Anna Margrét Hólm fæddist 18. apríl 1955. Hún lést 4. apríl 2025.

Útför Önnu Margrétar fór fram 15. apríl 2025.

Anna frænka mín var mér svo miklu meira en bara frænka, þar sem hún reyndist mér ómetanlegur vinur og stuðningur í lífinu. Eftir að pabbi minn féll frá einsetti Anna frænka sér það að vera til staðar fyrir mig. Þá var ekkert sem ég gat ekki rætt við hana enda var hún með eindæmum úrræðagóð og alltaf með svar við öllu. Anna frænka hafði líka meiri tíma en flestir til að vera til staðar þar sem hún átti ekki börn eða mann. Systir Önnu, Steina, sagði mér svo á dögunum að hún hefði verið með gælunafn fyrir mig, þar sem hún vísaði til mín sem fósturdóttur sinnar sem mér þykir sérlega fallegt. Ég veit það að pabbi minn yrði óendanlega þakklátur Önnu fyrir þessa miklu hlýju sem systir hans sýndi mér, sérstaklega á erfiðum tímum í mínu lífi.

Anna frænka hafði þannig mikil áhrif á mig og þau sem nutu þeirrar ánægju að kynnast henni. Mér mun alltaf finnast hún vera með mér og bý að þeim styrk og hvatningarorðum sem hún gaf mér. Því að hún var alltaf að stappa í mig stálinu og hreinlega neitaði að líta á hindranir sem óyfirstíganlegar, enda mikil baráttukona sjálf. Þá er hún mér mikil fyrirmynd í að takast á við lífið með stillingu og staðföstum vilja og mun ég ætíð minnast hennar með hlýju fyrir. Núna verður mér til dæmis hugsað til þess þegar ég hringdi eitt sinn í Önnu síðastliðið haust en þá var ég búin að vera svo lasin að ég missti röddina en þrátt fyrir raddleysið varð ég að hringja í Önnu frænku og var það ekki lítið sem við gátum hlegið að því í framhaldinu.

Það sem gerði Önnu svo sérstaka var hversu einstakt lag hún hafði á að gefa af sér og veita manni hvatningu. Hún var sú manneskja sem gat alltaf séð það besta í mér, jafnvel þegar ég var full efasemda. Hún sagði alltaf við mig að ég gæti áorkað öllu sem ég tæki mér fyrir hendur og trúði jafnvel meira á mig en ég gerði sjálf. Ég man eftir mörgum stundum þar sem hún hjálpaði mér að sjá nýja möguleika og hvatti mig til að stíga út fyrir þægindarammann. Þá var hún alltaf tilbúin að hlusta og sýna ríkan skilning, auk þess að gefa góð ráð, en hún sýndi aldrei dómhörku heldur var hún alltaf með mér í liði sem yfirklappstýran í mínu lífi. Þannig hafði hún einstakt lag á því að segja réttu orðin til að hvetja mig áfram.

Ég verð Önnu ævinlega þakklát fyrir að taka mig að sér eins og hún gerði og kveð kæra frænku með söknuði og ást.

Ólafía Þyrí Hólm
Guðjónsdóttir (Lóa).

Það voru forréttindi að fá að alast upp með Önnu móðursystur okkar. Hún var klettur sem var alltaf til staðar til að veita hjálp, ráð og annað sem hún gat gert fyrir okkur bræðurna. Það var ósjaldan sem hún passaði okkur guttana á yngri árum og við minnumst ótal dýrmætra stunda. Anna gekk okkur í raun í ömmustað og fyrir það erum við óendanlega þakklátir. Hún lá aldrei á skoðunum sínum og kenndi okkur þrautseigju og þrjósku og þá ófrávíkjanlegu reglu að hætta ekki við hálfnað verk.

Það komu stundir hjá okkur í háskólanámi okkar þar sem við töldum bara best að hætta og snúa okkur að öðru og léttara verkefni. Það hlaut lítinn hljómgrunn hjá frænku okkar sem þoldi illa stefnuleysi og aumingjaskap og kenndi okkur að mennt er máttur. Hún hafði auðvitað alltaf rétt fyrir sér og í fjölskyldunni varð til orðatiltækið „hvað mundi Anna gera?“.

Margar eru minningarnar og sporin sem hún skilur eftir sig í hugum okkar og hjörtum. Við kveðjum Önnu með söknuði og þakklæti fyrir allt sem hún gerði fyrir okkur. Hvíldu í friði, elsku Anna okkar.

Benedikt Hólm Þórðarson og Matthías Hólm
Þórðarson.

Nokkrir áratugir eru síðan við Anna Margrét hittumst fyrst. Það var í Útideild Reykjavíkur, sem þá var og hét. Hún starfaði þar sem félagsráðgjafi og ég var nýútskrifaður leikhúsfræðingur, sem stóð í bralli á nokkrum vígstöðvum, til að finna mér viðurværi og tilgang.

