Hafdís Björk Jóhannesdóttir fæddist 27. september 1942. Hún lést 28. mars 2025.
Útför Hafdísar Bjarkar fór fram 16. apríl 2025.
Föstudaginn 28. mars klukkan 13.30 hringdi Sigríður frænka mín í mig og sagði mér að mamma sín hefði dáið fyrir nokkrum mínútum heima í eldhúsinu á Smyrlahrauninu.
Mig langar til að minnast yndislegu systur minnar í nokkrum orðum.
Hafdís ólst upp á Austurgötu 27B og síðar á Austurgötu 16 í Hafnarfirði. Þar bjó hún hjá móður sinni, Halldóru, og fósturpabba sínum, Sæmundi. Hún var í barnaskóla við Lækjargötu og síðar í Flensborgarskólanum. Ung giftist Hafdís, Eiríki Ólafssyni, og áttu þau saman þrjú börn, Elfar, Sigríði og Halldóru. Hafdís og Eiríkur slitu samvistum fyrir nokkuð mörgum árum.
Hafdís var mikil félagskona, hún var í mörgum félögum og starfaði mikið í þeim. Hún var meðal annars sæmd nafnbótinni heiðursfélagi hestamannafélagsins Sörla í Hafnarfirði, ásamt góðri vinkonu sinni, Halldóru Þorvarðardóttur.
Hafdís hugsaði vel um alla sína ættingja og vini. Börn hennar, barnabörn og barnabarnabörn voru henni mjög hugleikin og nutu þau mikils góðvildar hennar. Afar oft var boðið til matarveislu á Smyrlahrauni 19, þar sem allir ættingjar mættu.
Við, bræður Hafdísar, eigum henni mikið að þakka. Hafdís var mjög vinamörg kona. Einkunnarorð mín um Hafdísi eru: Góð kona, vinnusöm, dugleg og ættrækin.
Ég þakka þér fyrir allt það sem þú hefur gert fyrri mig, elsku systir, og ég samhryggist innilega öllum þínum ættingjum og vinum.
Þinn bróðir,
Viðar Sæmundsson.
Dagurinn sem við töldum öll að væri óhugsandi er kominn og hér sitjum við fjölskyldan og erum að fylgja ömmu Hafdísi síðasta spölinn.
Ég kom ungur inn í fjölskylduna og alla tíð síðan hefur Hafdís verið ein af grunnstoðunum í mínu lífi, líkt og allra í fjölskyldunni okkar. Alltaf til staðar, alltaf með augu á okkur, verndandi og hvetjandi í þeim ótal mörgu verkefnum sem við höfum farið í.
Hún var sannarlega einstök, og í raun ógjörningur að setja niður orð á blað í þeim tilgangi að varpa ljósi á það hvað hún þýddi fyrir fjölskylduna sína, ég held það skilji það fáir nema þeir sem þekkja til, en orðið ættarhöfuð eða ættmóðir sinnar fjölskyldu er sennilega búið til eftir Hafdísi okkar.
Hún var í essinu sínu þegar stórfjölskyldan safnaðist saman á Smyrlahrauni hjá henni í mat eða pönnukökum. Eins að mæta í mat hjá okkur, Siggu eða Halldóru og Tóta þar sem hún hafði einstakt lag á að planta sér fyrir okkur í eldhúsinu, koma með góð ráð og punkta eða bara fikta í sósunni og hafa virkt gæðaeftirlit á því sem þar fer fram.
Þetta hefur gegnum tíðina verið algengt umræðuefni hjá okkur Tóta, tengdasonunum í fjölskyldunni sem hún hefur alltaf passað vel upp á og við höfum skemmt okkur vel yfir uppátækjunum hennar. Við félagarnir og þeir yngri, Eiríkur, Sindri Snær, Bjartur, Ýmir og svo Ísar og Aron, höfum líka alltaf átt mikinn bandamann í henni þegar kvenleggurinn í fjölskyldunni fer að stjórna. Hún passaði upp á að við hefðum það alltaf gott og ég er þess fullviss að hún skilaði af sér góðu búi á þeim vettvangi og, elsku amma, við munum líka passa upp á gengið þitt, því skal ég lofa þér fyrir okkar hönd.
Ég er þess líka fullviss að þú fylgist vel með okkur öllum hér eftir sem hingað til, fylgist með börnunum þínum, barnabörnum og langömmubörnum dafna í sínu og passar upp á að allt gangi upp.
