmu og Alla, en þær eru búnar að hugsa svo einstaklega vel um Alla í hans veikindum.

Elsku amma mín, það er svo sannarlega áfall lífs míns að hafa misst þig enda áttum við einstakt samband. Það er erfitt að halda lífinu áfram án þess að hafa þig með í einu og öllu en eitt máttu vita að við munum halda minningu þinni hátt á lofti um ókomna tíð sem mun ylja okkur og gleðja allt lífið. Við munum einnig passa að standa saman sem stórfjölskylda og halda áfram fjölskylduhittingunum sem þú passaðir svo vel upp á með þínum óteljandi matarboðum sem voru þér og okkur svo mikils virði.

Takk fyrir allt sem mig og fjölskyldu minni hefur hlotnast af samveru þinni og ást í gegnum lífið. Þú styrktir mig og hertir og er ég að springa úr þakklæti yfir að hafa alltaf átt þig að í lífinu.

Ég elska þig og sakna þín sárt.

Þín dóttir og dótturdóttir,

Elísabet Eir Garðarsdóttir.

hinsta kveðja

hinsta kveðja

Elsku amma mín.

Amma var hjartað í fjölskyldunni. Alltaf með hlýtt faðmlag, pönnukökur á borðinu og hlýju í röddinni.

Hún tók utan um alla sem komu nærri með kærleika sem aldrei gleymist.

Hún skilur eftir sig fjölskyldu sem hún má vera stolt af. Við berum áfram minninguna um hana í orðum, gjörðum og samverustundum.

Milljón ósögð orð, hlakka til að deila þeim með þér einn daginn.

Guð geymi þig, elsku amma, takk fyrir allt.

Kær kveðja,

Aron Valur.

Elsku amma mín.

Þú varst svo góðhjörtuð, elskuleg, klár, æðisleg og ofboðslega falleg. Svo varstu svo náttúrulega fyndin, þótt þú hafir ekki verið að reyna að grínast tókst þér einhvern veginn alltaf að láta okkur hlæja.

Þú varst ábyggilega minn stærsti stuðningsmaður í hestamennskunni og ég vil þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig.

Ég mun alltaf elska þig og geyma í hjarta mínu.

Takk fyrir allt saman. Ég hlakka til að sjá þig aftur.

Árný Sara.

Elsku amma mín – drottning og miðja fjölskyldunnar. Heppin vorum við öll að fá að kynnast þér, góðri nærveru þinni og bröndurum þínum (áttu kannski ekki alltaf að vera brandarar, en mjög fyndnir engu að síður!).

Lengi mun minning þín lifa og halda áfram að koma okkur öllum saman, elsku engill.

Takk fyrir stundirnar okkar saman, ég hlakka til að leyfa þér að fylgjast með mér að ofan.

Ég elska þig, amma!

Ísar Bjarki.

Takk fyrir allar pönnukökurnar sem þú gerðir fyrir mig. Takk fyrir að vera alltaf svona góð við mig og alla hina. Allir sem þú þekktir eru mjög leiðir núna. Við völdum fallega kistu fyrir þig og ég ætla að setja blóm og mynd í kistuna þína.

Amma Sigga er að passa húsið þitt. Við hittumst aftur þegar ég dey.

Ég elska þig góða langamma mín.

Andri Garðar Hinriksson.