Bjarney María Gústafsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 7. febrúar 1953. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á krabbameinsdeild Landspítalans 5. apríl 2025.
María var einkabarn hjónanna Gústafs Sigurjónssonar, f. 15.8. 1926, d. 16.4 2006, og Aðalheiðar Hjartardóttur, f. 27.4. 1930, d. 12.3. 2012.
María giftist Kristjáni Birgissyni vélstjóra, f. 20.5. 1952, þann 25.12. 1976.
Börn Maríu og Kristjáns eru: 1) Aðalheiður, f. 11.9. 1973, sonur hennar Gústaf, f. 18.2. 2020. 2) Jóna Dís, f. 17.5. 1976, eiginmaður Steingrímur Jóhannesson, f. 14.6. 1973, d. 1.3. 2012. Dætur þeirra: Kristjana María, f. 13.9. 1997, sambýlismaður Stefán Marteinn, f. 19.8. 1993, og Jóhanna Rún, f. 29.10. 2007. 3) María Ýr, f. 5.1. 1981. 4) Gústaf, f. 31.8. 1983, sambýliskona Silja Rós Guðjónsdóttir, f. 24.7. 1987. Börn þeirra eru: Guðjón Elí, f. 30.11. 2009, Sara Kristey, f. 24.8. 2015, og María Steiney, f. 3.4. 2017. 5) Kári Kristján, f. 28.10. 1984, eiginkona Kristjana Ingibergsdóttir, f. 18.4. 1984, börn þeirra eru: Klara, f. 5.3. 2008, og Kristján Kári, f. 28.2. 2013.
Mæja, eins og hún var ætíð kölluð, bjó og starfaði í Eyjum alla sína ævi.
Útför hennar fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 19. apríl 2025, klukkan 14.
Elsku besta mamma mín.
Mér finnst þetta svo ósanngjarnt og get ekki sætt mig við þetta.
Þú barðist eins og hetja, svo að eftir var tekið, en fékkst ekki meiri tíma. Tekin svo snögglega frá okkur.
Okkar samskipti voru mikil og ekki hægt að fylla upp í skarðið og tómarúmið sem hefur nú þegar myndast.
Ég veit að ég á að vera þakklát fyrir allar minningarnar okkar.
Húmorinn þinn var svo lúmskur og skemmtilegur og fengum við einnig að njóta hans á spítalanum í gegnum þessa erfiðu baráttu!
Þú varst svo mikil mamma, alltaf að kenna okkur að takast á við þá erfiðleika sem lífið hefur upp á að bjóða, óska okkur samheldni, sýna okkur ást og umhyggju og umvefja okkar þegar við þurftum á að halda
Takk fyrir allt.
Til himnaríkis ég sendi,
þér kveðju mamma mín.
Á því virðist enginn endi,
hve sárt ég sakna þín.
Þú varst mín stoð og styrkur,
þinn kraftur efldi minn hag.
Þú fældir burtu allt myrkur,
með hvatningu sérhvern dag.
Nú tíminn liðið hefur,
en samt ég sakna þín.
Dag hvern þú kraft mér gefur,
ég veit þú gætir mín.
Góða nótt elsku besta mamma mín, þar til við hittumst á ný.
Þín
María Ýr.
Elsku mamma mín.
Hversu ósanngjarnt getur lífið verið? Ég skil ekki af hverju þú varst tekin frá okkur svona snemma og svona snöggt. Sjúkdómurinn var grimmur en þú barðist eins og hetja með óendanlegri jákvæðni en hann tók þig frá okkur einungis tveimur vikum eftir greiningu.
Mamma, við gátum talað endalaust saman um allt og ekkert. Við vorum ekki alltaf sammála en tókum mjög fljótt þá ákvörðun um að vera sammála um að vera ósammála, en við vorum sannarlega mjög oft á sömu blaðsíðu þegar kom að hlutum og málefnum.
Ég er svo þakklát fyrir allt sem við áttum saman og gerðum saman, öll símtölin okkar sem pabbi sagði reyndar að við töluðum svo hátt að við þyrftum ekki síma. Hversu oft datt okkur í hug að nauðsynlegt væri að breyta heima hjá okkur og þá varð stofan oftar en ekki fyrir valinu. Þetta þurftum við auðvitað að gera strax og svo hringdum við að sjálfsögðu strax og lýstum hvor fyrir annarri hvað við höfðum gert. Núna seinni ár tókum við myndir og sendum á milli, þá gátum við fengið hugmyndir og skoðanir hvor frá annarri. Þú vildir hafa á ská en ég vildi hafa allt beint. Mamma, ég lofa að hætta ekki að breyta en það verður bara svo miklu einmanalegra án þín.
Elsku mamma mín, ég er svo þakklát fyrir hversu góðar vinkonur við vorum og fyrir allar stundirnar okkar saman og öll símtölin. Er svo þakklát fyrir að undanfarin ár hef ég gefið þér og pabba jólagjöf sem var samverustundir með okkur mæðgum og með gjöfinni fylgdi bók sem ég hafði skrifað í allt sem ég vildi segja ykkur. Þar sagði ég ykkur hversu mikið ég elskaði ykkur, þið eruð búin að vera klettarnir í lífi mínu og stelpnanna minna. Þið björguðuð lífi okkar með ást og umhyggju þegar Steingrímur okkar veiktist og dó. Án þín, mamma, værum við mæðgur ekki þar sem við erum í dag. Þú studdir okkur endalaust og hvattir okkur áfram.
Mamma, ég trúi því ekki að Heimakletturinn minn sé farin frá mér.
Ég gæti sagt svo miklu meira en geymi fallegar minningar í hjarta mínu. Ég lofa að passa pabba fyrir þig og þú kyssir Steingrím minn frá mér.