Þó að leiðir skilji að sinni munum við leggja okkur fram um að standa okkur, taka höndum saman í breyttri mynd og heiðra gildin sem þú hefur alltaf staðið fyrir og það er að varðveita það fína og fallega samband sem fjölskyldan á og passa upp á hvert annað.
Ég mun hugsa til þín þegar ég geri kjúklinginn sem þú kenndir mér og pönnukökurnar, og ég hringdi margoft í þig til þess að fá uppskriftina aftur, þó ég kynni hana fyrir löngu en mér fannst alltaf betra að hringja í þig bara og heyra hana frá þér.
Takk fyrir tímann sem við fengum með þér, takk fyrir að taka vel á móti mér og vera okkur Betu og krökkunum ætíð stoð og stytta, það hefur alltaf verið gott að hafa þig í okkar liði.
Hinrik Þór Sigurðsson (Hinni).
Hafdís, vinkona mín og mágkona, kvaddi þennan heim skyndilega þann 28. mars.
Fyrstu kynni okkar urðu þegar ég flutti til Íslands sem ung stúlka, rétt fyrir jólin 1971. Mér var tekið vel, og urðum við Hafdís fljótt nánar vinkonur, enda ekki mörg ár á milli okkar. Síðan þá höfum við verið samferða í lífinu í rúmlega 53 ár og átt margar dýrmætar stundir saman – oft yfir góðum kaffibolla. Heppin ég.
Við fórum saman í nokkrar utanlandsferðir, meðal annars til Svíþjóðar, Danmerkur, Tenerife og Edinborgar – sem var bingólottóvinningur. Eftir að Viðar byggði sumarbústað fyrir austan komu Hafdís og Sigríður oft í sveitina til okkar um helgar, sérstaklega yfir sumartímann. Þar áttum við margar góðar samverustundir sem munu lifa í minningunni.
Allir sem kynntust Hafdísi vita að hún var einstaklega góð manneskja, sem skapaði hlýlegt og notalegt andrúmsloft í kringum sig. Andlátið kom skyndilega – engin nýleg veikindi, andlega heil og hún andaðist á heimili sínu. Það er gott að hugsa til þess.
Við Siggi fórum í heimsókn til hennar daginn áður, allt var eins og venjulega – og engum datt í hug að þetta yrði okkar síðasta stund saman. Ég mun sakna hennar sárt, en ég trúi því að við munum hittast siðar.
Með kærleik og þakklæti.
Þín mágkona,
Lisbeth.
Fjölskyldur okkar Hafdísar áttu samleið um áratugaskeið. Hafdís var aðeins um tveggja ára þegar móðir hennar giftist móðurbróður mínum. Tengslin milli fjölskyldna okkar voru mjög náin. Hafdís á þrjá bræður, þá Aðalstein, Viðar og Sigurð. Minningarnar sem urðu til í samveru okkar barnanna, systkina minna og systkinahóps Hafdísar eru ómetanlegar.
Á bernskuárunum okkar átti sjónvarp enn eftir að halda innreið sína og því gafst tími til leikja og samveru. Þá eru þó helst jólaboðin sem standa upp úr í minningunni – með jólasveinum, gleði og öllum tilheyrandi hátíðarljóma. Ég minnist með hlýju sunnudagsbíltúranna, þegar faðir minn, með ömmu og afa með í för, tók alla hersinguna og keyrði suður með sjó. Ferðirnar lágu oft í Hvassahraun, þar sem við settumst út í náttúruna, opnuðum nestiskassa, kveiktum eld og helltum upp á kaffi.
Ég man fyrst eftir Hafdísi þegar hún var um sex ára, við vorum jafnöldrur. Hún var eins og lítil prinsessa, ljóshærð með krullur og löng, dökk augnhár.
Hafdís hafði einstaklega góða nærveru. Hún var hlý, þægileg og góður hlustandi. Hún var alltaf fús til að rétta hjálparhönd. Ef ég þurfti aðstoð við fermingu barna minna stóð ekki á henni að hjálpa til og var hún mætt með bæði tertu og brauðtertuna á fermingarborðið eins og ekkert væri. Hafdís hafði ástríðu fyrir eldamennsku, bakstur og matargerð lék í höndum hennar.
Í gegnum árin tók Hafdís virkan þátt í félagslífi, meðal annars í kvenfélagi, hún hafði gaman af því að spila. Hafdís var vinmörg en fjölskyldan hafði alltaf forgang. Heimili hennar á Smyrlahrauni var miðdepill í lífi hennar og náinna ástvina sem bjuggu í næsta húsi. Þar var Hafdís hinn trausti klettur.
