Kristjana Sigmundsdóttir fæddist 28. júlí 1956. Hún lést 29. mars 2025.
Útför Kristjönu fór fram 15. apríl 2025.
Við Huginn flugum um á milljón kílómetra hraða í rosalegum herþotum í litlu trjárjóðri í Breiðholtinu einhvern sérstaklega hrottalegan sunnudagsmorguninn. Fimbulkuldi og ekkert nema bláhvítur snjórinn allt um kring.
Herra … það er ekkert skyggni, ekkert skyggni, endurtek … ekkert skyggni.
Þutum hvor framhjá öðrum, sáumst samt aldrei …
Það var nefnilega snjóstormur af verstu sort, en við Huginn sáum það bara sem tækifæri til þess að gera góðan leik enn betri.
Herra … mér er svolítið kalt á puttunum … herra ég gleymdi vettlingum.
Það mátti sko ekkert stoppa leikinn, svo vitaskuld hélt hann bara áfram.
Koddu … bzzz … buuzzz … koodddduu … skjól … krass … undir trénu …
Í vindjakka með trefil undir grenitré í snjóstormi var orðið svolítið kalt til að vera að fljúga um á milljón … kannski væru flaugarnar bara báðar að fara að brotlenda … en þær ætluðu þó að reyna fyrst að bíða af sér storminn.
Öll von var úti. Puttarnir allir dottnir af og nefið orðið svart af kuli. Örugglega.
En í storminum vottaði fyrir einhverju … var þetta? Nei? Óvinir? Nei … Súpermann? Já, orðin heitari. Upp úr snjóstorminum braust björgunarflaugin! Amma með húfur og vettlinga og loforð um heitt kakó á höfuðstöðvunum.
Já! Amma okkar kom nefnilega hlaupandi út til okkar á peysunni í enn einn björgunarleiðangurinn. Það skiptir ekki máli hversu oft þú komst þér í sama vesenið, hversu illa staddur þú varst. Það hefði ekki einu sinni skipt máli hver þú varst. Ef eitthvað amaði að gastu stólað á það að amma okkar var alltaf með pláss fyrir þig undir arminum. Því amma var og verður alltaf ofurhetja.
Þór og Huginn.
Elsku stóra systir mín er dáin.
Þegar maður fær svona fréttir stendur allt í stað og maður spyr sig hvað í veröldinni gerðist.
Kristjana var mjög verndandi systir, alltaf brosandi, sáttasemjari ef eitthvað var að, yndisleg að öllu leyti.
Kristjana og ég vorum mjög nánar, ef eitthvað gerðist hjá annarri þá fékk hin að vita, en við gátum talað um allt, sama hvað.
Við vorum fjögur systkinin, einn bróðir, Júlíus og þrjár systur Kristjana, ég og María, nú er stórt skarð hoggið í okkar hóp.
Margar minningar koma upp í hugann frá því við vorum litlar og fram til dagsins sem ég talaði síðast við hana en það var 27. mars sl.
Þegar við vorum litlar sváfum við saman tvær í herbergi með höfðagaflana saman. Ég var mjög myrkfælin og þegar við vorum komnar upp í rétti ég hendina yfir til hennar og hún hélt í hana þar til ég sofnaði.
Það voru fjögur ár á milli okkar og hún lék oft við mig í Barbie, en það gerði hún fyrir mig, hún hafði sagt að ef ég segði vinkonum hennar frá því myndi hún hætta að leika við mig. Svo einhvern tímann var ég fúl út í hana og kjaftaði frá og tapaði því leikfélaga í Barbie. Við hlógum oft að þessu.
Tíminn leið, Hjalli mágur birtist og ég eignaðist góðan mág og þau byrjuðu sína lífsgöngu saman.
Þegar ég eignaðist dóttur mína 1981 fór ég beint af deildinni til Kristjönu systur til að sýna henni stelpuna mína, þegar ég flutti á Hjaltabakkann hjálpaði Kristjana mér að flytja.
Þegar Berglind mín var fimm ára var það Kristjana sem kenndi henni að hjóla.
Svona má lengi telja, við að hittast, hringjast á, fara á kaffihús o.s.frv. Og það sem við glöddumst þegar börnunum fjölgaði, svo ekki sé nú minnst á þegar barnabörnin komu.
Árið 2020 var mjög erfiður tími fyrir mig en það ár missti ég manninn minn hann Magga, þegar ég vissi að hverju stefndi fór ég til Kristjönu til að fá styrk og huggun. Nú fimm árum seinna fer hún.
Það sem við eigum eftir að sakna hennar og ég á oft eftir að taka símann upp til að hringja í hana og segja henni fréttir. Hvar er sanngirnin í þessu? þetta verður með því erfiðasta sem hægt er að standa frammi fyrir.
Elsku Hjálmar, Páll, Bryndís Erla, Ármann Helgi, makar og börn, ykkur sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur og faðmlag.
Enda ég minningarorðin á uppáhaldssálmi hennar.
Drottinn er minn hirðir, mig mun
ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig
hvílast,
leiðir mig að vötnum þar sem ég má
næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um réttan veg fyrir sakir
nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal
óttast ég ekkert illt því þú ert hjá
mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.
Þú býrð mér borð frammi fyrir
fjendum mínum,
þú smyrð höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Já, gæfa og náð fylgja mér alla
ævidaga mína,
og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
(23. Davíðssálmur)
Ávallt saknað og aldrei gleymd.
Góða ferð, elsku Kristjana systir með stóra hjartað.
Hvíl í friði.
Þín
Jóhanna systir.
