Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Indverskar öryggissveitir leituðu í gær ákaft að byssumönnum sem réðust á ferðamenn í Kasmírhéraði í fyrradag og felldu þar 26 manns. Er þetta mannskæðasta árás á óbreytta borgara sem framin hefur verið í héraðinu í um aldarfjórðung.
Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, fundaði í gær með ríkisstjórn sinni og helstu yfirmönnum hers, lögreglu og leyniþjónustu vegna árásarinnar. Modi var í opinberri heimsókn í Sádi-Arabíu þegar árásin var gerð, og sneri hann þegar í stað heim. Fordæmdi hann árásina og hét því að hinum seku yrði refsað fyrir ódæðisverkið.
Öll fórnarlömbin voru indverskir ríkisborgarar fyrir utan einn sem kom frá Nepal. Árásin átti sér stað á vinsælum ferðamannastað í Pahalgam-dalnum, en tugþúsundir ferðamanna heimsækja hann á ári hverju.
Engin hryðjuverkasamtök hafa enn lýst yfir ábyrgð sinni á ódæðinu, en aðskilnaðarsinnar í héraðinu, sem vilja sameinast Pakistan, hafa staðið fyrir uppreisn gegn yfirráðum Indverja þar frá árinu 1989. Indverjar hafa sakað stjórnvöld í Pakistan um að standa fyrir ofbeldisverkum í Kasmírhéraði, en Pakistanar neita þeim ásökunum.
Pakistanska utanríkisráðuneytið fordæmdi í gær árásirnar og vottaði fórnarlömbum og aðstandendum þeirra samúð sína. Þá neitaði ráðuneytið því að stjórnvöld í Pakistan hefðu átt nokkra aðild að árásunum. Yfirlýsing Pakistana kom sama dag og varnarmálaráðherra Indlands, Rajnath Singh, hét því að þeir sem bæru ábyrgð á árásunum myndu fá að „heyra svar okkar hátt og skýrt.“
Sagði Singh að Indverjar myndu ekki bara ráðast á þá sem frömdu árásina, heldur myndi svar Indverja einnig ná til „þeirra sem földu sig á bak við tjöldin til að fremja þetta samsæri.“ Singh sagði hins vegar ekki hverjir það væru sem Indverja grunaði að stæðu á bak við árásina.
Óttast er að árásin geti leitt til aukinnar spennu á milli Indlands og Pakistans, en skærur brutust út á milli ríkjanna í Kasmírhéraði árið 2019 eftir að 40 indverskir lögregluþjónar voru felldir í sjálfsvígsárás í héraðinu.