Það var alltaf góð og falleg vinátta á milli okkar Hafdísar. Jafnvel á þeim tímum þegar vegalengdin milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar þótti löng og ekki var auðvelt að hringja á milli en þá bárust fréttir á annan hátt „með andrúmsloftinu“ eins og við sögðum.
Ein skemmtilegasta minningin frá síðustu tveimur árum var þegar við Hafdís ákváðum að gera okkur glaðan dag. Við bókuðum svítu á Hótel Selfossi, fórum í spa og kvöldverð hvar við rifjuðum upp góðar stundir frá liðinni tíð. Daginn eftir ókum við upp í sveit til bróður hennar, Sigga á Skeiðvöllum, þar sem okkur var tekið opnum örmum með glæsilegum veitingum. Á heimleiðinni stoppuðum við í Hveragerði og fengum okkur kvöldmat. Þetta voru tveir fullkomnir sólarhringar sem munu lifa lengi í minningunni.
Það er með trega og söknuði en líka þakklæti sem ég kveð kæra frænku mína. Ég sendi börnum hennar, barnabörnum, bræðrum og öðrum aðstandendum mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Guð blessi minningu Hafdísar.
Oddný I. Björgvinsdóttir.
Það er með sorg í hjarta sem ég sest niður til að minnast föðursystur minnar, hennar Hafdísar, sem var okkur öllum svo kær. Það var aldrei inni í myndinni að þú myndir hverfa frá okkur svona fljótt þó svo að þú værir elst í systkinahópnum. Þú varst sú sem að tókst við keflinu af henni ömmu við að halda utan um fólkið þitt og þá alveg sérstaklega bræður þína Viðar, Alla og Sigga. Þeir voru alltaf undir þínum verndarvæng og sá kærleikur og samstaða sem ríkti á milli ykkar var næstum því áþreifanlegur. Þó svo að samverustundir okkar hafi ekki verið eins margar síðustu ár eftir að ferðunum ykkar Siggu í sumarbústaðin fækkaði, þá hvarflaði eiginlega ekki að mér að ég mundi ekki fá tækifæri til að hitta þig aftur. Ég mun hugsa til þín með þakklæti fyrir allt góða spjallið sem við áttum í gegnum tíðina og hlýja mér við góðar minningar.
Hvíldu í friði elsku Hafdís frænka, þín verður sárt saknað.
Elsku Halldóra, Sigga, Elfar og fjölskyldur, ég votta ykkur innilega samúð mína.
Katrín Ólína
Sigurðardóttir.
Mig langar að minnast með örfáum orðum hennar Hafdísar vinkonu minnar. Það verður erfitt að fá ekki lengur að njóta samveru og návistar þessarar ljúfu og traustu vinkonu sem hún var.
Það var fyrir 60 árum, við báðar að hefja búskap í sama húsi og sömu hæð á Hólabrautinni. Mikil og dýrmæt vinátta myndaðist strax á milli fjölskyldnanna. Fyrstu árin voru Eiríkur og Finnur til sjós og við oft einar heima með börnin. Ótal margar dásamlegar minningar koma upp í hugann. Við alltaf eitthvað að bralla, spila, prjóna, baka og alltaf gaman saman.
Fjölskyldur okkar ferðuðust oft saman um landið, þá voru veiðistangirnar teknar með. Fyrsta veiðin okkar Hafdísar var samvinna, ég setti maðkinn á öngul og hún rotaði fiskinn, það var mikið að gera hjá okkur því veiðin var góð. Við hjónin fórum líka saman í ferðir erlendis og höfðum mikið gaman af.
Hafdís hafði góða nærveru og var hvers manns hugljúfi. Hún var ekki mikið að flíka tilfinningum sínum með kvarti og kveini.
Ég dáðist oft að því hversu mikill kærleikur og samheldni var á milli Hafdísar og bræðra hennar. Þeirra missir er mikill.
Ég bið góðan guð að halda utan um stórfjölskylduna sem var henni allt og gefa henni styrk á sorgarstund.
Ég kveð með söknuði eina af mínum dýrmætustu perlum og er þakklát fyrir að hafa átt Hafdísi í mínu lífi. Ég er einnig þakklát fyrir að dætur okkar, sem fæddust með þriggja vikna millibili, Halldóra og Adda, eigi hvor aðra og ómetanlega vináttu eins og við áttum.
Hver minning dýrmæt perla að
liðnum lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug
þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem
gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að
kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Guðrún Júlíusdóttir (Rúrý).