Það er með söknuði og djúpri virðingu sem við kveðjum kæra saumaklúbbsvinkonu, sem í 50 ár var ómissandi hluti af lífi okkar. Hún var einstök kona, skemmtileg, hláturmild og hreinskilin. Hún sagði hlutina eins og þeir voru, alltaf með hlýju og góðvild í hjarta. Hún hafði einstakt lag á að gera hvern saumaklúbb að einstökum samverustundum. Handavinnan var hennar ástríða, og margir tímar fóru í að skapa falleg listaverk. Eitt af hennar stóru verkum, Bútasaumsteppið, var okkur öllum hugleikið. Við fylgdumst með því vaxa með hverjum fundi og nutum þess að sjá hana ljúka því af með stolti.
Fjölskyldan var hennar hjartans mál. Hún var afar stolt af börnunum sínum og studdi þau af heilum hug í gegnum lífið. Hún talaði um þau með mikilli hlýju og ást. Barnabörnin voru henni einnig afar kær, og enginn fundur leið án þess að við fengjum að heyra af nýjustu uppátækjum þeirra.
Þegar hún og Hjalli hættu á vinnumarkaði gafst þeim meiri tími til að njóta lífsins saman, og það veitti henni sérstaka ánægju að geta varið fleiri stundum með fjölskyldunni. Sérstaklega var hún þakklát fyrir að fá að hjálpa syni sínum og tengdadóttur með að passa Lóu og Unu. Það fyllti hana stolti og gleði að vera stór hluti af lífi þeirra. Hún og Hjalli tengdust þeim sterkum böndum, og samverustundirnar með þeim voru henni ómetanlegar.
Trúin skipaði einnig stóran sess í lífi hennar. Það var henni mikilvægt að hlusta á Guðs orð og eiga kyrrðarstundir í kirkjunni sinni.
Hún var einstaklega hugulsöm og lagði sig fram við að gleðja aðra. Það er okkur vinkonunum ógleymanlegt þegar hún gaf okkur öllum falleg baðhandklæði með útsaumuðu nafni okkar og táknrænni mynd sem tengdist hverri og einni. Þau voru dæmigerð fyrir hana, persónuleg, vönduð og gefin af alúð og kærleik. Þau fara alltaf með í sumarbústaðaferðirnar okkar, sem hafa verið árlegur viðburður í mörg ár. Í hvert skipti sem við vefjum okkur í handklæðin munum við minnast hennar með hlýju og þakklæti.
Við saumaklúbbsvinkonurnar áttum margar góðar stundir saman í gegnum árin, en síðasta árið gaf okkur minningar sem við munum alltaf varðveita í hjörtum okkar. Loksins létum við verða af því að fara saman til útlanda, og ferðin til Spánar var full af gleði, hlátri og dýrmætum samverustundum. Við höfðum þegar farið að huga að því að gera eitthvað sérstakt saman í haust, þegar klúbburinn okkar yrði 50 ára. Þótt hún verði ekki með okkur mun minning hennar lifa með okkur í hverri samverustund.
Við kveðjum hana með söknuði en einnig með þakklæti fyrir að hafa átt hana að í lífi okkar. Minning hennar mun lifa áfram í hjörtum okkar, í handverkinu sem hún skildi eftir sig og í öllu því hlýja og góða sem hún gaf af sér.
Það verður erfitt fyrir Hjálmar, Palla, Bryndísi og Ármann, tengdabörn, systkini og foreldra og fjölskylduna alla að sjá á eftir ástríkri eiginkonu og móður, tengdamóður og systur en minningarnar munu ylja þeim um ókomna tíð.
Hvíl í friði, elsku vinkona, þín verður sárt saknað.
Þínar vinkonur,
Björk, Una, Svava, Jenný, Ingibjörg og Hulda.
Elsku Kristjana, okkar kæra vinkona, er skyndilega fallin frá alltof fljótt og án nokkurs fyrirvara. Hún var samstarfskona okkar og vinkona í áratugi. Við störfuðum allar saman á Heilsugæslunni Hlíðum þar sem Kristjana var skrifstofustjóri. Kristjana var svo mörgum góðum eiginleikum gædd, var hlý og ávallt til staðar fyrir alla, leysti úr öllum vandamálum með bros á vör. Hún sinnti vel skjólstæðingum Heilsugæslunnar sem og starfsfólkinu sem ósjaldan leitaði til hennar vegna ýmiss konar tækni- og tölvuvandamála en líka vegna svo margs annars sem upp kom. Kristjönu fylgdi léttleiki og kærleikur, hún átti lifandi trú og sýndi það sannarlega í verki. Kristjana hafði mjög góð áhrif á starfsandann á stöðinni með hlýju sinni og jákvæðni. Hún var á hverju ári driffjöður í verkefninu „Hjólað í vinnuna“ og fékk ótrúlegasta fólk til að taka þátt í þeirri keppni. Heilsugæslan Hlíðum var ávallt í efstu sætum innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins meðan Kristjana var með. Hún hjólaði í vinnuna árum saman og munaði ekki um að koma við á Seltjarnarnesinu eða í Mosfellsbæ á leiðinni heim í Breiðholtið. Kristjana var mikil fjölskyldukona, var vakin og sofin yfir velferð barna sinna og barnabarna og mjög stolt af þeim öllum. Hún lét af störfum fyrir tveimur árum og var önnum kafin með sín mörgu áhugamál. Við hittumst reglulega síðastliðin ár og áttum nýlega samverustund þar sem Kristjana lék á als oddi. Hún var og verður okkur ávallt góð fyrirmynd í svo mörgu og við komum til með að sakna hennar mjög mikið. Fjölskyldunni allri sendum við hjartanlegar samúðarkveðjur. Guð blessi minningu elsku Kristjönu.
Valgerður, Ragnhildur, Kristín, Sigríður Har., Eva, Sigríður H. og Anna Björg.