Jóhann Helgason húsasmiður, Jói í Syðstabæ, fæddist í Ólafsfirði 1. október 1940. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Siglufirði 1. apríl 2025.

Foreldrar hans voru Helgi Jóhannesson, smiður með meiru, f. 20.12. 1893, d. 26.2. 1978, og Guðrún Pálína Jóhannsdóttir, húsfreyja, f. 20. 10. 1897, d. 26.12. 1991. Systkini Jóhanns eru Guðrún Hulda, f. 1917, d. 2015, Sigurbjörg, f. 1919, d. 2005, María Sigríður, f. 1920, d. 2010, Jófríður, f. 1922, d. 2015, Sigríður, f. 1924, d. 2017, Sumarrós Jóhanna, f. 1926, d. 2020, Helga, f. 1927, d. 1941, Sesselja Jóna, f. 1931, Guðlaug, f. 1933, Ásta, f. 1937, og Viðar, f. 1938, d. 1979. Jóhann var því yngstur af 12 systkinum og þrjár eldri systur lifa hann.

Börn Jóhanns eru Aðalbjörg Ólafsdóttir, f. 1961, Magnús Guðmundur Ólafsson, f. 1962, Helgi Jóhannsson, f. 1964, og Guðrún Pálína Jóhannsdóttir, f. 1969. Eiginkona Jóhanns var Hildur Magnúsdóttir, f. 7. febrúar 1942, d. 25. maí 2019. Hildur og Jóhann gengu í hjónaband 26. desember 1964. Heimili þeirra var að Vesturgötu 14, þar áður lengst af í Aðalgötu 29 í Ólafsfirði.

Jóhann lést á Sjúkrahúsinu á Siglufirði umvafinn ást og hlýju 1. apríl sl. eftir erfið veikindi.

Útför verður frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 16. apríl 2025, klukkan 13.30.

Elsku Jói tengdapabbi kvaddi okkur þriðjudaginn 1. apríl og sameinaðist Hildi sinni í sumarlandinu.

Í upphafi var Jói ekki sáttur við val sonarins á konu en það breyttist fljótt. Við urðum afskaplega góðir vinir og gátum rætt saman um alls konar mál, persónuleg, viðkvæm og allt þar á milli. Við heilsuðumst yfirleitt á sama veg hvort sem hann kom í Hlíðarveginn eða ég í Vesturgötuna og ég sagði: Hvað segir þú? „Fátt þá segir einum af,“ sagði hann ævinlega.

Á þessum 35 árum sem við höfum átt samleið hefur auðvitað ýmislegt á dagana drifið. Við Helgi nutum þess sannarlega að eiga þau Hildi að, ekki síst þegar ég fór í kennaranámið. Barnabörnin nutu þess að eiga að ömmu og afa sem voru alltaf til staðar og ekki síst Jódís Jana sem var mikið í Vesturgötunni og naut þess að vera með afa og ömmu og vafði þeim um fingur sér.

Áður en ég kynntist Jóa hafði hann glímt við þunglyndi og bakveiki sem reyndi mikið á bæði hann og fjölskylduna. Jói glímdi líka við mikla innilokunarkennd/fóbíu sem hamlaði honum á ýmsa vegu. Hann greindist svo með parkinson fyrir áratug og ristilkrabbamein í fyrra sem tók sig upp og hafði dreift sér í lifrina. Dæmi um húmorinn í Jóa, sem sagði við þær fréttir „að þar væri nú ábyggilega ekki við drykkjuskap að sakast“ enda bindindismaður alla tíð.

Við Jói deildum áhuga á enska boltanum þótt við héldum hvort með sínu liðinu. Hann var mikill íþróttamaður sjálfur á árum áður og spilaði með Leiftri og oft rifjuðu þeir Helgi upp heilu fótboltaleikina í smáatriðum. Hann og Helgi fóru í pílagrímsferð til Anfield þegar hann varð sextugur og hafði hann mjög gaman af. Hann fór líka fyrir því að byggt yrði félagshús við knattspyrnuvöllinn og skildu þeir feðgar eftir ansi mörg handtök og tíma við að koma því upp.

Jói var smiður, afskaplega vandvirkur og vildi hafa hlutina alveg upp á punkt og prik. Þegar hann var „hættur“ að vinna smíðaði hann m.a. arna sem mörg í fjölskyldunni og fleiri eiga. Hann hjálpaði heldur betur til þegar við Helgi keyptum gamla pósthúsið í Ólafsfirði og gerðum þar gisti- og kaffihús. Gistieiningin fékk nafnið Gistihús Jóa en kaffihúsið Kaffi Klara sem starfar undir síðarnefnda nafninu í dag.

Jói var mikill vísnamaður og hér er ein góð:

Jói Helga fyrstur inn á gólfið gekk,

glæsilega tyllti hann sér niður á bekk.

Ungu frúrnar horfðu á þennan
glæsilega svein,

ein eða tvær ráku upp stórkostleg vein.

Jói greip Hildi oft á eldhúsgólfinu í dans og hóf upp raust sína, gjarnan bara eina setningu þó, man ég sérstaklega eftir laginu „La donna è mobile“. Þetta er líklega í blóðinu því Helgi minn grípur mig gjarnan í dans á eldhúsgólfinu líka.

Við Jói gerðum saman sviðasultu fyrir hver jól og nutum samverunnar. Nú verður breyting á og gott að geta yljað sér við minningarnar.

Ást og væntumþykja kalla fram sorg og söknuð en líka minningar um ljúfar samverustundir, sem er svo óendanlega mikilvægt. Tilveran verður óneitanlega öðruvísi án þín en minningin um hlýjan, hjálpsaman og góðan tengdapabba geymi ég í hjarta mínu.

Þín tengdadóttir,

Bjarkey.