Störf okkar í Útideildinni voru um margt áþekk, þó að hún væri sérmenntuð en ég ekki annað en réttur og sléttur áhugamaður um uppeldismál.

Anna Margrét hafði næman skilning á aðstæðum og erfiðleikum þeirra unglinga sem við hittum. Hún var glögg á hvað væri að plaga ungviðið. Hins vegar var hún blessunarlega laus við alla fræðilega fjarlægð. Slík framkoma var henni framandi. Nálgun hennar var alltaf manneskjuleg, sem er svo dýrmætt og skiptir oft sköpum, hún fór aldrei með þurrar vandlætingarrullur um hvað fólki væri fyrir bestu. Aftur á móti hafði hún ýmsar skoðanir á því hvað skjólstæðingum okkar væri fyrir bestu, en það lét hún í ljós með glettni og velviljuðum athugasemdum, án nokkurs „besserwisserei“.

Með gamansemi, hlýju og manneskjulegheitum náði hún að mynda traust og góð tengsl.

Við Anna unnum náið saman með stelpnahópana. Sá notalegi andi sem fylgdi henni átti drjúgan þátt í að starfið skilaði árangri. Við nutum þessa samstarfs mjög og það færði okkur dýrmæta reynslu. Þetta var í raun frumkvöðlastarf, þar sem lögð var áhersla á sjálfsstyrkingu ungra stúlkna, löngu fyrir allar þær sjálfshjálparbækur sem við þekkjum í dag. Í þessu nána samstarfi festi vinskapur okkar rætur, sem lágu djúpt og héldu alla tíð.

Þegar ég kom í heimsókn frá útlöndum, þar sem ég hef verið búsett undanfarin ár, átti ég jafnan vísan stað hjá þér, í sófanum eða „svítunni“, sem þú útbjóst svo hugvitssamlega. Þar var gott að vera.

Ekki skorti nú umræðuefnin, svo ótalmargt sem við þurftum að ræða, spá í og spekúlera. Athugasemdirnar flugu og hlátrasköllin glumdu um húsið. Og ekki var það síðra þegar við vinkonurnar fórum saman á „happy hour“, til að skerpa aðeins á skilningarvitunum og freista þess að ráða rúnir tilverunnar.

Kæra Anna. Það er sárt að þú skulir vera farin, þú sem einmitt varst kyndilberi manngæsku. Kyndilberi á vel við, því ég mun alltaf minnast þín með logandi rauða hárið, freknurnar og stríðnislega brosið. Rauða hárið þitt minnti líka á kraftinn og fjörið sem einkenndi þig áður en veikindin tóku að herja á þig af fullum þunga. Ég kveð þig, elsku vinkona, með söknuði og þakklæti fyrir að vera alltaf tilbúin að hlusta og styðja mig þegar ég rataði á krákustíga. Systkinum þínum og öðrum aðstandendum votta ég innilega og djúpa samúð.

Þín vinkona,

Svala.

„Það syrtir að er sumir kveðja,“ segir í einu ljóði Davíðs Stefánssonar. Það átti svo sannarlega við þegar mér barst frétt um andlát vinkonu minnar Önnu Margrétar Guðbjartsdóttur.

Andlátið kom þó kannski ekki á óvart, því Anna Margrét hafði tekist á við veikindi stóran hluta ævinnar. Veikindin þyngdust með árunum, en í því stríði sýndi hún hreint ótrúlega seiglu. Undir lokin var þó þrekið þrotið og baráttan tapaðist.

Anna var félagsráðgjafi að mennt og starfaði sem slík hjá Reykjavíkurborg. Þar hófst vinskapur okkar. Hún var afar faglegur og úrræðagóður félagsráðgjafi, sem leitaði alltaf að lausnum mála fyrir hvern sem í hlut átti. Á þeim árum áttum við margar góðar stundir, sem bæði tengdust vinnu og ferðalögum samstarfsfólks, bæði innanlands og utan.

Nú vil ég þakka fyrir allar þessar góðu og glöðu samverustundir og einlæga vináttu okkar í milli.

Guðrún Árnadóttir.

Kær vinkona hefur kvatt þessa jarðvist.

Kynni okkar hófust í námi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og þróuðust fljótt í dýrmæta vináttu.

Allar götur síðan höfum við vinkonurnar haldið sambandi og átt margar góðar og skemmtilegar samverustundir. Hlýjar minningar rifjast upp og minnumst við Önnu með miklum söknuði.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Við þökkum Önnu hjartanlega fyrir samfylgdina og sendum systkinum hennar og öðrum fjölskyldumeðlimum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Anna og Margrét.