Elska þig mamma mín, þín stelpa,
Jóna Dís.
Elsku Mæja mín, ég veit varla hvar ég á að byrja þar sem ég er enn að reyna að meðtaka það að þú sért farin frá okkur. Höggið er stórt fyrir Kidda þinn, börnin þín, tengdadætur og barnabörnin sem öll elskuðu þig meira en allt.
Ég var nú bara 17 ára stelpuskott þegar ég kom inn í fjölskylduna ykkar. Á þessum tuttugu árum hefur þú ávallt reynst mér og mínum vel og verið til staðar fyrir mig á mínum bestu og verstu tímum, bæði í gleði og sorg. Það var alltaf gott að leita til þín og spjalla við þig um allt mögulegt enda með eindæmum ráðagóð og réttsýn. Betri ömmu er erfitt að finna, vildir allt fyrir barnabörnin þín gera, hvort sem það var að skella sér á gólfið með þeim í leik eða græja allar þær dýrindiskræsingar sem þau óskuðu eftir, því var bara reddað hjá ömmu.
Söknuðurinn er mikill og veruleiki okkar allra breyttur en segja má að þú hafir verið límið í fjölskyldunni. Ekki áttum við von á að þetta færi svona og myndi gerast svona hratt eins og raunin varð en þú varst ótrúlega sterk og dugleg í þessum erfiðu og kvalafullu veikindum sem þú glímdir við. Þetta voru svo ósanngjörn endalok að það er erfitt að sætta sig við niðurstöðuna, þú áttir eftir að gera og upplifa svo margt sem þú og Kiddi höfðuð planað saman. Það var fallegt að sjá Kidda standa við hlið þér eins og klettur í veikindunum og sjá hvað hjónaband ykkar var byggt á sterkum grunni.
Takk fyrir allt saman, elsku Mæja, verð þér ávallt þakklát fyrir allt sem þú varst mér og mínum og gafst okkur. Við munum hlýja okkur við allar þær yndislegu minningar sem við eigum saman.
Elska þig og sakna þín, þín tengdadóttir,
Silja Rós Guðjónsdóttir.
Elsku hjartans Mæja mín, fallega og góða tengdamamma mín. Það er bæði erfitt og svo óraunverulegt að skrifa um þig minningargrein. Litla smágerða dásemdin okkar með sterku en réttsýnu skoðanirnar, húmorinn, fallega brosið og fasta og hlýja faðmlagið. Með þér var allt betra. Það er ekki sjálfgefið að eiga í góðu sambandi við tengdamömmu sína alla tíð og fyrir það er ég afar þakklát.
Það kemst ekki fyrir í smá texta allt það fallega og góða sem ég gæti skrifað um þig. Þú varst ekki bara einstök tengdamamma, þú varst líka einstök mamma og dásamleg amma. Það var ekkert sem þú gerðir ekki fyrir elskurnar þínar eins og þú kallaðir þau, allt mátti hjá ömmu og afa. Missir þeirra er óbærilegur. Þú varst líka mikil vinkona mín og til þín gat ég alltaf leitað, sama hversu merkilegt eða ómerkilegt umfjöllunarefnið var. Við gátum talað endalaust saman, hvort sem það var í símann eða við eldhúsborðið. Alltaf varstu með útbreiddan faðminn og til staðar.
Ég veit ekki alveg hvernig við hjörðin þín förum að án þín en Kiddi þinn passar vel upp á alla og ég veit að þú værir stolt af honum eins og alltaf, enda einstaklega góð og samrýmd hjón. Það var alltaf fallegt að fylgjast með sambandi ykkar, endalaus ást, rómantík og virðing.
Lífið getur oft verið svo ósanngjarnt og ömurlegt og það var sárt að horfa á þig verða svona lasna, en þú varst algjör nagli og barðist endalaust. Þú ert hetjan okkar. Ég sé hvaðan Kári okkar hefur hörkuna og þrautseigjuna.
Ég lofa að umvefja Kidda þinn af allri þeirri ást sem ég á til, Kára þinn og elskurnar þínar Kidda yngri og Klöru. Ég elska þig og sakna þín svo sárt.
Góða nótt, gullið mitt.
Þín
Kristjana (Kiddý).
Elsku amma Mæja, þú varst besta amma í öllum heiminum, alltaf svo góð og best við okkur og vildir allt fyrir okkur gera. Við vitum að englarnir eru að passa þig og að þú gætir okkar. Elskum þig meira en allt elsku besta amma okkar.
Kveðja til ömmu
Þú varst okkur amma svo undur góð
og eftirlést okkur dýran sjóð,
með bænum og blessun þinni.
Í barnsins hjarta var sæði sáð,
er síðan blómgast af Drottins náð,
sá ávöxtur geymist inni.
Við allt viljum þakka amma mín,
indælu og blíðu faðmlög þín,
þú vafðir oss vina armi.
Hjá vanga þínum var frið að fá
þá féllu tárin af votri brá,
við brostum hjá þínum barmi.
Við kveðjum þig elsku amma mín,
í upphæðum blessuð sólin skín,
þar englar þér vaka yfir.
Með kærleika ert þú kvödd í dag,
því komið er undir sólarlag,
en minninga ljós þitt lifir.
Leiddu svo ömmu góði guð
í gleðinnar sælu lífsfögnuð,
við minningu munum geyma.
Sofðu svo amma sætt og rótt,
við segjum af hjarta góða nótt.
Það harma þig allir heima.
(Halldór Jónsson frá Gili)
Þín barnabörn,
Guðjón Elí, Sara Kristey og María Steiney.